Of ungleg eða of gömul og með of djúpa rödd

Aldís Amah Hamilton.
Aldís Amah Hamilton. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Aldís Amah Hamilton leikkona og handritshöfundur opnar sig í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar. Þar talar hún um eigin fordóma, hindranir sem hún hefur fundið fyrir og erfiðleikana við að leika í nándar- og nektarsenum fyrir framan alþjóð. Aldís segir að nándarþjálfari hafi verið fenginn til að tryggja að öllum liði sem best við tökur á þáttunum Svörtu sandar.

„Ég er mjög fylgjandi því að það séu nándarþjálfarar, sérstaklega í svona viðkvæmum senum. En það sem mér fannst erfiðast var að hugsa ekki hvernig ég lít út. [...] ég var ógeðslega meðvituð um að ég yrði nakin og allir myndu sjá hvernig ég er byggð og lít út. Það var eiginlega erfiðast.“

Hún upplifir að það sé hálfgert tabú að tala opinskátt um útlitskröfur og pressuna sem leikarar kunna að upplifa, en henni finnst mikilvægt að hægt sé að tala um það til að fólk upplifi sig ekki utangátta.

„Ég hef alveg viljað tala um þessa hluti, bara pressuna sem maður setur á sjálfan sig og maður treystir því ekki að fólk muni samþykkja mann nema maður sé í einhverju formi og lagi. En ég hef ekki þorað að það því það er eins og þetta sé einhver veikleiki. En þetta er bara raunin,“ segir Aldís og segir óþægilegt að vilja berjast gegn þessum hugsunarhætti sama tíma og hún sé að horfast í augu við eigin fordóma.

„Þegar spjótin beinast að manni sjálfum þá er maður miklu dómharðari en maður myndi vera á aðra. Síðan fer mér að líða illa að vera of dómhörð á sjálfa mig, því þá hugsa ég að ég er með fitufordóma gagnvart mér og er ég þá með fiturfordóma gegn öðrum og þetta er mjög flókið.“

Aldís segir mikilvægt að geta horfst heiðarlega í augu við sjálfa sig og hvernig maður litast af hugmyndum samfélagsins án þess að vilja það eða endilega gera sér grein fyrir því.

Mín hugsun er líka hvít

„Þú talar um að þín hugsun er hvít, mín er það líka. Alveg eins og við erum bæði alin upp í sama samfélagi sem hefur verið hliðhollt feðraveldinu þá erum við líka alin upp í samfélagi sem er hliðhollt hvítum af því að Íslendingar voru allir hvítir. [...] Ég er ekki alin upp að neinu leiti í kringum svart fólk,“ segir Aldís og vísar til þess þegar Black Lives Matter hreyfingin varð áberandi í Bandaríkjunum hafi fólk leitað til hennar og talið að vegna húðlitar hennar gæti hún frætt það og rætt um rasisma. Hún segist vera bara ísslensk leikkona, ekki sérfræðingur í rasisma eða kynþáttahyggju og því hafi hún ekki endilega meira fram á að færa en annað fólk sem elst upp í hvítu samfélagi og hefur ekki menntað sig í málaflokknum. Í raun gætu aðrir, hvítir, Íslendingar örugglega haft meira fram á að færa en hún.

Of ungleg og of gömul

Aldís segist ekki hafa fundið fyrir beinum hindrunum vegna kyns síns eða húðlitar en að hún hafi mætt annarskonar hindrunum.

„Ég hef hins vegar oftar heyrt að ég sé of ungleg fyrir eitthvað, of gömul eða jafnvel með of djúpa rödd.“ Hún tekur fram að hún geti auðvitað ekki verið viss um að kyn hennar eða húðlitur hafi spilað inní hlutverkaval. Hinsvegar eigi þessi óvissa við um alla leikara. Aldur leikkvenna er henni hinsvegar áhyggjuefni en talar hún aðallega um þær áhyggjur út frá Bandaríkjamarkaði, þar sem hún viðurkennir að hún horfi mikið til hans. Upplifun hennar sé sú að tækifæri fyrir leikkonur til að „brjótast í gegn“ fari dalandi eftir því sem þær verða eldri, „nýstirnin“ eru yfirleitt leikkonur í kringum tvítugsaldur þar. Vísar Aldís til þess að í gegnum tíðina hafi þar ungar og upprennandi leikkonur leikið á móti eldri körlum en konur sem komnar séu yfir þrítugt fái sjaldnar sambærileg burðarhlutverk í kvikmyndum, nema þær séu orðnar þekktar.

Aldís hugsar um leikferilinn sem tækifæri til að tengja við aðra og miðla reynslu sinni og annarra í gegnum hlutverk og áhrifin sem starfinu fylgja.

„Ég er farin að hljóma eins og allt eldra fólk, en þegar maður er eldri þá hefur maður svo miklu að miðla og það er svo pirrandi að vera hrædd um að því að ég er orðin 30 ára að þá er enginn að hlusta á mig.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál