Eiginmaðurinn fær aldrei fullnægingu

Eiginkonan hefur áhyggjur af sáðláti eiginmannsins.
Eiginkonan hefur áhyggjur af sáðláti eiginmannsins. Ljósmynd/Unsplash/Dainis Graveris

„Við maðurinn minn gengum nýverið í hjónaband. Hann hafði ekki stundað kynlíf áður en við giftum okkur og ég er mjög hissa á því að hann fær hvorki sáðlát né fullnægingu. Hann hefur sagt mér að hann njóti þess að stunda kynlíf með mér, en ég hef áhyggjur af því að hann glími við eitthvert vandamál og þurfi að sækja sér hjálp. Fyrir mig er kynlífið mjög gott og ég fæ raðfullnægingar, en okkur langar til að eignast börn og ég er hrædd um að það muni ekki gerast svo auðveldlega,“ skrifar ráðþrota kona til ráðgjafa The Guardian, Pamelu Stephenson Connolly. 

„Það eru til leiðir til að eignast börn án samfara og án fullnægingar. En hvað varðar kynheilbrigði hans, þá væri mjög mikilvægt að fá að vita hvort að hann hafi yfirhöfuð fengið sáðlát (kannski í svefni?) eða hvort hann hafi fengið fullnægingu. Ef ekki, þá ætti hann hiklaust að leita læknis. En fyrir suma, til dæmis þegar fólk hefur alist upp á heimili þar sem því var refsað fyrir að uppgötva sjálft sig sem kynverur, þá er erfitt að upplifa sig sem manneskju með kynferðislegar þarfir, hvernig kynfærin virka eins og til dæmis með sjálfsfróun. Þetta fólk þarf að læra um hvatir sínar á fullorðinsaldri og þá getur verið mjög erfitt að stunda kynlíf með annarri manneskju. Reyndu að byrja í rólegheitum að ræða þetta við hann, eins og til dæmis með spurningunni: „Ég elska að stunda kynlíf með þér, en mér líður eins og ég sé svolítið ein í þessu, þannig að ég var að velta fyrir mér hvað þér finnst gott?“ Kannski getið þið komist að svarinu við þessari spurningu saman,“ svarar Stephenson Connolly.

mbl.is