„Móðir mín er öryrki, í ofþyngd, frekar kærulaus varðandi heimili og útlit“

Það getur verið vont að flækjast of mikið inn í …
Það getur verið vont að flækjast of mikið inn í hjónband foreldra sinna. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem hefur áhyggjur af álagi á föður sínum. 

Góðan dag.

Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á almennilega að orða þetta en þetta hefur legið þungt á mér ansi lengi og ég ákvað að skrifa af því mér stendur alls ekki á sama.

Foreldrar mínir eru gott fólk og búin að vera saman í um 40 ár. Móðir mín er öryrki, í ofþyngd, frekar kærulaus varðandi heimili og útlit, nennulaus nema þegar kemur að því að versla. Faðir minn er hins vegar andstæðan; óeigingjarn, í fastri vinnu, rekur eigið fyrirtæki og sér um heimilið (matarinnkaup, fjármál, gæludýrið og svo framvegis) en orðinn mjög þreyttur og vill sjá meiri vilja og þátttöku frá hinum helmingnum. Hvernig er hægt að virkja fólk saman þannig að heimilislífið verði jafnara, þægilegra og jákvæðara fyrir alla?

Mbk. dóttir

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæl dóttir og takk fyrir einlægt bréf. 

Það er ýmislegt sem hjón geta gert til að virkja hvort annað til góðra verka. Það sem mér finnst hollast að gera er að fólk í samböndum og hjónaböndum geri samning sín á milli þar sem tekið er fyrir allt sem snýr að því að reka heimili og því skipt á milli einstaklinga. 

Það er langt frá því eðlilegt að einn aðili beri hitann og þungann af því að búa til peninga og sjá um allt sem snýr að heimilinu. 

En svona geta hlutirnir þróast með árunum ef fólk parast saman í sambönd sem hefur fengið athygli og styrkingu fyrir ólíka hluti á mótunarárunum sínum. Eins þegar veikindi eða stjórnleysi hrjá annan eða báða aðilana. 

Nú er ég alls ekki að alhæfa um foreldra þína en ég myndi hvetja þau til að leita til sérfræðings þar sem farið er yfir sambandið, samskiptin og verkaskiptinguna þeirra á milli. 

Þitt hlutverk í lífinu að mínu mati er að elska sjálfa þig aðeins meira en foreldra þína. Af þeim sökum tel ég heilbrigt að þú leyfir þeim að finna út úr sínum málum og setjir áhersluna á þig. Ertu í sambandinu sem þig langar að vera? Vinnurðu við eitthvað sem þú hefur áhuga á? Áttu börn? Gæludýr? Vini? Áhugamál sem gera lífið skemmtilegra?

Það sem vinsælar kenningar segja okkur að gerist stundum í mynstri foreldra og dóttur er að hún þorir ekki að stíga inn í lífið sem hana dreymir um að lifa. Hlutverkaruglingur getur farið í gang og alls konar meðvirknimynstur sem halda vandamálinu föstu og koma í veg fyrir eðlilega hreyfingu og þróun í samskiptum. 

Hjónaband á ekki að vera þrælabúðir  heldur fallegt samkomulag sem tveir sjálfstæðir einstaklingar gera sín á milli. Ég vona að þú sért að æfa þig í þá veruna!

Gangi þér alltaf sem best. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál