Líkar alls ekki við tengdadótturina

Samband tengdadóttur og tengdamóður getur verið viðkvæmt og uppfullt af …
Samband tengdadóttur og tengdamóður getur verið viðkvæmt og uppfullt af óraunhæfum væntingum. Unsplash.com/Bence

Móðir leitar ráða hjá ráðgjafa The Times. Henni líkar ekki við tengdadóttur sína og veit ekki hvernig hún á að bregðast við.

Ég hafði svo mjög hlakkað til þess að halda jól með fjölskyldunni en nú hefur hellst yfir mig sorg. Ég á tvo syni, einn um tvítugt og annan um þrítugt. Sá yngri á frábæra kærustu en hann tók hana ekki með sér um jólin þar sem hún vildi vera með sínum foreldrum.

Eldri sonur minn og eiginkona hans voru hins vegar hjá okkur um jólin. Ég neyðist til þess að viðurkenna að ég komst að því að mér líkar bara alls ekki vel við hana. Hún er alltaf svo fjarlæg og köld. Ólíkt okkur sem erum mjög opin, samrýmd og hlý. Núna um jólin var hún bara alltaf að skoða símann sinn og fara afsíðis. Hún virtist ekki hafa neina ánægju af því að vera með okkur.

Ég reyni að vera vinaleg en þessi hegðun hennar skapar samt ákveðna streitu og spennu. Sonur minn er hættur að vera eins mikið með okkur að spjalla því hann er mikið með henni. Ég vil ræða málin við hana en maðurinn minn segir að það muni bara gera illt verra.

Ráðgjafi The Times svarar um hæl:

Það sem þú lýsir er ekki óvenjulegt. Væntingar fólks til jólanna eða annarra hátíða geta haft áhrif á hvernig við upplifum annað fólk í tilteknu rými í langan tíma. Þá má benda á það að tengdamæður og tengdadætur eru alls óskyldar þar til svo allt í einu og tengdadætrum er ætlað stórt hlutverk innan fjölskyldunnar. Þar sem þú ert afar náin syni þínum þá ætlastu til hins sama gagnvart tengdadótturinni. Það er bara ekki alltaf þannig.

Samfélagið ætlast til ákveðinnar hegðunar af vissum fjölskyldumeðlimum. Það getur verið mikið á hana lagt að ætlast til þess að hún passi vel inn í fjölskyldu sem er nú þegar mjög náin og samrýmd. Hún er kannski ekki vön slíku fjölskyldumynstri og finnst það óþægilegt. Kannski upplifir hún mikið óöryggi í þessum aðstæðum. 

Reyndu frekar að búa til aðstæður þar sem þið getið varið tíma saman utan fjölskylduboða og með tíma má kannski spyrja út í það hvað hægt sé að gera til þess að henni líði betur með ykkur. Það tekur tíma að byggja sambönd við fólk, maður þarf að skilja hvort annað og gera málamiðlanir. Þú þarft að koma því til skila að þú takir henni eins og hún er og það mun svo létta þrýstingi á ykkar samskiptum í framtíðinni. 

mbl.is