Jón vill vita hvort sýslumanni beri að fara eftir dómum

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þórir Skarphéðinsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvort sýslumanni beri að fara eftir lögum Hæstaréttar. 

Halló og góðan daginn.

Hef haft mjög gaman að lesa svör og spurningar frá ykkur hér á Smartlandi. Ég er með eina spurningu eða tvær sem fáir virðast geta svarað almennilega. Hér eru þær. Ber sýslumönnum að fara eftir dómum Hæstaréttar? Ef svo er, hver framfylgir því að eftir því sé farið?

Með fyrirfram þökk.

Kveðja, Jón

Þórir Skarphéðinsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þórir Skarphéðinsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll Jón.

Varðandi fyrri hluta spurningar þinnar mætti svara honum með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi er Hæstiréttur Íslands æðsti dómstóll þjóðarinnar og dómar réttarins og úrskurðir hafa fortakslaust gildi hér á landi. Sýslumönnum ber eins og öllum borgurum, stofnunum og fyrirtækjum þessa lands að virða dóma Hæstaréttar.

Hins vegar ber sýslumönnum sem slíkum fyrst og fremst að fylgja settum lögum. Þótt dómar Hæstaréttar móti og þrói túlkun laga hér á landi er almennt ekki gert ráð fyrir að þeir hafi bein áhrif á störf sýslumanna. Þrátt fyrir þetta má vissulega ætla að sýslumenn fylgist með dómaframkvæmd í Hæstarétti, sérstaklega þegar kemur að málefnum á þeirra starfssviði. Þannig má gera ráð fyrir því að dómur réttarins sem hefur veruleg áhrif eða skapar óvissu í daglegum störfum sýslumanna muni hafa áhrif á framkvæmd starfa þeirra. Líklega yrði það þó þannig að þeir myndu frekar halda að sér höndum þangað til löggjafinn væri búinn að bregðast við dómnum með nýrri eða breyttri lagasetningu, en hafa bein áhrif á störf embættisins til skemmri tíma.

Í öðru lagi má líta til þeirra tilvika þar sem sýslumaður á beina aðild að dómsmáli, e.a. ásamt íslenska ríkinu. Niðurstaða Hæstaréttar er þá bindandi fyrir viðkomandi aðila og getur gagnaðili beint kröfum sínum að viðkomandi sýslumanni í samræmi við niðurstöðu dómsins. 

Ef sýslumaður bregst af einhverjum ástæðum ekki við umræddri kröfugerð eru í það minnsta þrjár leiðir til að fylgja henni eftir:

Í fyrsta lagi heyra embætti sýslumanna lögum samkvæmt undir dómsmálaráðherra. Ef borgarar telja að úrskurðir, ákvarðanir eða starfshættir sýslumanna stangist á við lög eða fari gegn ótvíræðri niðurstöðu Hæstaréttar geta þeir því kært/kvartað til dómsmálaráðuneytis. Ráðuneytinu ber í slíkum tilvikum að taka málið til rannsóknar og úrskurðar.

Í öðru lagi hefur Umboðsmaður Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitafélaga. Sá sem telur sig hafa verið beittan ranglæti, þ.m.t. að tiltekið embætti sýslumanns hafi ekki virt niðurstöðu Hæstaréttar í tilteknu máli, getur beint kvörtun til umboðsmanns. Umboðsmaður getur einnig að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þá getur hann tekið starfsemi og málsmeðferð sýslumanns til almennrar athugunar.

Í þriðja lagi geta einstaklingar einnig leitað beint til dómstóla vegna starfshátta sýslumanna sem þeir telja að fari gegn gildandi lögum eða afdráttarlausri niðurstöðu Hæstaréttar.

Kær kveðja, 

Þórir Skarphéðinsson lögmaður.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR

mbl.is