Hver borgar tjón á bíl vegna slæmra vega?

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þórir Skarphéðinsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er ósáttur við tjón á undirvagni bifreiðar sinnar vegna ástandsins í sveitafélaginu sem hann býr í. 

Góðan daginn,

Talsverðar skemmdir hafa orðið á undirvagninum á bílnum mínum undanfarnar vikur vegna þess hve ástandið á vegunum er slæmt. Ég held að tryggingarnar dekki ekki allar skemmdirnar. Getur sveitarfélagið sem ég bý í verið skaðabótaskylt vegna skemmdanna? Ástand veganna er á ábyrgð sveitarfélagsins sem hefur svo sannarlega ekki verið að standa sig í snjómokstri í þessu tíðarfari sem hefur verið undanfarnar vikur.

Kveðja, 

BJ

Þórir Skarphéðinsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þórir Skarphéðinsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll BJ. 

Í hinu risjótta tíðarfari og krefjandi aðstæðum sem verið hafa hér á landi í vetur, hefur spunnist töluverð umræða um snjómokstur og hálkuvarnir, m.a. hvort einstaska sveitarfélög hafi uppfyllt skyldur sínar hvað það varðar. Flest sveitarfélög eru með ákveðnar verklagsreglur þegar kemur að t.d. snjómokstri og er þeim t.a.m. skipt í þrjá flokka hjá Reykjavíkurborg. Húsagötur eru í þriðja flokki á eftir t.d. stofnbrautum og aðkomu að skólum, sem eru í forgangi.

Borið hefur á því að snjór, hálka og krapi hafi safnast saman á tilteknum stöðum í borginni sem hefur orðið til þess að bílar hafa bilað eða hreinlega orðið fyrir tjóni. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem aðstæður á vegum valda tjóni á ökutækjum. Þannig hafa blæðingar og holur á vegum  verið nokkuð til umræðu á síðustu misserum enda hafa þær valdið skemmdum á bílum. Vegagerðin hefur forræði yfir vegagerð, þjónustu og viðhaldi þjóðvega landsins. Vegagerðin eða e.a. tryggingafélag hennar, hefur í mörgum tilvikum verið talin bótaskyld vegna slíkra skemmda á ökutækjum.

Meginreglan er sú að þegar ökutæki einstaklinga lenda í tjóni án aðkomu annarra ökutækja eða einstaklinga, bera þeir tjón sitt sjálfir. Það eru tvær undanþágur frá þessari meginreglu þ.e. annars vegar að þriðji aðili beri ábyrgð á tjóni vegna háttsemi eða athafnaleysis og hins vegar að einstaklingar séu tryggðir fyrir tjóni.

Að því er varðar mögulega ábyrgð þriðja aðila á tjóni vegna háttsemi eða athafnaleysis, er horft til hinnar svokölluðu sakarreglu skaðabótaréttar til að fá úr því skorið hvort tjón sé bótaskylt. Þessi ólögfesta regla gengur út á að aðili er talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið talið sennileg afleiðing af hegðun hans o.s.frv.  Að því er varðar Vegagerðina, hefur í þeim tilvikum sem stofnuninn hefur verið talin bótaskyld sbr. framangreint,  verið litið svo á að orsakatengsl hafi verið á milli tjóns bifreiðaeigenda og athafna eða athafnaleysis Vegagerðarinnar. Jafnframt sé tjónið sennileg afleiðing af háttsemi Vegagerðarinnar.

Í tilviki sveitarfélaga og aðstæðna á götum þeirra, er vandséð að bótskylda Vegagerðar og sveitarfélaga verði lögð að jöfnu. Það er fyrst og fremst vegna þess að í tilfelli sveitarfélaga snýst málið um veður og tíðarfar en ekki mannanna verk eins og hjá Vegagerðinni. Þróun veðurs og afleiðingar þess er erfitt að sjá fyrir.  Hitt er annað mál að ef einstaklingi sem verður fyrir tjóni tekst að leiða líkum að eða sanna sök sveitarfélagsins, er tilfellið metið út frá fyrrgreindri sakarreglu sem kann eftir atvikum að leiða til bótaskyldu sveitarfélags sé skilyrðum reglunnar fullnægt. Það verður þó almennt séð að teljast ólíklegt.

Hitt er annað mál að öll ökutæki ber skv. lögum að tryggja og í skilmálum kaskótrygginga margra ökutækjatrygginga,  má finna ákvæði sem taka á skemmdum á undirvagni. Þar er t.d.  að finna ákvæði sem kveða á um bótaskyldu vegna skemmda á undirvagni og hjólbörðum vegna þess að ekið er í holu eða ökutæki rekst niður í akstri á götum sveitarfélagsins svo eitthvað sé nefnt. Tryggingafélögin undanþiggja sig hins vegar vegna tjóna sem eiga sér stað við akstur fjallavega, utanvega, yfir ár og vötn og fl.  Það er því alls ekki loku fyrir það skotið að einstaklingar geti sótt bætur til tryggingafélaga vegna tjóna á ökutækjum sem sannarlega eiga sér stað á götum sveitarfélaga.

Kveðja, 

Þórir Skarphéðinsson lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál