Fimm ráð til að komast upp úr sófanum

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.

„Ert þú ein/n af þeim sem ert alltaf alveg að fara byrja í ræktinni eða taka mataræðið í gegn. „Byrja á mánudaginn, nei eftir páskafríið, nei eftir utanlandsferðina, nei eftir matarboðið hjá Áslaugu og Helga, æh svo er ferming á næsta leiti.“ Því lengur og oftar sem við frestum því að gera eitthvað sem er gott fyrir okkur, þeim mun meira bíður sjálfsmyndin hnekki. Að fresta getur annað hvort verið uppspretta kvíða og lélegrar sjálfsmyndar eða eitthvað sem viðheldur hvoru tveggja,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í nýjum pistli á Smartlandi: 

Taktu meðvitaða ákvörðun í dag að hætta að fresta og settu sjálfan þig í forgang. 

Líkami þinn og andlega heilsan mun þakka þér fyrir með bættari svefni, minni streitu hormónum bættri sjálfsmynd og meiri orku. Að komast svo í gömlu fötin aftur eða líta betur út er svo algjör bónus. 

Líkt og heilsumarkþjálfinn minn sagði við mig á sínum tíma, „það er allt góður tími að byrja“!  

1. Fáðu vin/maka/fjölskyldu með

Besta leiðin til að byrja er að hafa einhvern með þér í samfloti. Þú getur svikið sjálfan þig aftur og aftur, en það er ekki eins auðvelt að svíkja góðan vin. Þetta virkar næstum alltaf og félagslegi þátturinn mun reynast góður bónus. Oft á tíðum hefur heilsan setið á hakanum út af streitu og það bitnar oft á félagsþættinum að auki. Þarna færð þú heilsubót og andlegt fóður. 

Bara tilhugsunin um að það sé einhver að bíða eftir þér og öfugt er oft nógu hvetjandi til að brjóta upp gamlan vana. Sófinn verður enn á sama stað, trúðu mér. 

2. Negla niður tíma og dag

Í heilsumarkþjálfun, þegar að unnið er með markmiðssetningu, er mikilvægt að hafa tíma og dagsetningu neglda niður. Það er ekki nóg að ákveða að þú byrjir í næstu viku. Skilgreindu nákvæma tímasetningu. Ef þú hefur einhvern sérstakan vin í huga, skaltu gera plön með þeim vin. Hvenær ætlið þið að byrja? Hvaða dag og klukkan hvað? Því nákvæmara sem markmiðið er, því meiri líkur eru á, að því verði náð.

Hafa ber í huga að ef þú hefur ekki stundað reglulega hreyfingu lengi þá getur þú orðið þreytt/ur í byrjun áður en góða orkan kemur. 

3. Skipuleggðu fram í tímann! 

Ekki hugsa að 10 mínútur fyrir áætlaðan tíma sé góð skipulagning. Því hvað ef þú loksins finnur gömlu íþróttabuxurnar þínar og uppgötvar að það er gat á þeim eða að þær passa ekki lengur? Hvað með íþróttaskóna, varstu farin/n að nota þá við önnur tækifæri en reglubundna hreyfingu og þarft þá nýja? Hvað með góða næringu fyrir tímann, til að koma í veg fyrir blóðsykursfall? Að hafa föt, skó, drykkjarflösku og góða næringu fyrir tímann tilbúið, dregur úr líkunum á að þú hafir afsökun fyrir því að fara ekki.

4. Tónlist! 

Gefðu þér tíma til að finna nokkur gömul lög sem hafa einhverja þýðingu fyrir þig úr fortíðinni. Búðu til áhugaverðan lagalista sem þig hlakkar til að hlusta á. Annað hvort getur þú hlustað á tónlist á meðan þú ert að æfa eða byrjað að hlusta á lögin áður en þú ferð að hreyfa þig, til að auka hvatningu þína! Nostalgía og jákvæð áhrif hennar, varstu ekki örugglega búin að lesa nostalgíu pistilinn minn? Ef ekki þá get ég rifjað það upp að, ef þú finnur gömul lög frá fortíðinni sem ylja þér um hjartarætur þá eykur það:

  • Bjartsýni
  • Innblástur
  • Sköpunargleði
  • Hvatningu

Það hafa verið gerðar rannsóknir á nostalgíu áhrifum og þessi jákvæðu áhrif endast út daginn. 

5. Settu hófleg og raunhæf markmið. 

Að byrja í ræktinni fimm sinnum í viku kl. 6 á morgnana, borða egg í morgunmat og gulrætur í kvöldmat er ekki raunhæft (já ég á vini sem hafa gert það).

Ég mæli heldur alls ekki með því að fara of hratt af stað, ef að þú hefur ekki æft í langan tíma. Það getur haft eyðileggjandi áhrif á líkamann í stað þess að byggja hann upp. Hef haft einstaklinga í heilsumarkþjálfun sem hafa verið að kasta upp, fá hnéskaða og ofþreytu á að fara of geyst af stað. Þetta á sérstaklega við, ef þú hefur verið undir miklu álagi undanfarið. 

Margir vilja taka bæði hreyfinguna í gegn og mataræðið en vita ekki á hvoru þeir eigi að byrja á. Mín reynsla er að hreyfingin er fljótlegasta leiðin til að stuðla að breytingum. Það kemur nánast ósjálfrátt. Enginn vill þjást í ræktinni í 30-60 mínútur og henda svo öllu erfiðinu út um gluggann fyrir einn kleinuhring. 

Hafðu hugfast, að þegar þú byrjar að hreyfa þig er eðlilegt að þreytast í byrjun þar sem líkaminn er að laga sig að nýjum venjum þínum. Þess vegna er mikilvægt að fá góða hvíld.

Gangi þér vel og af stað!

Þú getur sent fyrirspurn Hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál