Geta hjón búið í sitthvorri íbúðinni?

Geta hjón haft sitthvort lögheimilið?
Geta hjón haft sitthvort lögheimilið? Ljósmynd/Unsplash

Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá giftu fólki sem langar ekki að búa undir sama þaki lengur. 

Hæhæ!

Við erum gift en langar að búa hver í sinni íbúð. Getum við tekið bæði íbúðalán til að kaupa sér og hafa tvö lögheimili.

Kveðja, 

Guðrún 

Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl Guðrún.

Lög um hjúskap miðast almennt við að hjón eigi sameiginlegt heimili og var því áður mælt fyrir um í lögum að hjón ættu sama lögheimili. Með nýjum lögum um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 voru hins vegar gerð þau nýmæli að hjónum er nú heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum staðnum. Fyrir slíkri skráningu eru ekki sett önnur skilyrði en almennt gilda um skráningu lögheimilis, þ. á m. að einstaklingur eigi fasta búsetu á lögheimili sínu. Þó er gert ráð fyrir að hjón sé sammála um þetta fyrirkomulag og undirriti bæði tilkynningu annars um breytt lögheimili. Að lögum stendur því jafnframt ekkert í vegi að hjón taki hvort um sig lán til þess að fjármagna fjárfestingu sína í íbúðarhúsnæði. Íbúðalán viðskiptabankanna miðast að meginstefnu við lán sem tekin eru til þess að fjármagna kaup á fasteign þar sem lántaki hefur fasta búsetu og skráð lögheimili, eins og gert er ráð fyrir í fyrirspurn þinni. Undirrituðum er ekki kunnugt um að neinn viðskiptabankanna setji skilyrði um aðild beggja hjóna að lánveitingum til fasteignakaupa. Hins vegar er slík lántaka, eins og ævinlega, háð því að lántaki uppfylli almenna skilmála og kröfur viðkomandi lánveitanda, svo sem um greiðslumat.

Kveðja,

Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is