Lykillinn að 75 ára löngu hjónabandi Carter-hjónanna

Fyrrverandi forsetahjón Bandaríkjanna, Jimmy og Rosalynn Carter, árið 2019. Þau …
Fyrrverandi forsetahjón Bandaríkjanna, Jimmy og Rosalynn Carter, árið 2019. Þau fögnuðu 75 ára brúðkaupsafmæli hinn 7. júlí síðastliðinn. AFP

Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans Rosalynn Carter fögnuðu 75 ára brúðkaupsafmæli sínu í síðustu viku. Í viðtali við Good Morning America sögðu þau hjónin lykilinn að löngu hjónabandi að gefa hvort öðru nægilegt pláss til að gera sína eigin hluti.

Jimmy Carter var forseti Bandaríkjanna frá 1977 til 1981. Hann var öldungadeildarþingmaður Georgíuríkis frá 1963 til 1967 og ríkisstjóri frá 1971 til 1975.

Jimmy er 96 ára en Rosalynn 93 ára. Þau gengu í það heilaga í 7. júlí árið 1946 og eiga fjögur börn. 

Carter hjónin árið 2009.
Carter hjónin árið 2009. AFP

Þótt lykilinn að löngu hjónabandi Carter-hjónanna sé að gefa hvort öðru pláss og frið til að sinna sínum eigin áhugamálum þá eiga þau mörg sameiginleg áhugamál. 

„Við finnum okkur alltaf eitthvað til að gera saman, eins og stangveiði og fuglaskoðun, og bara að fara út að tjörninni og veiða fisk,“ sagði Jimmy Carter. 

Trúin hefur líka verið leiðarljós þeirra hjóna í gegnum árin og hjálpað þeim við að halda neistanum logandi í gegnum árin. „Þegar ég er fer utan og Rose er heima, þá vitum við að við erum bæði að lesa sama Biblíutextann, og þótt við séum ekki saman í raunheimum erum við að hugsa um sömu ritninguna frá Guði, við förum í sömu átt áður en við förum að sofa. Það hjálpar mikið,“ sagði Jimmy Carter. 

Annar fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, og eiginkona hans Hillary heimsóttu þau hjónin um helgina í tilefni af brúðkaupsafmælinu. 

https://www.goodmorningamerica.com/news/story/jimmy-rosalynn-carter-discuss-extraordinary-75-year-marriage-78615693

mbl.is

Bloggað um fréttina