Hann borgaði 95% af útborguninni en hún vill fá helming við skilnað

Namoi Hebert/Unsplash

Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu varðandi skiptingu á eignum við skilnað. 

Kæri viðtakandi,

Hvernig er skiptum háttað?

Ég og núverandi konan mín erum að fara að skilja eftir að vera gift tæplega átta ár, hún hefur alltaf viljað hafa fjármálin aðskilin, en samkvæmt hjónaskilmálanum þá eiga hjón að sjá um að halda heimilinu og leggja jafn til þess, en í mínu tilfelli er það ekki.

Úr fyrra hjónabandi á ég tvö börn og hef greitt meðlög fyrir þau og hvað það varðar þá er enginn skilningur hjá henni að taka þátt á einhver hluta hvað varðar þau og vill meina að þetta sé alfarið mitt mál og að ég verð bara að sjá um þau og það á við um fatnað, áhugamál þeirra og ef ég þarf að taka aukavinnu um helgi þegar þau eru hjá mér þá fæ ég hótanir að ég verði að borga henni fyrir að vera með þau því hún er enginn barnapía.

Við fasteignarkaupin á okkar eign lagði ég út 95% af útlögðum peningum í útborgunina. Núna þegar við erum að ræða saman varðandi skilnaðinn þá segir hún að skiptin verð helmingur og helmingur.

Mig langar að vita hvernig þetta með skiptinguna  er háttað og hvort það sé tekið einhver mið af aðstæðum.

Með von um svar,

GH

Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll,

Samkvæmt hjúskaparlögum geta hjón ráðið fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi.  Það eru þó vissar skorður settar samkvæmt lögum og ákveðnar meginreglur sem gilda.  Sú helsta er hin svokallaða helmingaskiptaregla en í henni felst að við skilnað þá eigi hvor maki um sig tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins (eign að frádregnum skuldum) nema annað leiði af ákvæðum laga. Það má hins vegar víkja frá reglum um helmingaskipti ef skiptin yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna t.d. ef hjúskapur hefur staðið stutt eða annað hjóna hefur komið með í búið miklu mun meira en hitt.  Þá eru einnig ýmis verðmæti, t.d. fébætur eða réttindi persónulegs eðlis sem halda má utan skipta að kröfu annars maka og ef það þykir ekki ósanngjarnt í  garð hins makans.

Vonandi svarar þetta spurningu þinni.

Gangi þér vel, 

Berglind Svavarsdóttir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR.  

mbl.is