Borga háar upphæðir til að komast á fast

Það getur verið tímafrekt og vandmeðfarið að finna einhvern sem …
Það getur verið tímafrekt og vandmeðfarið að finna einhvern sem talar til hjartans. Unsplash.com/Nong Vang

Einhleypt fólk í New York setur ekki fyrir sig að borga háar upphæðir til þess að komast á fjögurra mánaða námskeið hjá stefnumótaþjálfaranum Amy Nobile. Orðspor hennar hefur vaxið gríðarlega og færri komast að en vilja. 

Ræða hjónaband á þriðja stefnumóti

„Já þetta er fjárfesting en sannleikurinn er sá að það kennir okkur enginn að velja maka af kostgæfni og eftir vandlega íhugun. Aldrei. Frá menntaskólaárum reikum við stóreyg og stefnulaust í faðm einhvers,“ segir Nobile í viðtali við The Times en hún talar fyrir meðvituðum stefnumótum þar sem skjólstæðingar hennar verða að vera opinskáir og hreinskilnir um hvað þeir vilja úr samböndum. Á þriðja stefnumóti ætti að ræða hjónaband og barneignir en alls ekki kynlíf fyrr en að minnsta kosti á fjórða stefnumóti.

Nobile segir að um 30% skjólstæðinga sinna finni einhvern ásættanlegan innan fjögurra mánaða en fyrir aðra gæti það tekið sex mánuði eða jafnvel ár.

„Það er engin kristalskúla sem segir manni hvenær draumafélaginn mætir á svæðið en ef áfram heldur sem horfir þá er árangurinn um 80%.“

Klukkutími á dag í stefnumótavinnu

Aldursbil skjólstæðinga hennar er breitt eða allt frá 25 til 80. „Allir vilja ást í líf sitt en ég tek ekki hvern sem er að mér. Skjólstæðingar mínir verða að vera í þessu af fullri alvöru. Um leið og einhver segist ekki hafa tíma til þess fær hann að fjúka.“

Fyrst ræðir hún við mögulega skjólstæðinga í síma í þrjátíu mínútur. Hún spyr þá hvað þeir geri til þess að hlúa að sjálfum sér. Þannig nær hún að sigta frá þá sem búa yfir neikvæðri orku. „Kannski er ástæða þess að þeim gengur illa að finna einhvern að þeir sjálfir eiga erfitt með skuldbindingu. Stundum þarf að líta í eigin barm.

Fæstir einhleypir gefa þessu nógu mikinn tíma. Þeir eiga að vera á stefnumótaöppum og tala við aðra í klukkutíma á dag. Þá er mikilvægt að láta taka nýja mynd af sér fyrir prófílinn,“ segir Nobile sem kennir fólki einnig að daðra.

Stefnumót og kynlíf

Varðandi kynlíf og stefnumót hefur Nobile ákveðnar reglur sem fara þarf eftir.

„Á fyrsta og stysta stefnumótinu er faðmlag í lagi. Á öðru stefnumóti má kyssast. Á þriðja stefnumóti má kyssast að vild en ekki kynlíf. Eftir það er allt leyft.

Á þriðja stefnumóti ætti fólk að vera búið að átta sig á því hvort einhver tengsl séu fyrir hendi, hvort grunngildin séu þau sömu og hvort hinn aðilinn sé tilfinningalega reiðubúinn fyrir alvörusamband.

Allt of margir gefast of auðveldlega upp. Þeir halda að allt snúist um tilfinninguna um Disneyland-ævintýri. Aðdráttaraflið getur hins vegar vaxið með tímanum.“

Gerði sjálf öll helstu mistökin 

Sjálf hefur Nobile marga fjöruna sopið í stefnumótamálum. Hún skildi eftir 20 ára hjónaband og gerði öll mistök sem hægt var að gera í stefnumótaheiminum.

„Ég setti myndir af mér í partígellufötum sem ég hélt að karlmenn vildu sjá. Í raun og veru er ég svo algjört nörd sem elskar að hugleiða. Ég fékk því skilaboð frá mönnum sem ég hafði engan áhuga á og átti alls enga samleið með. Þetta lagaði ég og hitti fljótlega ást lífs míns.“

Góð ráð frá Amy Nobile:

Prófílmyndin 

Veldu mynd sem endurspeglar þig eins og þú ert. Ekki það sem þú heldur að aðrir vilji sjá. Þetta snýst um að finna þann rétta fyrir þig; sýndu þitt rétta sjálf.

Karlar athugið!

Mynd af ykkur með annarri konu vekur ekki lukku hjá konum.

Konur athugið!

Ekki gera lítið úr gáfum ykkar eða velgengni í lífinu. Þeim rétta mun ekki finnast það ógnandi. Hann ætti bara að vera stoltur af árangri þínum.

Fyrsta stefnumótið

Fyrsta stefnumótið á að vera stutt, í mesta lagi 40 mínútur. Þá er maður ekki að eyða heilu kvöldi með einhverjum sem manni líkar ekki vel við. 

Höfnun

Ekki taka höfnun persónulega. Það er gott þegar einhver svarar ekki, þá er maður ekki að sóa tíma sínum í einhverja vitleysu. Ef einhver á ekki í samskiptum (tölvupósti eða sms) í þrjá til fimm daga þá er þetta ekki líklegt til árangurs.

mbl.is