„Ég var heltekinn af konum“

Sveinn Snorri Sighvatsson er leiðsögumaður og heldur úti hlaðvarpinu, 180 með Lindu og Svenna. Á dögunum var hann gestur Heimilislífs og hleypti landsmönnum Smartlands inn í sinn heim. Hann býr í hjólhýsi í Laugardalnum og er ánægður með það því hann valdi sér það sjálfur. Hann var orðinn leiður á því að borga 300 þúsund krónur í leigu á mánuði og vildi frekar leggja peninga til hliðar. 

Sveinn Snorri hefur síðasta áratuginn unnið mikið í sjálfum sér en hann er haldinn ástar- og kynlífsfíkn. Auk þess hefur hann glímt við matarfíkn. Hann segir að ástar- og kynlífsfíknin hafi haft þá birtingarmynd að hann var sjúkur í konur og varð að vera í sambandi. Hann gat ekki verið einn. 

„Ég var heltekinn af konum - þessi ástarfíkn er krabbamein,“ segir Sveinn Snorri.

„Ég var með þráhyggju fyrir samböndum,“ segir hann jafnframt í viðtalinu. Hann segir að enginn útskrifist og hætti að vera með ástar- og kynlífsfíkn heldur sé stöðug vinna að hafa lífið í jafnvægi. Í dag hefur hann komið sér upp rútínu sem virkar fyrir hann og hjálpar honum að lifa með fíkninni. 

mbl.is