Gift í 28 ár en tala varla saman: Hvað er til ráða?

Það eru margir sem upplifa það að vera einmana í …
Það eru margir sem upplifa það að vera einmana í ástarsamböndum þó allt líti vel út á yfirborðinu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem veltir fyrir sér hvort hægt er að vinna í hjónabandi sem hefur verið að dala með árunum. 

Sæl og blessuð. 

Ég er búin að vera í sambandi og gift sama manninum í 28 ár og eftir því sem börnin fara að heiman finnst mér við fjarlægjast hvort frá öðru. Við förum ekkert orðið saman, gerum ekkert saman. Ef það er hittingur eða afmæli eða eitthvað því um líkt í fjölskyldunni minni þá er ég farin að segja við hann að hann þurfi ekkert frekar að mæta því oft og tíðum situr hann með fýlusvip eða svarar fólki pirraður og þá finnst mér bara gott að hann sé frekar heima.

Á kvöldin er horft á sjónvarpið eða hangið í símunum og lítið talað saman. Mér finnst ég vera þjónn a heimilinu þar sem ég geri allt, hann kemur heim úr vinnu borðar, sest fyrir framan sjónvarpið og er þar þangað til hann fer að sofa. Hann hefur ekki frumkvæði í neinu til dæmis bara að taka úr uppþvottavélinni eða fara út með ruslið. Svo ekki  sé meira sagt er ég orðin þreytt á að segja honum að gera þetta og gera hitt. Hann getur ekki einu sinni millifært í netbankanum því hann kann það ekki. Hann hefur ekki hugmynd hvernig fjármálin standa.

Nú líður að árshátíð í fyrirtækinu hans og hann sagði allt í einu upp úr þurru: Langar þig nokkuð að fara frekar en mig? Hann var ekki einu sinni búinn að segja frá dagskránni eða hvar árshátíðin ætti að vera.

Ég er alveg ráðalaus um hvað ég á að gera. Ég sit oft heima ein á daginn og græt og veit ekki einu sinni af hverju eða hvort það tengist þessu eitthvað.

Með fyrir fram þökk.

Ein sem veit ekki hvað er til ráða. 

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Það sem ég les úr bréfinu þínu eru vanmáttur við að ræða tilfinningar. Ég held að fyrsta og aðalskrefið sem þú getur tekið, er að fókusera á þig. 

Hvað ætli þú getir gert í dag, til að þér líði betur?

Ég er alveg sammála, að öll verkefni heimilisins geta ekki verið á þínum herðum.  

Svo er spurning með ástarsambandið, hvort þú sért tilbúin að gefa því annan séns? 

Það fylgir því alltaf ákveðin vinna að vera í langtímasamböndum. Fólk vex á mismunandi hraða í lífinu og hlutirnir hafa ólík áhrif á fólk. Stundum verður annar aðilinn veikur, þunglyndur eða fer í gegnum tímabil sem eru erfið. Það þarf ekki að hafa neitt með sambandið að gera. 

Ég mæli með fyrir alla sem eru að upplifa áskorun þegar kemur að nánd og parasambandinu að fara í ráðgjöf, saman og í sitthvoru lagi. 

Hér kemur upptalning á nokkrum hlutum sem ég myndi mæla með fyrir þig að skoða. Ég prófaði að setja inn efni úr spurningu þinni til að skerpa á svarinu mínu til þín:

Gagnkvæmni

Gagnkvæmni er forsenda heilbrigðra samskipta. Þegar skortur á gagnkvæmni verður í nánum ástarsamböndum, getur verið gott að fara ofan í það. 

Maðurinn þinn, samkvæmt bréfinu þínu, er að sýna vissa gagnkvæmni. Þú ert hætt að bjóða honum með þér í boð, hann er að gera hið sama, nema hvað hann ákveður að fara ekki heldur. 

Hvað myndi gerast ef þú myndir byrja að bjóða honum með þér allt sem þú ferð? Jafnvel þó hann verði ekki hressasti maðurinn á staðnum. Með því ertu að sýna honum að þú vilt hafa hann nálægt þér og að parasambandið ykkar skipti þig máli, þó það sé ekki fullkomið akkúrat núna. 

Eins er áhugavert að vita hvað myndi gerast ef þú færðir þig nær honum á kvöldin. Myndi hann færa sig nær á móti, eða lokast meira?

Sanngjörn samskipti

Sanngjörn samskipti hafa verið skoðuð frá öllum hliðum og eru til allskonar samningar sem hægt er að gera og fara eftir þegar kemur að þeim. Eitt af því sem þykir mjög sanngjarnt að gera er að gera ráð fyrir því að fólk er allskonar og enginn með sömu reynsluna. Eins þykir sanngjarnt að nota orðalagið: Mér finnst, mér líður. Þá ber að forðast að ásaka aðra fyrir veruleika sem einstaklingur er að upplifa.

Ef við tökum dæmi um heimilisverkin - getur þú orðað breytingarnar svona: Mér finnst eins og ég hafi tekið of mikla ábyrgð þegar kemur að heimilinu og það er ekki sanngjarnt gagnvart mér né þér lengur. Ég hef því ákveðið að segja nokkrum þeirra upp. Hvernig hljómar það?

Þarna værir þú að nota þrjár setningar um stórt málefni, sem þykir sanngjarnt. Í stað þess að halda langa fyrirlestra um málin. 

Ef hann tekur við eitthvað af verkefnunum þá er hann að sýna vilja til að vinna með þér í þessu, ef hann nefnir aðra hluti sem hann tekur ábyrgð á, þá er áhugavert að skoða það með þriðja aðila, svo sem ráðgjafa. 

Frelsi

Hjónabönd eru ekki þannig að þau haldast óbreytt með árunum. Þau eru sífellt að breytast og er oft talað um að þau séu ákveðið ferli. 

Ein helsta forsendan fyrir því að fólk geti unnið í hjónabandi sínu, og gert það betra með árunum, er að tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart makanum og að vera með vilja til að reyna að gera það betra.

Ég held það sé gott að muna að þú berð ábyrg á þínu lífi og hann sínu og svo sameinið þið hluta lífs ykkar í hjónabandinu. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að þú stígir inn í að lifa lífinu sem þig langar að lifa. Bókir ferðalögin sem þig langar að fara í og veislurnar sem þig langar að eiga með börnum ykkar og barnabörnum. Lífið er ekki svo langt og hver einasti dagur dýrmætur. 

Ást

Að lokum langar mig að minna þig á að ást er sýnd með hegðun. Ég mæli með að þú takir ákvörðun um að elska þig í dag, og síðan manninn þinn, börnin þín og aðra afkomendur. 

Ég heyrði eitt sinn sagt að allir fara í gegnum þrennskonar sambönd í lífinu. Sambandið sem einkennir árin þegar við erum ung, sambandið sem einkennir árin þegar við erum að stofna fjölskyldu, kaupa hús og fóta okkur í lífinu, og svo sambandið sem við förum í á okkar efri árum. Þú getur farið í gegnum þessi sambönd með einum og sama manninum eða skipt út mönnum eftir tímabilum.

Þú ein veist hvort maðurinn þinn getur farið í gegnum það tímabil sem þið eruð að fara inn í núna með þér. Ef þú ákveður að halda áfram að elska hann og tímir ekki að missa hann, þá ekki hika við að reyna að drífa hann áfram með þér.

Í raun hafið þið farið í gegnum erfiðasta hjallann saman, að standa saman í gegnum súrt og sætt, þegar börnin ykkar voru ung. Það er á þeim tíma sem margir verða vanmáttugir og gefast upp. 

Gangi þér og ykkur, alltaf sem best. 

Bestu kveðjur, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is