Hvernig næ ég mér í maka?

Það þarf ekki að vera flókið að kynnast nýju fólki. …
Það þarf ekki að vera flókið að kynnast nýju fólki. Að opna á þá hugmynd að veröldin sé full af áhugaverðu fólki er vanalega fyrsta skrefið. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem er að leita sér að maka.  

Hæ. 

Ég bý einn og á engan maka. Ég efast um að þessi maki sé til? Hvaða ráð ertu með fyrir einhleypt fólk?

Kveðja, V.

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæll. 

Til að svara spurningunni þinni, þá er svar mitt já  ég held að þessi maki sé til. Að það sé til áhugaverður heilbrigður einstaklingur að fara í samband með fyrir alla sem hafa áhuga á slíku.

Ég er með nokkur góð ráð sem þú getur byrjað að nota, en ein besta fjárfesting fyrir alla á þínum stað er að fara í ráðgjöf og fá stuðning við að koma sér í rétta sambandið. 

Það eru til alls konar kenningar um bestu leiðirnar til að fara í samband og alls konar sjálfshjálpabækur sem fjalla um að komast á fast. Það eru einnig til margar góðar bækur sem kenna heilbrigð samskipti og það að upplifa nánd og ást í langtímasamböndum  en þær seljast mun minna. 

Ég vinn aðallega með fólki sem upplifði mörg áföll í æsku, skert tengsl við foreldra sína, sem fer síðan í samband með litla hæfni til að raunveruleikatengja sig, vita langanir og þarfir og tjá þær í nánum samskiptum. 

Það geta allir nýtt sér þau verkfæri sem ég kenni að nota og miðast fyrst og síðast við að æfa einstakling í að elska sig á heilbrigðan hátt og þannig öðlast meiri færni í að elska annað fólk þannig líka. 

Það er alltaf gott að skoða tengsl við foreldra og fyrri sambönd með aðstoð fagaðila, sér í lagi ef þessi fagaðili getur bent á eitthvað sem gott væri að skoða nánar svo þú þurfir ekki að fara í gegnum það sama í ástalífinu aftur og aftur. 

Sem dæmi: Ef fyrra samband þitt gekk ekki upp af því að fyrrverandi maki þinn drakk of mikið og þú varðst stjórnsamur, af hverju þá ekki að prófa að fara í samband með einhverjum sem drekkur ekki? Einhverjum sem er með sitt á hreinu og þarf ekki að bjarga eða sjá um. 

Þau ráð sem ég er með fyrir þá sem eru einhleypir er að skrifa niður draumamakann og draumasambandið. Hvað myndir þú gera í þannig sambandi? Hvað myndirðu ekki gera? Ef þú æfir þig í að setja sjálfum þér heilbrigð mörk verða mörkin þín þannig að þú þarft líklegast ekki að segja þau upphátt. Það mun sjást langa leið á þér að þú ert heilbrigður maður sem vilt þér sjálfum og öðru fólki vel. 

Síðan mæli ég með að taka allt drama út úr því að fara á stefnumót og vera forvitinn um að kynnast öðru fólki. 

Ég mæli með því við alla karlmenn að prófa að bjóða konum sem þeir heillast af á stefnumót og fara hægt í sakirnar þegar þú ert að stofna til sambands. Það tekur að minnsta kosti ár að kynnast nýju fólki og jafnvel óraunhæfar kröfur að halda að það sé hægt að þekkja annað fólk alveg. Sama hversu lengi maður hefur umgengist það. 

Samfélagið á það til að hlutgera konur og karla sem eru ekki í hjónabandi, sem mér finnst mjög áhugavert að skoða. Þá eru ákveðnar skoðanir á fólki á alls konar aldri sem hefur valið sér það að vera ekki í hjónabandi eða sambandi lengi. Raunveruleikinn er sá að fólk er alls konar og enginn alveg með það þegar kemur að ást og nánd. Það er til fullt af góðum heilbrigðum samböndum en það er líka til fullt af mjög óheilbrigðum samböndum sem hafa alvarleg áhrif á heilbrigði fólks. 

Raunveruleikinn er sá að við erum öll mjög mikils virði – sama hvað við segjum eða gerum. Það er grunnþörf hverrar manneskju að elska og vera elskaður á móti. Í raun er talið að það sé jafn mikilvægt að elska og að borða. 

Þeir sem eru stjórnlausir í ástum eru vanalega stjórnlausir gagnvart peningum og mat líka. Svo ef þú ert að leita að heilbrigðum maka að elska þá er mikilvægt að skoða jafnvægi fólks á öllum öðrum sviðum í lífinu. 

Það er alltaf gott að minna sig á hvað er heilbrigð hegðun fullorðins einstaklings. Heilbrigður einstaklingur veit virði sitt og færþað ekki frá öðru fólki. Heilbrigður einstaklingur setur mörk og tekur mörkum annarra. Heilbrigður einstaklingur er með færanleg mörk, er í jafnvægi og er mennskur. Hann tekur mennsku annarra og veit að það er enginn fullkominn í þessu lífi. Heilbrigður einstaklingur kann að taka ábyrgð á sér en getur einnig stólað á annað fólk. Heilbrigður einstaklingur getur verið skipulagður en getur einnig verið „spontant“ og forvitin/n.

Andstæðan við þetta er einstaklingur sem tekur virði sitt frá öðru fólki. Hann/hún er ekki með heilbrigð mörk heldur tekur öllu því sem er sagt og gert persónulega. Þessi einstaklingur er ekki með færanleg mörk, sér veröldina mjög svart/hvíta og er með skap sem svipar til íslenska veðursins. 

Til að taka fyrsta skrefið í átt að því að fara í samband mæli ég með að láta vinina vita hvernig maka þú ert að leita að. Ekki sitja heima og bíða heldur farðu út og hafðu augu og eyru opin.  

Ég hef heyrt af mörgum áhugaverðum Tinder-hjónaböndum, blindum stefnumótum og alls konar leiðum til að finna gott fólk. Ég veit að fólk hefur hist á kaffihúsi, í sundi, á leikskólanum að sækja börnin sín eða jafnvel bara úti í búð á miðvikudegi. Það er til fullt af áhugaverðu fólki sem er tilbúið í samband núna. Þú þarft bara að opna augun og hafa smá trú á mannkyninu.

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is