Gáfulegt að gera erfðaskrá og kaupmála

Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður.
Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður. Ljósmynd/Saga Sig

Lögmaðurinn Elín Sigrún Jónsdóttir hefur sérhæft sig í að aðstoða eldra fólk við erfðaskrár og fasteignakaup í gegnum fyrirtæki sitt, Búum vel. 

„Ég hef fundið fyrir mikilli þörf á sérhæfðri þjónustu fyrir eldra fólk á tímamótum. Fólk sem er að hugsa um hvort það geti fengið húsnæði sem hentar því betur.

Margir þeirra sem komnir eru á efri ár þarfnast aukinnar aðstoðar við að selja hús eða íbúð. Ég hef því gert sérstakt samkomulag við tvær fasteignasölur sem ég treysti vel og hafa þjónustumetnað, þess efnis að viðskiptavinir mínir fá afslátt af sölulaunum sem nemur minni þjónustu. Það er því góðu samstarfi að þakka að unnt er að bjóða þjónustuna, viðskiptavinum að kostnaðarlausu,“ segir Elín.

Elín segir að það sé stór hópur fólks sem vill endurskoða erfðamálin og gera kaupmála á efri árum.

„Það er mikilvægt að ræða slík mál, fara yfir kostina því ýmsar leiðir eru færar og sumar betri en fólk hefur komið auga á. Hver erfir þig? Það er mikilvægt að geta svarað þeirri spurningu fyrir sig og ef niðurstaðan er ekki eins og æskilegast væri þá er ástæða til að skoða möguleika til breytinga.“

Hvernig á erfðaskrá að líta út að þínu mati?

„Erfðaskráin þarf fyrst og fremst að vera skýr og hafa að geyma raunverulegan vilja þess sem hana gerir. Ég legg ríka áherslu á að erfðaskrá sé lifandi skjal og fólk líti yfir erfðaskrár og kaupmála reglulega og spyrji sig, er þetta raunverulegur vilji minn? Þá hvet ég fólk til að undirrita erfðaskrá sína hjá lögbókanda og fái fullgilda vottun, það er og skilyrði þess að erfðaskrá sé varðveitt hjá sýslumanni.“

Er einhver ein lína vinsælli en önnur þegar kemur að því að stilla upp erfðaskrá?

„Það eru lang algengast að hjón sem ekki eiga öll börnin sameiginlega vilja tryggja rétt þess langlífari til setu í óskiptu búi og einnig er það æ algengara að arfleiðendur vilji tryggja það að arfur barnanna eða annarra erfingja verði séreign þeirra í hjúskap en ekki hjúskapareign.“

Ef fólk vill ánafna einhverju félagi hlut af eigum sínum. Hvað má það vera stór hlutur af heildareignum hins látna?

„Þá skiptir máli hvort viðkomandi eigi skylduerfingja eða ekki. Sá sem á skylduerfingja, maka og /eða börn má ráðstafa allt að 1/3 með erfðaskrá til félags eða einstaklings en sá sem ekki á skylduerfingja má ráðstafa öllum sínum eignum með erfðaskrá.“

Finnst þér fólk orðið ófeimnara við að gera erfðaskrá?

„Já, það er sannarlega mín tilfinning. Sem betur fer er það að gera erfðaskrá hvorki feimnis- né leyndarmál í dag. Það telst eðlilegur og jákvæður hlutur að huga að réttindum sínum og ráðstöfun fjármuna.

Ég minnist þess hinsvegar þegar ég var að byrja í lögmennsku fyrir rúmum þremur áratugum, þá kom fólk til mín og afsakaði sig, tjáði að það ætti nú lítið og það væri nú ekki ástæða til að gera erfðaskrá. Ég var mjög hugsi yfir því og upplifði þá að hugmyndin væri sú að það væri bara fyrir ríkt fólk eins og í bíómyndunum. Það að fólk hugi að sínum erfðamálum hefur ætíð verið mér hugleikið og ég fagna þeirri þróun sem ég upplifi í dag.“

Fólk þarf að þekkja réttindi sín

Lífið heldur áfram og kallar reglulega á að við metum hvort við búum og lifum sem best. „Fjöldi fólks kemur til mín til samtals um möguleika sína og réttindi. Í þeim hópi er meðal annars fólk sem er að hætta að vinna, þau sem vantar ráðgjöf um erfðamál, þau sem hafa verið að erfa og þurfa að ganga frá dánarbúi. Þá eru þau sem vilja styðja við börnin sín með húsnæðisstuðningi, þ.e. öll þau sem vilja tryggja sér og sínum sem besta aðstöðu fyrir næsta aldursskeið. Þá er ekki óalgengt að fólk sem er á leið á hjúkrunarheimili og hefur vilja til að selja eignir sínar og greiða hluta andvirðis út sem fyrirframgreiddan arf leiti sér aðstoðar,“ segir hún.

Elín hefur alltaf haft áhuga á að nýta lögfræðiþekkingu sína og finnst gaman að miðla upplýsingum til fólks um réttindi þess.

„Þegar fólk er óöruggt og á erfitt með að ákveða skref er hagnýtt að tala við þriðja aðila sem hjálpar til við að greina stöðu, spyr spurninga og býður upp á samtal um ýmsa möguleika.

Undanfarin ár hef ég orðið vitni að því að húsnæði hentar fólki ekki lengur, er ýmist of stórt, á mörgum pöllum eða hæðum eða að viðhald eignarinnar er orðið of erfitt. Margir geta búið mun betur en þeir gera. Best er að huga í tæka tíð að slíkum málum en það er aldrei of seint. Ég fer yfir fjárhags- og íbúðakostina með fólki og hjálpa síðan við sölu og kaup, les yfir samninga og skjöl og er til staðar og styð alla leið. Það er um að gera að nota eignir sínar til að búa vel og lifa sem best og segja má að nafn fyrirtækisins taki einmitt mið af þeirri sýn og í því felst jafnframt áskorun.

Ég legg ríka áherslu á að veita persónulega þjónustu. Oft heimsæki ég mína viðskiptavini, hvort sem er heima, á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun. Það geri ég vegna þess að flestum líður best að ræða erfiðu málin heima eða í sínu umhverfi og leiðarljósið er ævinlega að þeir búi eins vel og kostur er á hverju sinni og að sátt ríki um ráðstöfun mála.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál