Þegar það var ekki í lagi að vera Æði!

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Þegar ég var lítil og þurfti að bíða eftir strætó á Hlemmi fannst mér mjög vandræðalegt að hafa smokkaplaköt fyrir augunum. Á þessum plakötum voru stjörnur þess tíma að segja frá því að þau stunduðu öruggt kynlíf. Þarna mátti sjá Helgu Möller, Hemma Gunn, Ólaf Laufdal, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Össur Skarphéðinsson, Þorgils Óttar, Jakob Frímann Magnússon, Pál Magnússon, Eirík Hauksson og Ladda svo einhverjir séu nefndir. Á plakötunum kom fram að smokkurinn væri vörn gegn eyðni og hann mætti ekki vera neitt feimnismál. Átta ára mér fannst þetta hinsvegar mjög vandræðalegt enda var ég líklega ekki markhópurinn.

Mér varð hugsað til þessara smokkaplakata þegar ég las bók Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur um ævi Einars Þórs Jónssonar þroskaþjálfa, framkvæmdastjóra HIV-samtakanna.

Í bókinni, sem er ekki bara skrautleg ævisaga Einars Þórs, er farið yfir sögu homma á Íslandi og hvernig þeir voru útskúfaðir í íslensku samfélagi. Það er líka athyglisvert að lesa um hvernig HIV hefur nánast þurrkað út menn sem elskuðu aðra menn sem voru fæddir á árunum 1955-1965. Hommar sem voru fæddir á þessum árum fengu HIV og dóu. Þá höfðu þeir margir hverjir haldið til í útlöndum þar sem þeir gátu falið sig fyrir fordómafullum samlöndum sínum. Á tímabili átti Einar Þór sérstök útfararföt því hann kvaddi kannski einn vin á viku. Ef ég hugsa út í það þá er eiginlega óskiljanlegt hvernig það hafi verið hægt að ganga þann veg.

Það sem ég upplifði þegar ég las bókina var hvað hún var heiðarlega skrifuð og ekkert verið að draga undan eða reyna að fegra hlutina. Bókin er svolítið eins og lífið, ferlega sorgleg en á sama tíma ferlega fyndin því Einar Þór kann að segja skemmtilega frá.

Þótt bókin fjalli mikið um HIV og hommasamfélagið þá geta öll kyn örugglega tengt við það sem Einar Þór hefur að segja. Hvað myndir þú gera ef þú vissir að þú myndir mjög líklega deyja fljótlega? Hvernig myndir þú breyta lífi þínu? Myndir þú eyða öllu sem þú átt? Myndir þú gera eitthvað öðruvísi? Myndi það breyta viðhorfi þínu til lífsins? Er eitthvað sem þig dreymir um að gera sem þú ert ekki að láta eftir þér?

Í bókinni er til dæmis mjög kómísk frásögn af því þegar Einar Þór hélt að hann væri að fara að deyja og fór í heimsreisu ásamt ástinni sinni. Þeir voru búnir að njóta lífsins fyrir allan peninginn í orðsins fyllstu merkingu, búnir að éta upp hvern einasta gólflista og hurðarhún í íbúðinni hans Einars Þórs þegar í ljós kom að lækning við HIV væri handan við hornið.

Á meðan haustlægðirnar mokast yfir landið mæli ég með því að þú komir þér vel fyrir, hitir þér te og lesir bókina hans Einars Þórs, Berskjaldaður – barátta Einars Þórs fyrir lífi sínu og ást. Hún hreyfir við svo mörgum frumum líkamans og við höfum bara gott af því að láta minna okkur á að lífið er ekki endalaust.

Hvað smokkaplakötin varðar þá voru þau líklega nauðsynleg leið til að hrista upp í fordómafullum Íslendingum sem spörkuðu í þá sem voru öðruvísi en hinn venjulegi borgari sem eldaði læri í hádeginu á sunnudögum, horfði á vídeóspólur um helgar og verslaði í Miklagarði. Sem betur fer lifum við nú í samfélagi þar sem er í lagi að við séum ófullkomin og kippum okkur ekki upp við þótt strákar séu með varafyllingar, augnskugga og langar neglur. Í dag finnst okkur það bara vera algert Æði!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál