Bubbi þurfti að afklámvæða sig

Bubbi Morthens.
Bubbi Morthens. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bubbi Morthens opnar sig í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar og segir meðal annars frá því hvaða afleiðingar kynferðisofbeldið sem hann varð fyrir 14 áta gamall höfðu í för með sér.

„Ég var ekki búinn að sofa hjá stelpu þegar þetta gerist. Ég var bara 14 ára. Ég var skotinn í stelpu en frá þessum tímapunkti þá var heilbrigt kynlíf tekið frá mér og getan til að stunda kynlíf með nánd, ég var sviptur henni. Punktur. Það er bara þannig. Ég átti nánara samband við klám heldur en til dæmis að eiga eðlileg samskipti við konur.“

Bubbi lýsir því hvernig hann losnaði undan skömminni og reiðinni en einnig kláminu.

„Ég þurfti að afklámvæða mig vegna þess að það er allt eðlilegt ef þú ert skakkur í lífi þínu að horfa á klám. En klám gerir ekki neitt. Klám er bara fix, eins og að fá sér jóntu, í nefið. Þetta er bara sefjun og áráttuhegðun. Ég þurfti að taka þetta í stigum þangað til að ég hafði ekki horft á klám í marga mánuði.“

Utangátta steingert tröll

Bubbi segist upplifa sig oft sem utangátta, utanveltu og sem steingert tröll enda alinn upp, að eigin sögn, í eitraðri karlmennsku og kvennakúgun.

„Ég er giftur konu sem er gallharður femínisti með mjög skýra sýn á sér, dætrum sínum og stöðu kvenna í þjóðfélaginu og stundum finnst mér ég vera eins og steingert tröll. Mér finnst ég stundum vera utangátta og utanveltu. Ég sit og hlusta og hugsa úr hvaða öld kemurðu Bubbi. Engu að síður er ég fær um að breyta skoðun minni og endurskoða líf mitt og sé að það eru breytingar í gangi.“

Bubbi virðist ekki bjartsýnn á sína kynslóð og segir hana markalausu kynslóðina.

„Mín kynslóð er markalausa kynslóðin. Það hafa engin mörk verið hjá íslenskum karlmönnum í sambandi við samskipti við kvenfólk, ekki bara í fornöld heldur bara nánast fram á daginn í dag.“

Þá telur Bubbi að janfaldrar hans séu almennt ekki móttækilegir fyrir breyttum kröfum og ákalli í kjölfar metoo.

„8 af hverjum 10 jafnöldrum mínum telja þetta vera kjaftæði [...] ég held að þeim sé ekkert bjargandi. Til þess að breytast þarftu að endurforrita heilan þinn, ef þú vilt hætta að stunda slæma siði þá þarftu að ástunda góða siði [...] og til þess þarf vinnu.“

Karlar verði að hlusta

Bubbi hvetur karlmenn til að slaka á og vera móttækilegir fyrir ákalli kvenna og þeirri gagnrýni sem jaðarsettir einstaklingar eru að miðla til okkar.

„Ég segi bara við alla karlmenn sem hafa eyru, veriði bara móttækilegir, slakiði á og athugiði hvort að það sé ekki einhver möguleiki fyrir ykkur að endurforrita heilan þó það væri ekki nema tvisvar sinnum í viku. Ástunda einhverskonar sjálfsskoðun hvernig hegðun ykkar hefur verið og hvernig þið viljið að hún sé.“

Þáttinn í heild sinni er hægt að hlusta á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is