„Mér finnst ég ekki vera nógu flott fyrir hann“

Einstaklingar sem stjórna með því að halda aftur að einhverju …
Einstaklingar sem stjórna með því að halda aftur að einhverju sem skiptir máli fyrir makann, lærir slika hegðun vanalega í æsku. Bæði konur og karlar geta verið reiðir undir rós (e passive aggressive). mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er gift manni sem virðir ekki tilfinningar hennar. Hana skortir viðurkenningu og hrós í sambandinu. 

Sæl.

Kannski hljómar þetta umkvörtunarefni barnalega en þetta er að hafa áhrif á mig og sambandið okkar. Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman í bráðum 10 ár og erum nú gift. Ég er rosalega skotin í manninum mínum, finnst hann svo sætur og flottur í ofanálag hvað hann er ljúfur og góður. Ég er mjög ástfangin og líður oftast mjög vel í sambandinu mínu.

Áhyggjur mínar eru þær að hann sé ekki eins ástfangin og ég, sé jafnvel ástfangnari af hugmyndinni um okkur frekar en af mér. Ég er ekki með mikið sjálfstraust og er ekki ánægð með líkamann minn t.a.m. og dett oft í þann gírinn að ég sé ekki nógu flott fyrir hann. Þegar ég ræði þetta við hann þá segir hann að sér þyki ég flott og hann elski mig eins og ég er en hann segir það aldrei við mig nema þegar ég kvarta yfir því eða fer að tala um að ég sé svo ómöguleg. Ég hef spurt hann hvort hann sé til, fyrst honum þyki ég falleg eins og hann segir, í að hrósa mér af og til. Kannski bara segja að ég sé sæt í dag, eða hreinlega taki bara stundum eftir mér. Þá fæ ég iðulega svarið.. ég get það ekki.. eða ég skal reyna. Og það fatta ég ekki.. hvernig er það erfitt ef manni finnst einhver vera falleg eða sæt eða flott að segja viðkomandi það, sérstaklega þegar viðkomandi er makinn manns.

Ég hrósa honum mjög mikið og hann verður mjög glaður yfirleitt og brosir og líður vel svo ég hef reynt að benda honum á það.. sjáðu þér líður vel við hrós.. mig vantar það líka en það eru bara sömu svörin sem ég fæ.. ég get það ekki.. ég skal reyna og hann vill ekki ræða það neitt meir. Ég velti oft fyrir mér hvort hann sjái eftir því að vera með mér.. upplifi það að hann sé fastur og sitji bara uppi með mig. Ég a fullt af fallegum vinkonum.. og hugsa oft hvort hann upplifi það að hann eigi ljótustu og feitustu konuna.

Er þetta kannski bara rugl í hausnum a mér.. ég veit ekki.

Kveðja, B

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Ég held það sé mjög auðvelt að fara á þann stað í samböndum að vilja fá eitthvað frá maka sem manni skortir sjálfur. Staðfestingu á eigin virði og hrós sem dæmi. Ég les út úr bréfinu þínu að hann er ekki að virða tilfinningar þínar. Stutta svarið er að bera virðingu fyrir honum og fá hann með þér í ráðgjöf að ræða þessi mál. Það er stundum stór saga undir svona samskiptum. 

Það er stöðugt verið að selja okkur það hvernig ástarsambönd eiga að vera. 

Það þarf ekki að horfa langt yfir skammt og skoða algengt efni kvikmynda þar sem kona er týnd og illa áttuð, hittir síðan mann drauma sinna og allt verður eins og það á að vera. Dæmi um þetta eru kvikmyndir á borð við: Pretty Woman, The Notebook, Cinderella, Ella Enchanted, Coming to America, The Princess Bride, Not Easily Broken, Barefoot, Made of Honor. Ég gæti haldið áfram í allan dag að telja.

Svo eru til aðeins skárri myndir þar sem fjallað er um andstæðu þess sem hér að ofan er upptalið. Það eru kvikmyndir á borð við Eat Pray Love, How To Loose a Guy in 10 days, Holiday, Wonder Woman, Hidden Figures, The First Wives Club, Nine to Five og fleiri kvikmyndir. 

Maki þinn er með þér og það verður að byrja þar og enda þar að mínu mati. 

Hamingjan býr inn í þér en ekki í öðru fólki og heitasta ástin sem þú munt upplifa í lífinu er ástarsamband þitt við þig sjálfa. Við erum ekki útlitið okkar, þyngd eða annað sem stundum er auglýst að séu aðal verðmæti kvenna. Konur eru allskonar og fegurð kvenna líka. Allar erum við dýrmætar og það er sannleikurinn um lífið. Ég veit að ég er farin að hljóma eins og Simone de Beauvoir, en þú þarft ekki karlmann til að staðfesta virði þitt. 

Mér finnst hins vegar mjög mikil sjálfsvirðing fólgin í því að eiga skilið að finna ástina í lífinu.  Að vera í sambandi þar sem maður æfir sig í að elska með heilbrigðum mörkum. Það að finna maka sem maður heillast að bæði þegar kemur að útliti en einnig þegar kemur að gildum í lífinu og hæfileikum, er verðmætt.  

Spurning mín til þín er samt: Af hverju viltu vera að gefa manninum þínum svona mikið hrós þegar hann heldur aftur að sér með það til þín?

Ég held það sé alltaf gott að vera meðvitaður um hvernig hægt er að vera reiður undir rós (e passive aggressive) í samböndum. Það er þegar fólk heldur aftur að sér með hluti sem skiptir makann miklu máli í sambandinu. 

Dr. Ann Wilson Shaef skrifaði bókina, Mediation for Women Who Do Too Much, sem er góð æfing í að sleppa tökunum og læra að elska sjálfan sig fyrst og síðan annað fólk. 

„Það sársaukafyllsta af öllu er að týna okkur sjálfum í ferlinu við að elska annað fólk of mikið og þannig að gleyma hversu einstök þú ert líka,“ skrifaði hún. 

Ég mæli einnig með bókinni, Living with the Passive Aggressive Man, eftir Scott Wetzler.  

Sumt af því sem þú skrifar hér að ofan finnst mér ósanngjarnt í þinn garð, svo af hverju ekki að setja heilbrigð mörk um þær hugsanir? Í staðinn getur þú eytt tímanum þínum í að finna þig aftur. Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna þá er erfitt að breyta öðru fólki. Góð pararáðgjöf getur samt gert kraftaverk, þar sem fólk lærir sanngjörn samskipti og að skoða undir yfirborð sambandsins. 

Gangi þér vel. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is