„Verða margir karlmenn fyrir svona alvarlegu ofbeldi?“

Karlmenn þurfa að fara yfir sögu sína líkt og konur …
Karlmenn þurfa að fara yfir sögu sína líkt og konur þurfa að gera. Allt sem ekki er ást, er áfall í samböndum. Það eru til fjölmargar leiðir til að gera náin sambönd heilbrigðari og betri. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem spyr hvort margir karlmenn verði fyrir alvarlegu ofbeldi í nánu sambandi?

Sæl Elínrós.

Þetta er saga mín. Verða margir karlmenn fyrir svona alvarlegu ofbeldi bæði í og eftir samband? Fjögur ár eftir samband? Eða er þetta óalgengt? Ofbeldið hefur verið verra eftir samband en ég er búin að heila mig andlega og hef aldrei á ævinni verið eins andlega sterkur og hún getur ekki gert mér neitt lengur. Nú er það bara ég og börnin og nýtt líf.

Maðurinn kynntist konu og þau urðu yfir sig ástfanginn. Konan sagði við manninn að hún væri að koma úr mjög slæmu sambandi þar sem hún varð fyrir líkamlegu, andlegu og kynferðisofbeldi af hálfu barnsföður. Hún lýsti líka því að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi alveg frá unglingsaldri til þessa dags og skrifaði niður lista af þeim fjölmörgu meintu brotum, í kringum 10-15 svoleiðis brot.

Hún lýsti einelti frá barnaskóla alveg til framhaldsskóla. Í fyrra sambandi var þjáning hennar svo mikil að hún tók stóran kjöthníf og skar sig á marga staði í höndina sem enduðu með mörgum upphleyptum örum til frambúðar. Skurðirnir voru það djúpir að örin eru uppaleyft.

Hún lýsti drykkju foreldra sinna og að faðir sinn hafi einu sinni hent sér niður stiga.

Hinn nýi ástfangni maður fann mikið til með henni og hafði sterka réttlætiskennd gagnvart þeim sem áttu að hafa brotið á henni. Þar á meðal hópnauðgun úr árum í framhaldsskóla sem hinn nýi maður hjálpaði henni með að kæra undir lok sambands þeirra.

Bæði maðurinn og konan áttu sögu um neyslu á efnum og drykkju. En nú eignuðust þau barn og stofnuðu heimili og maðurinn kláraði framhaldsskóla.

Síðan tóku hlutirnir að breytast. Eftir fyrsta barnið þá sagði konan við manninn að hún vildi annað barn, maðurinn ætlaði að hugsa sig aðeins um en þá sagði konan ef þú vilt það ekki þá fer ég bara sér leið til að eignast það. Móðir mannsins varð vitni að þessu. Þarna kom hin hliðin í ljós á henni þó hann hafði upplifað ýmslegt annað fyrir þetta.

Konan átti til að taka reiðiköst og ráðast á manninn og lemja hann í andlitið og líkamann. Aðeins einu sinni baðst hún afsökunar. Maðurinn bað um skilnað nokkrum sinnum í sambandinu en þá fór konan bara út af heimili sínu og heim til foreldra sinna.

Nágrannar heyrðu konuna öskra á manninn en maðurinn var svo meðvirkur að hann sagði við foreldra sína að hún hefði verið að rífast við vinkonu í símtali.

Í rifrildum þeirra notaði konan fortíð sína sem afsökun fyrir ofbeldinu og sagðist vera með áfallastreituröskun, félagsfælni og ofsakvíða og það hefði komist til tals milli heimilislæknis að hún væri með einkenni „borderline“ persónuleikaröskun. Maðurinn gerði allt fyrir hana, hringdi fyrir hana, fór út í búð og var samstíga með henni í þessum andlegu meinum.

Í dag veit maðurinn ekki hvað er satt eða logið en hann komst fljótt að því að sögurnar hennar um meint ofbeldisbrot í fortíðinni fóru að breytast og þá áttaði hann sig á að hún gæti ekki verið að segja allan sannleikann og jafnvel að búa eitthvað til. Og byrjaði að sjá mynstur um sjálfsskaða og ásakanir á fólk, sérstaklega karlmenn.

Maðurinn hvatti konuna til að kæra meinta hópnauðgun, reddaði henni lögfræðingi og var með henni í öllu ferlinu. Maðurinn veit ekki stöðu mála í því máli í dag.

Maðurinn var ekki alsaklaus í sambandinu. Þau voru saman í 7 ár. Í fjögur ár var hann alveg edrú. En hin þrjú átti hann til að fara á djamm um helgar trisvar til fjórum sinnum ári.

Maðurinn elskaði börnin sín og sá vel um heimilið. Það voru góðir tímar og síðan neikvæðir um stund. Allir í samfélaginu vissu hvernig þessi maður er og var, góður maður.

Einu sinni var maðurinn og konan að keyra með börnin og konan fékk mikið geðveikiskast og rauk út úr bílnum. Maðurinn reyndi að fá hana inn í bílinn án árangurs. Hún var síðan sótt af öðrum því pabbinn gat ekki látið börnin horfa upp á þetta og sagði við börnin að mamma þurfti að fara á fund og kæmi á eftir heim.

Konan átti það til að fara inn á bað í reiðikasti og reyna að skera sig. En maðurinn kom alltaf í veg fyrir það.

Þegar pabbinn bað um skilnað eftir 6 ára samband þá hótaði hún honum og sagði að hann fengi aldrei að sjá börnin sín aftur og að málaferli gætu tekið mörg ár. Hún rauk út með börnin og fór í kvennaathvarf.

Konan var í sambandi við manninn allan tímann meðan hún var í kvennaathvarfinu bæði í sms og síma. Hún sendi bæði myndir og vídeó af börnunum og sagði við föðurinn að hópurinn þar hefði nánast klappað þegar hann heyrði að þau ætluðu að laga sín mál. Faðirinn vissi að sjálfsögðu að þetta væri lygi. Faðirinn varð fyrir svona kúgunum og hótunum mörgum sinnum í sambandinu. Og kvennaathvarfið var stærsta og versta hótunin.

Konan kom heim og þau fóru í sambandsráðgjöf og voru saman í eitt ár og fóru saman í háskólanám. Eftir fyrsta árið varð hið andlega ofbeldi og ,,gaslighting” ofbeldið svo slæmt að faðirinn gat þetta ekki lengur. Hann bað um skilnað og þau skildu. Móðirin hótaði manninum öllu illu og hann gaf eftir lögheimilið til hennar, þau enduðu með sameiginlega forsjá og lögbundinn umgengissamning.

En þetta samband var bara byrjunin á ofbeldinu. Konan bar út svo miklar sögur af manninum, bæði í háskólanum, til vina og vandamanna og í samfélaginu að það varð honum ofviða. Hann datt í það og fór í meðferð. Hann hætti í háskólanáminu sem hann var með konunni í eftir að hafa klárað 60 einingar og með 8,4 í meðaleinkunn fyrsta árið. Konan vissi hvað maðurinn var tilfinninganæmur bæði í sambandi og eftir það og notfærði sér það. Hann byrjaði síðan aftur í háskólanáminu en þurfti að hætta vegna ærumeiðinga hennar og lyga sem höfðu voru honum ofviða í skólaumhverfinu.

En þarna bætist maðurinn við hóp manna sem hún hefur ásakað um ofbeldi, barnsfaðir tvö í hóp allra þeirra sem áttu og eiga að hafa brotið á henni í fortíðinni.

Hún gerði sig algjörlega saklaust fórnarlamb í sambandinu og byrjaði með ærumeiðingar, lygar, undan snúninga, ýkingar og annað ofbeldi í meira en þrjú ár eftir samband sem heldur ennþá áfram með stuðningi hópa sem virðast beinast með miklum öfgum og hatri gegn karlmönnum. Líklega það versta ofbeldi sem maður hefur séð á almennum vettvangi á okkar tímum.

Maðurinn þagði að mestu í þrjú ár eftir samband, barnanna vegna, en ástandið varð svo ljótt að hann varð að svara fyrir sig og gerði það um stutta stund en sá síðan að það var bara eins og að henda eldivið á bálið því manneskja sem leikur 100% fórnarlamb en er einnig gerandi, getur ekki stigið til baka með orð sín þó þau séu lygi. Hún er búin að segja þau við hópinn og heiminn. 

Maðurinn hafði fengið marga áverka frá konunni en skammaðist sín of mikið til að segja frá nema móður sinni. Enda er hann karlmaður og má ekki gráta.

Konan hefur kerfisbundið búið til lygar um manninn á opinberum vettvangi og gefið upp heimilisfang hans og nafn. Maðurinn hefur alltaf verið svo meðvirkur að það tók hann næstum þrjú ár að aftengjast konunni, ástinni í lífi hans og móður barna hans. Þrátt fyrir allt hið ljóta sem hún gerði honum og gerir. En maðurinn er meðvitaður að hegðun konunnar sýnir hver hún er og að það komi honum ekkert við og hefur heilað sig frá henni og hennar andlegu meinum.

Maðurinn er meðvitaður um sína eigin galla í fortíðinni og biður konuna afsökunar á sínum hluta í sambandi þeirra. En hann hefur þurft að vera með konuna blockaða á samfélagsmiðlum 98% frá skilnaði svo hann taki ekki orð hennar inn á sig eða eineltið frá hópnum hennar.

Það þarf alltaf tvo til að dansa tangó og líkamlegt, andlegt, kynferðislegt og stafrænt ofbeldi á aldrei rétt á sér. Maðurinn hefur ekki viljað kæra hingað til því hann er að hugsa um börnin þeirra og áhrifin sem það gæti haft á þau. Einnig fékk hann ráðgjöf frá Félagsmálanefnd um að hunsa konuna og hennar hegðun, gera hana hlutlausa svo hann taki ekkert inn á sig og einbeita sér að sjálfum sér og börnunum sem hann gerir í dag. Því henni getur hann ekki breytt og er ekki í hans verkahring að gera.

Maðurinn hefur þroskast mikið frá sambandsslitum og er í dag á ákveðinn hátt þakklátur, því allar þessar þjáningar hafa mótað hann og þroskað í betri mann og komið honum aftur á sína braut í lífinu og hefur það að leiðarljósi að ávallt verða betri í dag en í gær.

Það skiptir engu máli hvað maðurinn segir eða gerir varðandi þetta mál. Það hefur hann séð sjálfur og verið sýnt af öðrum. En stafrænt ofbeldi í að verða fjögur ár eftir samband? Hvert skal ferðinni heitið og hvað er að þarna? Er þetta eðlilegt? Alls ekki og faðirinn hefur áhyggjur af börnunum sínum...

En svona er ofbeldi í sinni verstu mynd.

Faðirinn allavega hefur sleppt tökum á fortíðinni og lifir í núinu með börnunum sínum og horfir bjart til framtíðar.

Það væri hægt að hafa þessa sögu miklu lengri en hún er skrifuð til að sýna fram á það að karlmenn beita ekki bara ofbeldi, konur gera það líka og núna virðist sumar konur beita miklu meira ofbeldi en áður og nota samfélagsmiðla til þess. Þær virðast beina sér sérstaklega að þekktum mönnum í samfélaginu án þess að hafa eitthvað í höndunum nema sögur. Gróa á leiti gerir engum gott og að hegða sér svona segir mikið um þessar konur heldur en karlmennina. Sumar konur á netinu eru einfaldlega versta tegundin af ofbeldisfólkinu.

Þetta var ástarsagan af konunni og manninum en ég reikna með að hundruði, jafnvel þúsundir svona saga séu til.

Ég bið þig innilegrar fyrirgefningar á mínum hlut í okkar sambandi og vildi að ég gæti breytt mörgum hlutum. Þetta er mín lokun frá mér til þín. 

Ég fyrirgef þér.

Kv, Ég.

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæll og takk fyrir að deila reynslu þinni, styrk og von. 

Þú spyrð hvort margir karlar deili reynslu þinni? Ég held að það gætu verið fleiri en marga grunar. 

Mín skoðun er sú að margt sem ekki er ást getur orsakað óöryggi og jafnvel áfall. Vegur sanngjarna samskipta er vandrataður og ættum við sem samfélag að vera stöðugt að finna leiðir til að koma fræðsluefni um heilbrigði inn í námskrá skólanna okkar og finna leiðir til að efla fólk áfram í heiðarlegum og góðum samskiptum. 

Mín upplifun er sú að það er fleira sem sameinar okkur karla og konur en greinir okkur að. Að því sögðu get ég staðfest að karlmenn lenda í ofbeldi líkt og konur gera. Ungir menn eru með tilfinningar rétt eins og ungar konur. Karlmenn verða fyrir nauðgun, ofbeldi og allskonar, eins og konur gera - þarna er ég ekki að tala um hlutfall, vigta og mæla, heldur að staðfesta það að sjúk sambönd og ofbeldi, áfalla karlmenn líkt og þau áfalla konur. Á vef Stígamóta kemur sem dæmi fram að karlmenn eru 10-20% þeirra brotaþola kynferðisofbeldis sem leita til þeirra árlega. 

Ósanngjörn samskipti og ofbeldi er aldrei í lagi. Hver einasta manneskja, hvers kyns hún er, skiptir máli. Raddir og sögur karla þurfa að koma upp á yfirborðið og karlmenn þurfa að fá tækifæri til að fara ofan í sína sögu eins og þú ert að gera, til að heila okkur sem samfélag og koma okkur á nýjan stað.  

Bækurnar í mínu fagi bera stundum titil eða inntak með orðunum: Er þetta ást eða er þetta fíkn? Að því sögðu langar mig að minna á hvað er heilbrigð ást og hvað er andstæða þess. 

  • Sambönd og hjónabönd ættu ekki að vera eins og refsivist - þar sem fólk gerir samning um samband eða hjónaband og á enga leið út úr því. Við sem samfélag þurfum að hætta að ala á fíkn í kjarnafjölskylduna. Það sem gerist inn á heimilum fólks í nafni hjónbandsins er stundum ekki í lagi. 
  • Það er í lagi að skilja - einungis annar aðilinn þarf að vilja út til að skilnaður sé réttlátur. Þegar einstaklingur hefur skilið, þá á hann að geta upplifað sig frjálsan. 
  • Það er í lagi að gera mistök, læra af þeim og halda áfram í lífinu. Þetta þyrftum við sem samfélag að hafa að leiðarljósi og hætta að búa til draumsýn um að einhver eða eitthvað sé fullkomið. Öll kerfi er hægt að bæta og vísindin vinna markvisst að því að uppfæra kerfin sín. 
  • Heilbrigð hjónabönd og sambönd, efla einstaklinga, en brjóta þá ekki niður. 
  • Heilbrigð hjónabönd og sambönd, eru þannig að báðir aðilar taka ábyrgð á sér og finna sér leið til að vinna í sínum málum án þess að áskaka, fara í fórnarlamb eða bjarga hvort öðru. 
  • Þegar eitthvað kemur upp á í heilbrigðum samskiptum er eðlilegt að tala um það, finna lausn á málunum og jafnvel fá þriðja aðila til að veita innsýn inn í hvernig má leysa hlutina á heilbrigðan hátt fyrir báða aðila. 

Að þessu sögðu langar mig að hvetja þig og aðra að vera forvitna um hlutina og hafa trú á því umhverfi sem er að myndast í samfélaginu í dag. 

Að lokum af því þú beinir spurningu til mín í byrjun en svo virðist bréfið þitt verða bréf til fyrrverandi konu þinnar, þá langar mig að benda á að til eru samtök um stjórnleysi þegar kemur að nánum parasamböndum. Ef þú þekkir til tólf sporanna, þá verður þú fljótur að átta þig á hvaða samtök ég er að tala um. 

Ástarþráhyggja er lúmsk og þó viðkomandi hafi ekki áhuga á að koma hlutunum af stað aftur, í meðvitund sinni, þá gæti verið önnur hugsun í gangi í undirmeðvitundinni. Í mínu fagi er talað um þrjú stig bata. Fyrsta stigið felur í sér að skoða söguna og binda um allt stjórnleysi. Í öðrum hlutanum er farið ofan í áföll og 12 spora samtök skoðuð. Í þriðja hlutanum er stigið inn í heilbrigð samskipti og stundum ný sambönd. 

Gangi þér alltaf sem best á þinni vegferð og mundu að ástin býr inn í þér en ekki í öðru fólki. 

Kær kveðja, 

Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is