Stærsta áfallið að missa Gísla

Heiða Þórðardóttir.
Heiða Þórðardóttir.

Fjölmiðlakonan Heiða Þórðar er tveggja barna móðir og amma sem hefur þurft að upplifa fleiri áföll á sinni lífsleið en flestir. Heiða er systir bræðranna Gísla Þórs Þórarinssonar og Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, en stærsta áfall Heiðu var þegar Gunnar varð Gísla að bana í Noregi árið 2019. Heiða er nýjasti viðmælandinn í podcastinu Sterkari saman.

Heiða hefur gefið kost á sér í 3. - 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.

Heiða ólst upp við erfðiar aðstæður á heimili sínu. Hún á mörg systkini og hefur ekki tölu á þeim karlmönnums em bjuggu inni á heimilinu með móður hennar þegar hún var að alast upp. Hún rifjar upp fyrstu jólin eftir að Gísli bróðir hennar kom í heiminn en þá var mikil drykkja á heimilinu, 

„Við vorum læst inni í herbergi ásamt systur okkar. Hann var svo vær og góður og ég sat bara og horfði dolfallin á hann. Hann var svo fallegur. Systir okkar var óróleg, eðlilega því það voru drykkjulæti frammi og verið að brjóta hluti og öskra. Þarna var Gísli bara rúmlega tveggja mánaða,“ segir Heiða. 

„Hún vissi af þessu“

Heiða hefur oft verið beitt kynferðislegu ofbeldi og misnotkun en henni var fyrst nauðgað þegar hún var níu ára gömul. Hún segir stjúpfaðir sinn hafa misnotað hana, en hann var stjúpfaðir hennar í tíu ár. 

„Mamma kom að honum þar sem hann var að misnota mig þegar ég var svona níu ára svo hún vissi af þessu“, segir hún og bætir við að það hafi verið verra þegar rakarinn í bænum nauðgaði henni tíu ára gamalli.

„Ég sagði mömmu frá því og hún sagði að hann fengi aldrei aftur að koma inn á heimilið okkar en nokkrum dögum seinna sátu þau, ásamt fleirum, við drykkju þegar ég kom heim úr skólanum og var mikið hlegið.“

Heiða segist trúa því einlægt að móðir hennar hafi reynt að gera sitt besta en að hún hafi átt við andleg veikindi að stríða, sem kom seinna í ljós. 

„Ég er blessunarlega laus við alla reiði gagnvart mömmu, þó það hafi auðvitað sært mig sem barn þegar hún sagði mér að ég væri ekki falleg, ég væri alveg eins og pabbi minn og hann væri svo ófríður,“ segir Heiða sem var í samskiptum við móður sína allt þar til hún lést.

Þrátt fyrir að áföll hafi litað uppvaxtar ár Heiðu var stærsta áfallið þegar Gunnar bróðir hennar varð Gísla bróður þeirra að bana á heimili hans í Mehamn í Noregi. Heiða og Gísli voru mjög náin og setti andlátið veröld hennar á hliðina. 

Hún ræðir um aðdragandann og það sem gerðist eftir að Gísli lést og hvernig hún hefur náð að vinna sig í gegnum áföllin. mbl.is