Endurgerði Playboy-myndatöku 75 ára

Dolly Parton kom eiginmanni sínum á óvart með myndatöku.
Dolly Parton kom eiginmanni sínum á óvart með myndatöku. Samsett mynd

Tónlistarkonan Dolly Parton gaf eiginmanni sínum, Carl Thomas Dean, óvenjulega afmælisgjöf í vikunni. Hin 75 ára gamla Parton endurgerði Playboy-myndatöku. Upprunalega myndin af henni prýddi forsíðu Playboy árið 1978. 

Parton klæddist kanínubúningnum fræga í báðum myndatökunum. Hún greindi frá því hvernig hún ætlaði að koma eiginmanni sínu á óvart í myndskeiði á instagramsíðu sinni. Í myndskeiðinu mátti sjá innrammaða mynd af gömlu og nýju Dolly Parton. Annars vegar forsíðunni síðan 1978 og hins vegar forsíðunni sem Parton lét búa til fyrir afmæli Deans. 

Parton hefur nokkrum sinnum lýst yfir áhuga á að sitja aftur fyrir á forsíðu tímaritsins. Máli sínu til stuðnings hefur hún meðal annars sagt að brjóstin hafi ekkert breyst en tónlistarkonan er þekkt fyrir að hafa farið í fjölda fegrunaraðgerða. 

„Nú, ég er 75 og tímaritið er hætt að koma út. Eiginmaður minn elskaði alltaf upprunalegu forsíðuna á Playboy,“ sagði Parton. „Ég var að reyna að finna eitthvað til þess að gera hann glaðan. Honum finnst ég enn flott eftir 57 ár og ég ætla ekki að reyna að fá hann ofan af því.“

Parton og Dean eiga eitt farsælasta hjónaband í heimi þeirra ríku og frægu. Hún var tvítug þegar hún giftist hinum 23 ára gamla Dean, sem hefur að mestu haldið sig utan sviðsljóssins.

View this post on Instagram

A post shared by Dolly Parton (@dollyparton)

mbl.is