Missti barn 18 ára og leiddist út í óreglu

Sandra Ýr upplifði mikinn harm þegar hún missti 18 mánaða …
Sandra Ýr upplifði mikinn harm þegar hún missti 18 mánaða gamlan son sinn þegar hún var kornung.

Sandra Ýr er 29 ára, fjögurra barna móðir, dóttir, systir, kærasta og óvirkur alkahólisti með stóra áfallasögu. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.

„Ég er venjuleg sveitastelpa úr Grindavík sem var í landsliðum í fótbolta og körfubolta þegar ég var yngri auk þess að verða Íslandsmeistari í fitness,“ segir Sandra Ýr og bætir við að lífið hafi tekið aðra stefnu en vinkvenna hennar þegar hún varð ófrísk af syni sínum aðeins 17 ára.

„Mér fannst ég mjög fullorðin og varð mamma 18 ára en auðvitað var ég rosalega ung. Ég og barnsfaðir minn hættum saman þegar sonur okkar var eins árs, nokkrum mánuðum síðar kynntist ég öðrum strák sem ég fór að vera með.“

Sandra segir frá örlagaríkum degi þar sem hún fékk yfir sig óþægilega tilfinningu og bað þáverandi kærasta sinn að athuga með Gabríel, son sinn, því hún var lasin. Hann gerði það og kom að drengnum hennar látnum, 18 mánaða gömlum. Hún lýsir atburðarás og tilfinningum sem yfirtóku líkama hennar og huga í kjölfar þessa hræðilega atburðar. Ekkert kerfi greip þessa ungu móður sem þarna hafði misst ungan son sinn og farið í gegnum ofbeldissambönd og var enn í einu slíku.

Með tímanum leitaði Sandra í að djamma, djammið þróaðist í fíkn og flótta frá sársaukanum, hún eignaðist annað barn en var andlega ekki til staðar, langaði á tíma ekki að lifa og hefur farið djúpt inn í undirheima Íslands, upplifað mikið ofbeldi, birtingarmyndir þess eru margar og þekkir hún þær.

„Ég hafði náð þremur mánuðum edrú og ætlaði aldrei að láta foreldra mína og fólkið mitt ganga í gegnum þetta helvíti aftur. Ég kynntist heilsteyptum og flottum lögfræðingi, að ég hélt, á fundi sem bauð mér á deit. Hann dró svo fram rauðvínsflösku og sagðist geta drukkið því efnin væru bara vandamál hjá honum. Ég var ekki lengi að gleypa við þeim rökum því einu sinni gat ég það líka. Eftir að flaskan kláraðist henti hann svo poka á borðið, eftir þetta byrjaði alvöru helvíti.“

Sandra þekkir fordóma, hræðslu, sinnuleysi og svo margt fleira.

Í dag á Sandra fallegt líf þar sem hún vinnur mikla sjálfsvinnu og stundar 12 spora vinnu og fundi. Hún segir frá því að hún sem móðir sé einnig að eiga við kerfið því það grípur ekki börnin okkar þegar á þarf að halda, ekki frekar en hana þegar hún þurfti á sínum tíma.

 
mbl.is