Kanye kenndi henni að lifa í augnablikinu

Kim Kardashian.
Kim Kardashian. AFP

Þrátt fyrir að standa í skilnaði fór athafnakonan Kim Kardashian fögrum orðum um Kanye West í viðtali á dögunum. Þar sagði hún West hafa kennt sér að vera öruggari með sjálfa sig og lifa í augnablikinu. 

Kardashian var gestur Kristen Bell og Monicu Padman í hlaðvarpinu We Are Supported By ... á dögunum. „Ég komst á þann stað. Kannski var það hluti af því að vera í sambandi með Kanye í áratug, manni sem gæti ekki verið meira sama um hvort fólki líkar vel við hann eða ekki svo lengi sem hann var trúr sjálfum sér. Það kenndi mér svo margt og að vera bara ég, og að lifa í augnablikinu,“ sagði Kardashian. 

Hún bætti við að hún hefði alltaf reynt að láta fólki líka við sig og gera og segja allt það sem fólk bjóst við af henni. Síðan þá hefur hún lært að vera hún sjálf, sama hvað öðru fólki finnst. „Það þarf ekki öllum að líka vel við þig. Svo lengi sem ég er ég sjálf, og svo lengi sem ég er að gera hlutina eins og mig langar til. Ég á bara eitt líf og ég vil lifa því fyrir mig. Ég lærði að vera öruggari með sjálfa mig og hafa ekki jafn miklar áhyggjur af því hvað fólki finnst um mig,“ sagði Kardashian. 

Kardashian og West gengu í hjónaband á Ítalíu í maí árið 2014. Þau eiga saman fjögur börn. Kardashian sótti um skilnað við West í febrúar á þessu ári.

Kim Kardashian og Kanye West eru að skilja.
Kim Kardashian og Kanye West eru að skilja. AFP
mbl.is