Magnús Scheving biðst afsökunar

Magnús Scheving baðst afsökunar í morgun.
Magnús Scheving baðst afsökunar í morgun. Samsett mynd

Frumkvöðullinn Magnús Scheving baðst í morgun afsökunar á ummælum sem hann lét falla í hlaðvarpsþætti Bergsveins Ólafssonar, 24/7, í vikunni. Magnús birti afsökunarbeiðni í sögu á Instagram. Í hlaðvarpsþættinum talaði hann meðal annars um ofbeldi og túlkun á því hvað væri ofbeldi. Ummæli hans féllu í grýttan jarðveg á samfélagsmiðlum.  

Magnús tók til dæmis dæmi um að ofbeldi gæti verið af hendi konu sem neitaði manni sínum um kynlíf. Í því samhengi velti hann fyrir sér af hverju hóruhús væru til. 

„Orð mín voru því miður mjög ömurlega sögð og því vil ég biðjast afsökunar á. Í umræddum podcastþætti barst umræðan að vissu málefni, því miður komu orðin óboðlega út úr mér, heimskulega sagt og vona ég að þessi mistök mín um þetta þarfa málefni, ofbeldi, sem ég því miður þekki vel, sé ekki togað og teygt. Til allra þeirra sem ég kann að hafa sært með orðum mínum vil ég biðjast afsökunar,“ skrifar Magnús. 

Magnús var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín í þættinum á samfélagsmiðlum. Edda Falak viðskipta­fræðing­ur, íþrótta­kona og áhrifa­vald­ur var meðal þeirra sem fordæmdu ummæli Magnúsar. 

„Magnús Scheving talar um í nýjasta podcastþætti Begga að það sé ofbeldi að fá ekki kynlíf frá maka sínum. Hann veltir því líka fyrir sér af hverju það séu til hóruhús og spyr síðan „er það kannski út af því að karlar fá ekki nóg að ríða?“ skrifaði Edda á Twitter eftir að hún hlustaði á þáttinn. 

Magnús Scheving birti afsökunarbeiðni á Instagram í morgun.
Magnús Scheving birti afsökunarbeiðni á Instagram í morgun. Skjáskot/Instagram
mbl.is