Sigga Dögg fór í kynlífs- og nektarspa

Sigga Dögg heimsótti nektarspa í Veróna á Ítalíu í gær. …
Sigga Dögg heimsótti nektarspa í Veróna á Ítalíu í gær. Hún segir upplifunina vera ótrúlega ó-erótíska þrátt fyrir að þar hafi mátt stunda kynlíf. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg kynfræðingur, heimsótti nektarspa í Veróna á Ítalíu í gær. Sigga lýsir upplifuninni sem ótrúlega ókynferðislegri þrátt fyrir að hafa séð fólk stunda munnmök í gufunni og sjálfsfróun í sánuklefanum en leyfilegt er að stunda kynlíf í heilsulindinni.

Sigga segir frá upplifun sinni á Instagram í dag. „Gvuð minn almáttugur hvað það er mikið frelsi í nekt! Já í nekt! Ég fór sumsé í spa hér í Veróna því þessi ferð er smá rannsóknarleiðangur. Eftir 2 mínútur í spa-inu hætti nektin að vera vandræðaleg, hvað þá kynferðisleg! Og samt var ég stað þar sem það mátti stunda kynlíf,“ segir Sigga. 

Hún segir að þarna hafi bara verið allsbert fólk í sundi, sánu, gufu og pottinum sem heilsaðist og kippti sér lítið upp við sína eigin nekt eða annarra. Fólkið hafi verið af öllum stærðum og gerðum á öllum aldri. 

Sigga segir flesta í spainu hafa aðeins talað ítölsku svo hún gat ekki spjallað mikið. Flest komu saman, karl og kona, en einnig voru nokkrir stakir karlmenn á svæðinu. Það vakti athygli hennar að dýrast var fyrir staka karla að koma í spa-ið, ódýrast fyrir konur og pör þurft að greiða upphæð einhverstaðar á milli hæsta og lægsta verðsins.

„Og tott í einni gufunni, kelerí í pottinum, fróun í sánunni og sleikur í sundlauginni. Hugljúf rómantísk popp tónlist hljómaði um staðinn, það var boðið upp á mat (sem maður borðaði með handklæði utan um sig) og svo var bara spjall og slökun og þrykking í þar til gerðum herbergjum,“ segir Sigga. 

Sigga lýsir herbergjunum betur í story á Instagram. Hún segir herbergin hafi mörg hver verið með götum, gluggum og speglum, svo hægt sé að fylgjast með fólki þar inni.

Hún segir einn mann hafa verið ágengan við sig en eftir að hún afþakkaði boð hans hafi hann látið hana í friði. Starfsfólk hafi svo fylgst með og athugað hvort ekki væri allt í lagi hjá öllum. 

„Þetta var furðulega ó-erótísk upplifun þar sem mér sýndust vera margar óskrifaðar kurteisis- og leikreglur. Eins og hver er með hverjum og hver á frumkvæðið og í hvaða takti hlutir gerast,“ segir Sigga. 

Hún segist ætla að reyna skoða fleiri sambærilega klúbba á meðan hún er á Ítalíu. „Ég verð að segja að mér er það gersamlega fyrirmunað að skilja af hverju það sé ekki a.m.k. einn svona klúbbur á Íslandi?,“ skrifar Sigga.


 

mbl.is