Sigga Dögg berskjölduð á skjánum

Sigga Dögg fjallar um kynlíf og öllu sem viðkemur því …
Sigga Dögg fjallar um kynlíf og öllu sem viðkemur því í þáttunum sem sýndir verða á Stöð 2 næstu miðvikudagskvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur segir það hafa verið ákveðna áskorun, en jafnframt ótrúlega frelsandi, að taka upp þættina Alls konar kynlíf sem fara í loftið á Stöð 2 í kvöld. Í þáttunum fjalla Sigga Dögg og Ahd Tamimi um, líkt og nafnið gefur til kynna, alls konar kynlíf.

Sex þættir eru í þessari fyrstu seríu af þáttunum og verða þeir sýndir næstu miðvikudagskvöld. Í hverjum þætti er ákveðið þema og eru þemun meðal annars kynfæri, sjálfsfróun, nekt, samskipti og stefnumótamenning. 

„Við reynum að skoða hvert þema fyrir sig eins vítt og opið og við getum,“ segir Sigga Dögg í samtali við Smartland. Ahd er ekki jafn þekktur og Sigga, sem talað hefur opinberlega um kynlíf og allt sem því tengist í mörg ár, en þau þekktust ekki fyrir gerð þáttanna.

„Það gerðust bara ótrúlegir töfrar þegar við hittumst fyrst. Ég hafði aldrei hitt hann áður, vissi ekkert um hann og við fórum bara strax í megagrín. Við náðum húmor hvort annars og hlógum ógeðslega mikið. Svo ég hugsaði að fyrst ég gæti hlegið með manninum og grínast um kynlíf við hann þá væri þetta ekkert mál,“ segir Sigga. 

Þættirnir eru ekki sniðnir að neinum ákveðnum aldurshópi og eru ekki í beinum skilningi fræðsluþættir. Heldur eru þeir hannaðir sem tækifæri til að opna samtalið og brúa bil á milli kynslóða. Fólk geti horft á þættina, speglað sjálft sig í þeim og spurt sig hvernig það upplifir þessa hluti. Þá er einnig slegið á létta strengi og því hægt að skilgreina þættina sem einhvers konar fræðsluskemmtiþætti að sögn Siggu.

„Ég vil nota allar mögulegar leiðir til að opna umræðuna og skoða af hverju við erum eins og við erum. Hugmyndin að þáttunum kom þegar ég var í yndislegu kvenrithöfundapartíi í Gunnarshúsi í janúar á síðasta ári. Þar fór ég óvænt að spjalla við tvær kvikmyndagerðarkonur og við förum að tala um efni,“ segir Sigga og segir að þær hafi komist að því að allar langaði þær til að skapa efni með femínískri nálgun og kynlífstengt.

Sigga Dögg og Ahd Tamimi þekktust ekki áður en þau …
Sigga Dögg og Ahd Tamimi þekktust ekki áður en þau byrjuðu að skrifa þættina en við fyrstu kynni myndaðist dásamlegt samband.

Hlutirnir mega vera vandræðalegir

„Mér leið ógeðslega vel og við vorum með alveg geggjað tökulið. Við vorum bara konur, Ahd var eini karlmaðurinn við tökurnar. Það var ótrúlega skemmtilegt og svolítið öðruvísi. Við vorum með fallega og góða vinnuorku,“ segir Sigga. 

Hún segir að í þáttunum verði einnig fjallað um ýmislegt sem fólki þykir vandræðalegt og líka eitthvað sem henni þyki vandræðalegt. Því þótt Sigga sé kynfræðingur og hafi talað um kynlíf opinberlega til fjölda ára er ýmislegt sem henni þykir vandræðalegt. „Og það er fullkomlega eðlilegt að eitthvað sé vandræðalegt. Hlutirnir mega vera vandræðalegir,“ segir Sigga og rifjar upp atvik þar sem þau fjalla um stunur. 

„Ég kann ekki að stynja. Þar er Ahd ótrúlega sterkur og hann er að reyna að kenna mér að stynja. Og þú sérð bara hvað mér finnst þetta ógeðslega óþægilegt. Mig langaði líka að setja mig í aðstæður þar sem ég er ekki hin alvitra ugla,“ segir Sigga.

„Ég bað svo tökuliðið reglulega afsökunar á allri þessari nekt sem ég var að troða upp á þau. Við tókum smá spjall um hvernig við þyrftum að vinna okkur úr því ef það kæmu upp einhver óþægileg atvik og hvað við tækjum með okkur heim eftir daginn. Við reyndum að passa svolítið vel hvort upp á annað, sem gerði það að verkum að það var ótrúlega auðvelt að slaka á og leyfa sér að leika sér og ég fór oft töluvert lengra en ég sjálf hafði gert ráð fyrir. Þá fékk ég stundum bakþanka og spurði hvort það væri hægt að klippa eitthvað út,“ segir Sigga en segir þó að í fæstum tilvikum hafi þurft að klippa mikið út.

Tilgangurinn ekki að stuða

Sigga segist ekki vera stressuð fyrir því að þættirnir fari í loftið en hún sé þó búin að undirbúa sitt nánasta fólk fyrir að hún verði kviknakin á skjánum næstu miðvikudagskvöld. 

„Ég er mikið búin að hugsa þetta og ég er náttúrlega móðir. Ég er búin að ræða þetta mikið við börnin mín og fjölskylduna líka. Ég hélt fjölskyldufund þar sem ég útskýrði fyrir þeim að ég yrði nakin í sjónvarpinu, með stórfjölskyldunni. Bara til að undirbúa þau andlega,“ segir Sigga. 

Sigga hefur verið framarlega í umræðunni um kynlíf og nekt hér á Íslandi og segir tilganginn með þáttunum alls ekki vera að stuða fólk. Þá bryddar hún sjálf oft upp á umræðuefni sem ögrar bæði henni og öðrum. Tilgangurinn með því að taka upp slík umræðuefni er einfaldlega til að skoða af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. 

„Þetta er bara enn eitt tækifæri til að tala um hvar við erum að varpa skömm, hvar okkur líður illa með okkur sjálf og af hverju okkur líður illa með okkur sjálf. Við getum létt á andlegri byrði og ég vona að þættirnir auðveldi fólki að skoða sig sjálft og opna á samtöl sem það hefði annars ekki átt,“ segir Sigga.

„Mér finnst alltaf áhugavert hjá sjálfri mér ef ég finn eitthvað sem situr illa í mér og þá skoða ég það. Ég hugsa hvaðan það kemur og fer ofan í kjölinn á því. Maður á að ögra sér. Þannig opnar maður á eitthvað og getur breytt einhverju. Og maður er ekki að ögra til að stuða, heldur til að fræða. Maður spyr sig: af hverju er þetta ögrandi? Þetta er eitthvað sem er náttúrulegt og eðlilegt og við eigum þetta öll sameiginlegt.“

mbl.is