Erfir dóttir mín okkur bæði eða bara mig?

Unsplash

Þyri Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér erfðamálum er varðar hana og hennar fjölskyldu. 

Góðan daginn.

Ef ég á dóttur en er gift manni sem er ekki pabbi hennar, hver er réttarstaða hennar gagnvart arfi okkar. Erfir hún okkur samt þar sem hún er bara dóttir mín en við maðurinn minn eigum allt saman.

Kveðja, GH

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Góðan dag.

Dóttir þín erfir þig og sinn (kyn)föður en hún erfir ekki eiginmann þinn. Eignir þínar og mannsins þíns eru hjúskapareignir ykkar og ef þú fellur frá á undan manninum þínum þá samanstendur þitt dánarbú af helmingnum af ykkar eignum. Það er arfurinn og þá erfist 1/3 til eiginmannsins og 2/3 til dóttur þinnar.

Það er vert að taka fram að ef hjón sem eiga sitt hvor börnin ákveða að það sem lifir lengur hafi heimild til að sitja í óskiptu búi með erfðaskrá, þá fellur niður erfðarétturinn á milli hjónanna þegar búi þeirra er skipt eftir dag þeirra beggja. Þannig myndu börn hvors um sig erfa helming ef andlát beggja hjónanna, slík erfðaskrá yrði gerð.

Með kveðju,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is