Tinna stofnar nýtt fyrirtæki eftir erfitt uppgjör

Tinna Guðrún Barkardóttir hefur nýverið stofnað fyrirtækið Sterkari saman með …
Tinna Guðrún Barkardóttir hefur nýverið stofnað fyrirtækið Sterkari saman með Elínu Báru Lúthersdóttur. Báðar brenna þær fyrir því að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið í heild sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margir muna eftir Tinnu Guðrúnu Barkardóttur úr Það er von-samtökunum. Hún hefur nú kvatt þann starfsvettvang eftir uppgjör þar sem hún telur hafa verið farið yfir velsæmismörk hennar í starfi og stofnað sitt eigið fyrirtæki sem heitir Sterkari saman. Með henni í nýju fyrirtæki er Elín Bára Lúthersdóttir, en báðar brenna þær fyrir því að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið í heild sinni. 

„Ég er menntaður kennari í grunninn og hef verið í meistaranámi í Háskóla Íslands í áhættuhegðun, forvörnum og lífssýn. Helsta verkefnið í náminu mínu var að skoða sjálfsmyndina, sjálfsstjórn, vímuefnaneyslu, kynheilbrigði og fleira til að öðlast hæfni til að starfa og rannsaka, og leggja samfélaginu lið með heilbrigðum inngripum þar sem upp á vantar. Ég útskrifaðist nýverið úr framhaldsnámi í Ráðgjafaskólanum þar sem við Elín Bára kynntumst. Ég er með óseðjandi þörf fyrir endurmenntun og fer ég á námskeið eins oft og ég kemst. Ég kláraði sem dæmi PMTO-grunnnám fyrir einhverju síðan,“ segir Tinna.

Tinna hefur einnig töluverða reynslu sem ráðgjafi þar sem hún starfaði hjá SÁÁ og á Vogi og Vík, auk þess að starfa fyrir barnavernd við ýmis verkefni um árabil. 

„Ég brenn fyrir málefnum þeirra sem eru að fást við vímuefnavanda, fíkn og meðvirkni. Ég tel nauðsynlegt að eyða fordómum í samfélaginu og að við sinnum forvörnum eins vel og við getum. Við höfum verið með hlaðvarp undir merkjum Sterkari saman, og bjóðum upp á ráðgjöf og fræðslu fyrir meðferðarheimili, skóla og fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt. Við viljum einnig beita okkur fyrir þolendur og gerendur ofbeldis.“

Þótt Tinna hafi ekki persónulega reynslu af því að vera jaðarsett í samfélaginu hefur hún alltaf brunnið fyrir málefninu og telur hún ástæðu þess mega rekja til unglingsáranna þar sem hún fékk að kynnast af eigin raun hversu auðvelt er að fara út af sporinu, ef umhverfið passar ekki upp á unga fólkið okkar. 

„Ég hef svakalega mikla þörf fyrir að hjálpa fólki og þoli ekki fordóma. Mér finnst mikil heift í umræðunni í dag og mikil skrímslavæðing. Ég vonast til að Ísland verði þannig staður að þegar fólk tekur á sínum málum, þá eigi það afturkvæmt. Ég er alls ekki að tala máli gerenda, það er allt í lagi að vara fólk við ofbeldi og hef ég sjálf lent í ofbeldi sem ég vafðist inn í á mjög ómeðvitaðan hátt, þrátt fyrir margar viðvaranir, sem seinna hafði mikil áhrif á mig og er ég enn þá að finna út úr því.“

Viltu deila þeirri reynslu með okkur?

„Ég held að allar konur á Íslandi hafi lent í þessu hefðbundna áreiti sem ég myndi kannski ekki flokka sem ofbeldi. Það sem ég er að vinna úr núna er slæmt vinnuumhverfi á síðasta vinnustað þar sem ég vann. Það má ekki gleyma því að hægt er að fara yfir mörk og gaslýsa í vinnu og vináttu, þannig að maður ber skaða af líkt og í öðrum aðstæðum.“

Sterkari saman eru með skrifstofu að Reykjavíkurvegi 62 í Hafnafirði, …
Sterkari saman eru með skrifstofu að Reykjavíkurvegi 62 í Hafnafirði, þar sem dagarnir byrjar á ráðgjafaviðtölum og svo hefur stofan nú þegar gert samninga við meðferðarheimili sem starfað hafa í áratugi og er á döfinni að fara með fyrirlestra og fræðslu inn á þá staði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú hafa samtökin Það er von verið í umræðunni að undanförnu. Fólk virðist fara í tvo hópa því tengt, þeir sem styðja samtökin og þeir sem eru svo að vara við þeim. Ertu að tala um að þú hafir lent í ofbeldi þar?

„Ég vil hafa athyglina á mínu fyrirtæki í dag, en ég get sagt að ég hafi haft samband við nokkrar af þeim konum sem stigu fram á sínum tíma, sem ég trúði ekki né hlustaði á, og beðið þær afsökunar á að hafa ekki trúað þeim. Það er auðvelt að treysta fólki sem kemur fram og er sífellt í fórnarlambinu, sem reynir að stjórna öllu í umhverfinu með því að benda á aðra, en springur svo í skapi sjálft reglulega og kennir manni um það og notar ákveðna aðferð til þess. Ég vil alltaf taka það fram samt sem áður að ég er ekki fullkomin og vafalaust hægt að benda á atriði sem ég hefði mátt gera betur.“

Tinna hefur haft úr fleiru að vinna í lífinu en hún fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og lenti í hjólastól. 

„Þá kynntist ég því hvað við getum verið með mikla fordóma fyrir veikum, við fullorðna fólkið það er að segja. Ég fann að börnin horfðu á mig jafna öðrum. Ég er heppin að hafa náð mér upp úr þeim veikindum, en tel mig nú hafa dýpri skilning á þeim sem þurfa á aðstoð að halda í lífinu. Ég á mína áfallasögu, ekkert stærri eða minni en aðrir. Ég blindaðist af því, að vilja hjálpa fólki í neyð og var tilbúin að trúa hverju sem er og fórna öllu mínu fyrir það.“

Sterkari saman eru með skrifstofu að Reykjavíkurvegi 62 í Hafnafirði, þar sem dagarnir byrja á ráðgjafaviðtölum og svo hefur stofan nú þegar gert samninga við meðferðarheimili sem starfað hafa í áratugi og er á döfinni að fara með fyrirlestra og fræðslu inn á þá staði. 

„Ég hef sjálf þurft að berjast við kerfið, þegar ég veiktist, sem er uppfullt af fordómum og ekki með tól eða tæki til að vinna úr áföllum að mínu mati.“

Tinna notar aðferðir NLP (e. Neuro Linguistic Programming) og áhugahvetjandi samtöl (e. Motivational Interviewing) í ráðgjöfinni sinni en hefur sjálf prófað alls konar meðferðir, meðal annars EMDR sem hún getur mælt með ef fólk finnur réttan meðferðaraðila fyrir sig, í þeirri leið. 

„Ég held það sé samt svo mikilvægt að muna hversu miklu máli meðferðaraðilinn skiptir. Ég hef farið í EMDR-meðferð sem virkaði ekki og svo hef ég farið í EMDR-meðferð sem virkar mjög vel. Stundum þarf maður bara að hitta einhvern sem maður tengir við, sem maður getur talað um hlutina við, grátið og svo bara haldið áfram. Við erum mjög metnaðarfullar á stofunni okkar og hámenntaðar í okkar fagi báðar. Við brennum fyrir málefnunum og erum staðráðnar í að vinna með öllum þeim kynjum sem mæta til okkar. Við bjóðum því fólk með vímuefnavanda og aðstandendur þess velkomið. Foreldra ungmenna með áhættuhegðun, þolendur ofbeldis og unglinga í áhættuhegðun sem eru að byrja að fikta í neyslu.

Það sem við viljum leggja áherslu á er að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni með kærleika og umburðarlyndi og að mæta öllum eins. Ég verð of oft vör við að fólk sé hissa á að ég komi vel fram við það ef það er í virkri vímuefnaneyslu til dæmis og það finnst mér hræðilegt að heyra, því við erum öll jöfn. Ef við tökum ábyrgð á okkur sjálfum og gjörðum okkar, þá verður heimurinn að betri stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál