Sláandi líkur Brad Pitt en erfitt að finna konu

Nathan Meads, tvífari Brads Pitts, og leikarinn Brad Pitt eru …
Nathan Meads, tvífari Brads Pitts, og leikarinn Brad Pitt eru mjög líkir. Samsett mynd

Nathan Meads er venjulegur einstæður faðir frá Oxford á Englandi fyrir utan þá staðreynd að hann lítur alveg eins út og leikarinn heimsfrægi Brad Pitt. Það eru ekki bara kostir sem fylgja því að líta út eins og einn kynþokkafyllsti maður í heimi. 

„Ég var tvítugur þegar mér var fyrst sagt að ég liti út eins og Brad Pitt og það hélt áfram næstu tíu árin en ég hló alltaf bara að því,“ sagði hinn 35 ára gamli Meads í viðtali á vef New York Post. Meads, sem vinnur sem verktaki, byrjaði fyrir þremur árum að herma eftir Pitt eftir mörg atvinnutilboð. Dorien Rose, fræg Angelinu Jolie-eftirherma, hafði meira að segja samband við hann. Hann græðir nú í kringum 250 til 500 pund fyrir hvern viðburð eða 40 til 90 þúsund íslenskra króna. 

„Sumir segja að ég hljóti að vera skyldur honum eða mamma mín hafi haldið fram hjá með honum,“ sagði Meads. Hann segir marga líta tvisvar á sig þegar hann mætir fólki úti á götu eða biðja um mynd. Sumt fólk laumast einnig til þess að taka mynd. 

Brad Pitt, sumarið árið 2016.
Brad Pitt, sumarið árið 2016. AFP

Það hefur hins vegar reynst hinum tveggja barna föður erfitt að finna ástina. Hann segir margar konur hafa óeðlilegan áhuga á hinum 57 ára gamla leikara sem hann líkist. „Það eru margar konur sem reyna við mig,“ sagði hann. Konur trúa ekki hversu líkur hann er Pitt og saka hann um að vera með plataðgang í stefnumótaforritum. 

„Ég var að eyða stefnumótaaðganginum mínum og ætla bara að vera einhleypur,“ sagði Meads. „Ég er hvort sem er ekki að leita að ást og langar ekki í samband þar sem líf mitt snýst um dætur mínar og þær eru í forgangi. Ég er ekki að leita að minni Angelinu.“

Tvífari Pitts hefur ekki hafa hitt leikarann fræga en vonast til þess að gera það einn daginn. Meads finnst Pitt frábær leikari og segir þá eiga margt sameiginlegt fyrir utan útlitið. Upphæðirnar á bankareikningum þeirra eru kannski helst það sem greinir þá í sundur. 

Eins og sjá má á myndum hér að neðan sem Meads hefur birt af sér á Instagram er hann afar líkur Pitt.  

mbl.is