Hann vill ekki skilja og vill að ættingjar sjái um börnin

Priscilla Du Preez/Unsplash

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem vill ekki vera skráð í sambúð með manni sem hún er skilin við. 

Daginn.

Ég er í skráðri sambúð með manni og við eigum saman 3 börn, en við höfum ekki búið saman í 3 ár. Ég er búin að fara upp á sýsluskrifstofu til að slíta sambúðinni og gera umgengissamning um börnin, en hann mætir ekki og ég get ekki flutt lögheimilið fyrr en við erum búin að ganga frá öllu hinu. Hann hins vega vill ekki skilja og vill að ættingi, sem býr í sama húsi og hann, sé alltaf með börnin en ég hef mjög lítið fengið að hafa þau. Ég talaði við lögfræðing og hann sagði ég þyrfti að höfða mál með umgengni og slit á sambúðinni en það tæki langan tíma og svo væri ekkert víst að hann mundi fara eftir dómnum. Þá þyrfti ég að höfða annað mál og þá væri sennilega börnin orðin 18 ára, er þetta rétt?? Getur maðurinn bara haldið mér í sambúð sem ég vil ekki vera í og haldið börnunum frá mér??

Kveðja, BV

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Góðan dag.

Til að slíta skráðri sambúð þar sem aðilar eiga saman börn þarf að ákveða hvernig forsjá barnanna skuli háttað og venjulega er forsjáin sameiginleg. Jafnframt þarf að ákveða hvort börnin skuli hafa lögheimili hjá móður eða föður og einnig þarf að ákveða um meðlagsgreiðslur.

Það er ekki hægt að flytja lögheimilin í sundur eða slíta sambúðinni formlega nema samkomulag liggi fyrir um málefni barnanna. Sýslumaður aðstoðar við að reyna að ná samkomulagi og veitir sáttameðferð. Ef það næst ekkert samkomulag þarf að höfða mál fyrir dómi. Það er hins vegar ekki hægt að fara beint fyrir dóm með slík mál, það er skylda að byrja hjá sýslumanni.  

Það er einnig skylt að tryggja að börnin hafi umgengni við það foreldri sitt sem það hefur ekki lögheimili hjá, en ekki er nauðsynlegt að ákveða með hvaða hætti áður en sambúðinni er slitið. Ef ekki næst samkomulag er hægt að óska eftir því að sýslumaður taki til meðferðar umgengnismál og sýslumaður getur úrskurðað um umgengni ef ekki næst samkomulag.

Þú þarft því að panta viðtalstíma hjá sýslumanni og koma af stað sambúðarslitamáli. Hægt er að fylla út beiðni um slíkt rafrænt á heimasíðu sýslumanna www.syslumenn.is en þar er jafnframt að finna góðar og ítarlegar leiðbeiningar um allt sem viðkemur sambúðarslitum og málefnum barna. 

Gangi þér vel

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is