Ástaryfirlýsingar á Facebook – korter í skilnað?

Kanye og Kim voru hið sannkallaða ofurpar. Ástaryfirlýsingar þeirra á …
Kanye og Kim voru hið sannkallaða ofurpar. Ástaryfirlýsingar þeirra á samfélagsmiðlum voru margar. Nú hefur sambandið runnið sitt skeið. AFP

Yfirlýsingar um ást á samfélagsmiðlum geta verið ávanabindandi í samfélagi þar sem að vera í góðu sambandi þykir merki um ákveðna farsæld og velgengni í lífi. Stundum geta færslur á samfélagsmiðlum haldið vonlausu sambandi gangandi í smá tíma. Sálfræðingurinn Elizabeth Shaw segir að sú ímynd sem við sjáum á samfélagsmiðlum blekki og fólk komist ekki hjá að leggja raunverulega vinnu í ástarsambönd sín. Hún gefur ráð um hvernig má hlúa að samböndum á tímum samfélagsmiðla.

Raunveruleikinn allt annar

„Margt frægt fólk og áhrifavaldar nota sambönd sín sér í hag. Ástaryfirlýsingar, sögur um hvernig þau kynntust og hvaða sameiginlegu drauma þau eiga; allt eru þetta vel útfærðar sögur sem settar eru fram á samfélagsmiðlum og allir læka,“ segir Shaw.

„Það skýtur því skökku við þegar hið ofur ástfangna par hættir saman skömmu síðar. Þá verðum við vitni að mjög miklu misræmi. Voru þau svo upptekin af því að setja fram ákveðna mynd af sér á samfélagsmiðlum að þau gleymdu að verja jafnmiklum tíma í sjálft sambandið? Var ímyndin það vel útfærð að enginn áttaði sig á að raunveruleikinn var allt annar?“

Viljum ekki bregðast öðrum

„Þegar við verðum ástfangin birtum við ákveðna mynd af sambandinu fyrir fjölskyldu og vini. Við einbeitum okkur að hinu jákvæða í fari makans. Þegar við ákveðum svo að gifta okkur verjum við miklum tíma í að skipuleggja hinn fullkomna dag og eyðum stundum langt um efni fram. Vinum og ættingjum finnst þeir eiga eitthvað í þessu frábæra og ástfangna pari og stundum finnst parinu þeim bera skylda til þess að halda áfram að brosa og halda leyndu því sem ekki er fullkomið.

Einkalíf er mikilvægt en það er líka mikilvægt að geta rætt við aðila sem maður treystir utan sambandsins. Þegar samband bíður skipbrot er fólki oft umhugað um hvernig aðrir muni taka fréttunum. Er maður að bregðast öllum? Þá gæti samfélagleg staða manns líka beðið hnekki. Saman voruð þið kannski ofurpar eða áttuð saman fyrirtæki. Þetta gæti aukið á streituna og jafnvel komið í veg fyrir að þú reynir að laga það sem er brotið.“

Fljótlega fer fólk að finna fyrir þessu misræmi. Myndirnar endurspegla ekki raunveruleikann. „Fólk dáist að þessu fullkomna lífi og segir við þig „ó, hvað þú hlýtur að vera hamingjusöm“. En þér líður sífellt verr.“

Læk á samfélagsmiðlum geta haldið sambandi gangandi

„Þetta misræmi fær fólk til þess að verja enn meiri tíma í að endurspegla hamingjusamt samband. Það tjaldar öllu til, fer á glæsileg stefnumót og í ógleymanleg ferðalög. Tekur myndir allan tímann þar sem yfirskriftin er: „Sjáðu okkur, hvað við erum ástfangin og rómantísk.“ Vinir skrifa athugasemdir og þetta er það sem heldur fólki gangandi í smá tíma. En það geta runnið upp tímar þar sem þessi aðferð dugar ekki lengur til þess að halda sambandinu gangandi. Par sem nærist á slíkri athygli vantar kannski eitthvað annað í lífið sem er mun mikilvægara.“

Elizabeth Shaw gefur loks lesendum sínum ráð um hvernig má hlúa að sambandi á tímum samfélagsmiðla.

Hvernig á að hlúa að sambandi?

Settu raunveruleg samskipti í forgang 

Ef þú ert sífellt að tala um næsta skipti sem þið sjáist saman á almannafæri eða í fjölskylduboðum þá er tímabært að líta sér nær. 

Leystu vandann strax 

Talið saman reglulega og komist að samkomulagi strax. Ekki ýta vandanum frá, jafnvel þótt þið bæði viljið varpa sem bestri mynd af ykkur út á við.

Einkalíf eða opinbert líf?

Verið sammála um hvað þið birtið opinberlega og hversu oft. Stundum fer annar aðilinn af stað með eitthvað sem hinum finnst óþægilegt. Hafið líka í huga að gæðatími utan samfélagsmiðla er nauðsynlegur öðru hvoru.

Haltu þessu raunverulegu 

Reyndu að halda þig á jörðinni. Það þýðir ekki að þú þurfir að ræða um öll vandamálin en bara að hafa bak við eyrað að vera ekki að sýna of mikla glansmynd. Það gæti bara aukið á streituna þótt auðvitað sé notalegt að vera stundum uppi á stalli. 

Leitaðu til vina 

Það er gott að eiga góða vini sem maður getur leitað til. 

Ekkert misræmi

Gakktu úr skugga um að þín hversdagslega hegðun í sambandinu sé í samræmi við þá mynd sem þú vilt almennt draga upp af þér. Gildi þín verða að vera i samræmi við hvernig þú kemur fram í ástarsambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál