Magnús segir BDSM snúast um kærleika

Magnús Hákonarson hefur verið tengdur BDSM-senunni á Íslandi í 25 …
Magnús Hákonarson hefur verið tengdur BDSM-senunni á Íslandi í 25 ár. Ljósmynd/Aðsend

Magnús Hákonarson, fyrrverandi formaður BDSM á Íslandi, var ungur maður þegar hann uppgötvaði áhuga sinn á því að binda í kynlífi. Magnús segir bindingar vera sterka BDSM hneigð. Magnús sem hefur verið viðloðinn BDSM senuna á Íslandi síðastliðin 25 ár er gestur í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu. 

„BDSM er skammstöfun sem stendur fyrir bindingar, drottnun og undirgefni og síðan er sadómasókismi í lokin”, segir Magnús í byrjun um BDSM. 

Magnús segir sögu BDSM ekki vera eldri en 80 til 90 ára. Kvikmyndin The Wild One með Marlon Brandon frá árinu 1953 lagði svo línurnar hvað varðar svart leður sem einkennt hefur senuna. Það má segja að með þessu hafi byrjað að ramma inn hneigð í vissar umbúðir. „Tískan eða hefðin í kringum BDSM er óskaplega menningarbundin, leðrið í þessum vestræna heimi er tengt valdi, það var bara ríka fólkið og valdið sem hafði efni á leðri,“ segir Magnús.

Magnús segir að BDSM gangi ekki út á að meiða annað fólk í stjórnleysi. Hann segir BDSM ganga út á kærleika, virðingu og traust sem er grunnur í þeim tengslum sem eiga sér stað í hinum óteljandi útgáfum BDSM. Hvort sem verið sé að binda, flengja, klípa og klóra þá snýst leikurinn um að þekkja sjálfan sig og sitt ferli sem og auðvitað ítarlegan undirbúning sem felst í samskiptum byggðan á heiðarleika.

„Lykilatriðið í þessu og það góða við þetta BDSM dót allt saman er að ef þú ætlar að gera þetta vel og líða vel með það þá þarftu að vinna svo mikið í sjálfum þér,“ segir Magnús sem segir BDSM iðkun snúast um sjálfsást. 

Magnús segir mismunandi ástæður fyrir því að fólk leitar inn í BDSM. Sumir eru í leit að spennu og er svo viðloðið BDSM í mörg ár eða áratugi án þess að vera haldið þessari djúpu kinkhneigð sem einkennir aðra í samfélaginu. Magnús segir að hans forsendur séu BDSM hneigð. Það þýðir að það er ekkert annað í boði fyrir hann, svolítið eins og að vera samkynhneigður.

„Það er alveg hægt að fara útí BDSM á röngum forsendum, tökum sem dæmi þessi tenging við til dæmis sjálfsskaða og mörkin þarna á milli geta verið óskýr en í raun eru þau það ekki,“ segir Magnús er talið berst að þeim sem kannski hafa leitað í BDSM út frá sjálfsskaðahegðun í stað þess kærleika sem Magnús vill meina að sé undirstaðan.

BDSM er víðfeðmt hugtak og rúmar í raun óheyrilega mikið svo lengi sem grunnurinn er réttur. Hann nefnir í því samhengi ótrúlega frásögn af erlendu pari sem fóru í svokallaðan „Dexterleik“. Þar var sett á svið skipulagt morð þar sem einn aðilinn lék morðingja í plastlögðu rými á meðan hinn lék fórnarlambið og var raunverulega skorið á háls án þess þó að skorið væri í æðar. 

Eins gróft og BDSM virðist geta verið þá má einnig nefna að í kynlífi í dag tíðkast hlutir eins og að toga í hár, þrengja að hálsi, rassskella, klípa og bíta. Magnús telur að fólk sem stundar þetta ætti að athuga hvort mögulega sé um hneigð að ræða sem vinna má í og þá án skammar. Hann vill meina að skömmin sé afleiðing vissra tilfinninga, hneigða, hvata, langana sem er bælt niður út frá fyrir fram gefnum römmum samfélagsins.

BDSM samtökin eru hagsmunaraðili samtakana 78 og hafa verið það síðan 2016. „BDSM-ið er klárlega á hinsegin rófinu. Fólk sem er BDSM hneigt er öðruvísi, þú læknar ekki samkynhneigð, þú læknar ekki BDSM hneigð, þetta er bara partur af þér. Margir bera skömm í kringum þetta, það eru forómar í kringum þetta,” segir Magnús þegar hann er spurður út í af hverju honum finnist BDSM eiga erindi inn í samtökin 78.

Hagsmunaraðildin olli ákveðnu uppnámi meðal hóps innan samtakana sem taldi að BDSM ætti ekki erindi inn í samtökin. Magnús vill þó meina að þessi viðhorf virtust frekar tilheyra eldri meðlimum samtakana sem höfðu ekki fylgst með í þeirri þróun sem höfðu átt sér stað í viðhorfum í garð BDSM senunar. 

Hægt er að hlusta á Þvottahúsið á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube.

mbl.is