Eiginkonan fór eftir 20 ára samband og hann situr eftir í molum

Besta leiðin út úr neikvæðum aðstæðum er að gera eitthvað …
Besta leiðin út úr neikvæðum aðstæðum er að gera eitthvað jákvætt í stöðunni. Til að þú upplifir eitthvað nýtt í nánum samskiptum þarftu að prófa nýja hluti. Að gera samband upp skriflega er vanalega mjög áhrifaríkt, því þá sér viðkomandi hvað hann vill upplifa aftur og hvað ekki. mbl.is/Colourbox

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá karlmanni sem elskar ennþá fyrrverandi konu sína, tveimur árum eftir skilnað þeirra.

Hæ Elínrós. 

Að elska og vera andlega fastur í sambandi með fyrrverandi maka.

Fyrir um 20 árum þá varð ég fyrir þeirri lukku að kynnast konu sem varð síðan besti vinur minn og manneskjan sem ég vissi að ég myndi eyða ævinni með. Yndisleg móðir, góð, traust, skemmtilegt og falleg að innan sem utan. Ef eitthvað var öruggt þá var það okkar samband. Ég hefði geta lagt lífið undir það áhyggjulaus.

Fyrir tveimur árum kom svo högg höggana, hún vildi skilnað. Þótt að sambandið okkar hafi ekki verið upp á sitt besta átti ég aldrei átt von á þessu.
Sambandsráðgjöf kom ekki einu sinni til greina hjá henni og ég fór að sjá að þetta var eitthvað sem hún hafði verið að hugsa um í langan tíma.
Mín fjölskylda og tengdafjölskylda sögðu mér að þetta væri örugglega tímabil og við myndum ná saman aftur og kannski væri þetta bara hollur tími fyrir okkur bæði.
Svo í mínum huga ákvað ég að það væri svoleiðis.

Svo á næstu mánuðum/árum keyrast upp margar tilfinningar, svo sem reiði, skömm og ást. 

Hvernig gat hún svikið mig? Eyðilagt fjölskylduna okkar? Það eina sem ég hafði alltaf vitað 100% er að við tvö myndum standa af okkur alla storma. Síðan sér maður hægt og rólega að sökin er ekkert meiri hennar frekar en mín. Við vorum hætt að hugsa um okkur.

Þótt að ég hafi ekki verið á þeim stað sem hún var á, þá var þetta ekki henni að kenna. Ég og við hefðum geta gert betur á svo mörgum stöðum. 

Stóra eftirsjáin er að ég hafi ekki séð eða viljað sjá hversu illa henni leið og þá um leið hvert sambandið okkar var komið. Það mun fylgja mér út lífið.

Hvernig gat ég ekki séð að kona sem ég elskaði leið svona illa?

Stórt vandamál er að í mínum huga er hún ennþá yndislega konan mín og það er í raun hræðilegt fyrir alla.

Þegar hún kynnist strákum þá upplifi ég það eins og hún sé að halda framhjá og mér líður hræðilega, eins og hún sé að halda framhjá mér. Að auki hef ég verið henni trúr nú tveimur árum eftir skilnað. Ég átta mig á að þetta er galið og mín hugsunar-villa að líða svona, en svona er þetta samt. Konugaldrar. 

Á þessum tveimur árum hafa komið tímar þar sem að samband okkar er mjög gott og ég hélt  að það væri möguleiki að við myndum ná saman en hún vildi það ekki. Ég þarf að virða það. Almennt er gott samband okkar á milli, enda mikilvægt vegna barna, en hugsanlega er samt of gott samband okkar á milli, því stundum tölum við saman eins og par.

Ég finn að andlega líðan mín er bara að verða verri, ég einangra mig mikið og vel það að vera einn. Líkamleg heilsa er líka orðið mjög slæm enda oft sem allt virðist vera frekar tilgangslaust, síðan koma tímar inn á milli sem eru góðir, en þeir virðast vera að styttast. 
  
Ég þarf að finna leið til að komast áfram ekki bara fyrir mig og krakka, heldur fyrir hana því henni á ekki að þurfa líða illa yfir því að elska mig ekki og finna sína hamingju.

Kveðja, H

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæll og takk fyrir fallega bréfið þitt. 

Það sem þú ert að fara í gegnum hljómar mjög sannfærandi og í takt við rannsóknir sem gerðar hafa verið á líðan einstaklinga eftir sambandsslit. Það tekur að meðaltali tvö ár að komast í gegnum skilnað og konur virðast vera aðeins fyrr að ná sér en karlar.

Harvard gerði rannsókn sem sýndi að líkamleg- og andlega heilsa fólks hrakar ef það er í óvissuástandi lengur en í átta vikur. Vegna þessa er stundum talað um að einstaklingar eigi að forðast það að hafa sambönd og náin samskipti á gráu svæði í lengri tíma en þessar vikur. Ég myndi segja að þetta er ástæða þess að þér er að versna heilsufarslega. 

Út frá þessu hefur Dr. Pat Allen búið til átta vikna regluna. Þar sem hún hvetur fólk til að hafa ekki samband við þá sem vilja út úr sambandi í þennan tíma. Ef konan þín er ekki komin aftur til þín eftir átta vikur, þá því miður, má áætla að hún sé farin eitthvað annað. Hvorki ég né einhver annar gæti hins vegar sagt þér hvort hún komi til baka í framtíðinni eða ekki. En það sem hún er væntanlega að gera er að athuga hvort hún finni einhvern sem passar betur við hana en þú gerir. 

Af þessum sökum vil ég hvetja þig til að hefja raunverulegt skilnaðarferli þitt. Góð leið til að hefja það er að setjast niður með blað og penna og skrifa niður það sem þig langar að upplifa. Þú getur eins skrifað fyrrverandi konu þinni bréf þar sem þú talar um allt sem þér líkar við hana. Skrifaðu niður það sem þér líkaði við sambandið og skrifaðu einnig niður það sem þér líkaði ekki við. Ég vona að eitt af því verði að hún vildi ekki vera með þér áfram og vinna úr málunum. Þú ræður hvort þú sendir henni þetta bréf eða geymir það í skúffunni þinni. 

Það eru til nóg af fallegum, skemmtilegum og klárum konum þarna úti - þú þarft bara að skilja við fyrrverandi og fara af stað til að sjá það. 

Þú ert með tvær grunnhugmyndir (e. core belief) um sambönd sem mig langar að leiðrétta. Önnur þeirra er að öryggi sé fólgið í ástarsamböndum og hin er sú að eitthvað geti varið að eilífu. Ég held það sé hollt og gott að sjá að lífið er ekki svona fullkomið og þó fólk elski hvort annað af öllu hjarta, þá er það ekki nóg til að sambandið sé öruggt. Það er svo margt sem getur komið upp á, veikindi sem dæmi og fleira sem erfitt er að stjórna. Fólk er bara ekki svo fullkomið að það geti lofað öðru fólki svona miklu öryggi.

Ég trúi því að þið hafið verið að gera ykkar besta og að hugsa samband ykkar í fortíðinni einhvernvegin öðruvísi er botnhegðun að mínu mati. Það er í það minnsta ekki að fara að láta þér líða betur eða ganga betur að finna þér nýtt samband. 

Það er þrennt sem er gott að hafa í huga þegar þú leitar þér að konu, það er að þú getir talað við hana, að þú laðist að henni líkamlega og að þið séuð með svipuð gildi (e. communication, chemistry, compatibility). Ég held að sambönd séu það flókin að erfitt sé að halda þeim saman í lengri tíma nema að þetta sé til staðar. 

Það hljómar eins og þú sért sjálfur gott efni í maka, svona miðað við hvernig þú lýsir þér í bréfinu þínu. Svo af hverju ekki bara að fara af stað og sjá hvað gerist í kjölfarið? Hvað getur þú get fyrir þig í dag og alla daga til að verða besta útgáfan af þér? Í þessu samhengi mæli ég með því að þú skoðir vinnuna þína, hvernig þú borðar, æfir og hvernig þú leikur þér eftir vinnu, með börnum og vinum þínum. 

Það eru tvær bækur sem ég get mælt með fyrir þig að lesa eða hlusta á. Önnur þeirra heitir: If the Buddha Dated og hin heitir If the Buddha Married. Báðar eru þær eftir Charlotte Kasl.  

Ef einhverjar hindranir verða á vegi þínum, þá er alltaf áhugavert að skoða hvað býr þar að baki. Ein versta valda upplifun, að mínu mati, er að velja að elska fólk sem hefur ekkert að gefa til baka. Það er einungis til þess gert, að meiða og staðfesta hugmyndir um skort á virði persónunnar, sem er hvorki satt né rétt fyrir nokkra lifandi manneskju í þessu lífi. Að þessu sögðu vil ég hvetja þig í að setja konur sem ekki vilja þig í botnhegðun?

Þú ert mjög dýrmætur og átt skilið að vera elskaður fyrir hver þú ert. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að dusta bara rykið af gömlu spariskónum, fara út með vinum og kunningjum, horfa í augun á fallegum konum og brosa til þeirra. Það væri góð byrjun og ætti að vera í topphegðun hjá þér að mínu mati. 

Eins hef ég verið að þróa litla fimm manna Masterclass hópa fyrir einstaklinga sem eru að feta sig áfram á þessari braut þar sem reynslan hefur sýnt að það getur verið mjög gott að læra í gegnum reynsluheim annarra á svipuðum stað. 

Lífið þitt er í þínum höndum en ekki annarra. Besta leiðin út úr neikvæðum aðstæðum er að taka jákvæða ákvörðun sem styður við þig í framtíðinni. 

Hvað getur þú gert fyrir þig í dag sem þú ert að bíða eftir að fá frá öðru fólki?

Gangi þér vel og ekki hika við að senda mér aftur bréf þegar þú ert farinn af stað.  

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál