88 ára en hefði ekki viljað mann á sama aldri

Joan Collins er að nálgast nírætt en á yngri mann.
Joan Collins er að nálgast nírætt en á yngri mann. AFP

Breska leikkonan Joan Collins er 88 ára og hefur gengið fimm sinnum í hjónaband. Núverandi eiginmaður hennar, kvikmyndaframleiðandinn Percy Gibson, er 32 árum yngri en hún og er hann sá allra besti af öllum þeim sem hún hefur játast. 

„Hann er sá besti, ég get ekki ímyndað mér lífið án hans,“ segir Collins í viðtali við The Sunday Times. „Hann er kletturinn sem heldur fjölskyldunni saman. Guð sé lof að ég giftist einhverjum sem er 30 árum yngri en ég. Ég hefði ekki getað gifst einhverjum á mínum aldri.“

Collins hefur ekki alltaf verið heppin með eiginmenn en fyrsti eiginmaður hennar nauðgaði henni og tók meydóm hennar þegar hún var 17 ára. Hún eignaðist tvö börn með eiginmanni númer tvö. Sá þriðji var umboðsmaður Bítlanna og með honum eignaðist hún eitt barn. Fjórði reyndist vera vondur en sá fimmti var guðs gjöf. 

Collins og Gibson hafa verið gift í 20 ár á næsta ári. Collins hefur áður talað um hjónabandið í fjölmiðlum og meðal annars gefið það út að það sé mikilvægt að kynnast maka sínum vel fyrir hjónaband. Einnig að fólk fái sitt rými og að það viðurkenni að það sé ekki eins. Það er líka mikilvægt að fara ekki að sofa reiður og muna eftir því að segja ég elska þig.

Joan Collins datt í lukkupottinn þegar hún giftist í fimmta …
Joan Collins datt í lukkupottinn þegar hún giftist í fimmta sinn. REUTERS
mbl.is