„Ég elska að fá að vera hetjan á bak við tjöldin“

Alína Vilhjálmsdóttir aðstoðar tilvonandi brúðhjón við að skipuleggja brúðkaup.
Alína Vilhjálmsdóttir aðstoðar tilvonandi brúðhjón við að skipuleggja brúðkaup. Ljósmynd/Aðsend/Iboryka.photo

Alína Vilhjálmsdóttir nýtur þess til fulls að vera eins konar hetja á bakvið tjöldin þegar brúðkaup eru annars vegar. Alína hefur brennandi áhuga á brúðkaupum og hefur aðstoðað tilvonandi brúðhjón við að skipuleggja stóra daginn síðastliðin tvö ár. Það segir hún vera virkilega gefandi starf þar sem margslungnar tilfinningar og misjafnir persónuleikar mætast á miðri leið. Alína leggur mikið upp úr persónulegri og einstaklingsmiðaðri þjónustu með það að markmiði að leyfa brúðhjónum að skína sínu skærasta.

„Ég hafði í raun aldrei hugsað um brúðkaup fyrr en ég gifti mig sjálf árið 2019. Ég var aldrei týpan til að hugsa um það sem krakki eða láta mig dreyma um hvernig sá dagur myndi vera áður en ég trúlofaði mig,“ viðurkennir Alína sem í dag á og rekur fyrirtækin Og Smáatriðin og Andartakið en þau sérhæfa sig í að skipuleggja brúðkaup og útbúa fáguð boðskort fyrir slík tilefni.

Alína er snillingur í höndunum en hún sérhæfir sig í …
Alína er snillingur í höndunum en hún sérhæfir sig í að hanna og útbúa boðskort og bréfsefni fyrir brúðkaup. Ljósmynd/aðsend/Iborycka.photo

Alína ákvað að láta til skarar skríða og stofnaði Andartakið eftir að stóð sjálf í stórvægilegum brúðkaupsundirbúningi. Það var svo margt sem hana þótti vanta á markaðinn hér heima sem tengdist brúðkaupum og eitt af því var aðstoð við að útbúa falleg og handunnin boðskort. „Ég hugsa oft tilbaka og spái í það af hverju ég ákvað að byrja á því að hanna boðskort en í hreinskilni sagt þá er það vegna þess að hræddist það í fyrstu og leitaði í öruggu leiðina. Ég hef lengi vitað innst inni að löngun mín til að hjálpa fólki við skipulag á brúðkaupum hefur verið mikil. En verandi ekki með neina menntun eða reynslu í viðburðarstjórnun þá ákvað ég að sitja hjá því og taka fyrsta skrefið í átt að því sem ég þekki og það er hönnun,“ segir Alína sem leyfði óttanum að staldra stutt við og lét draum sinn rætast þegar hún stofnaði sitt annað fyrirtæki, Og Smáatriðin, þar sem hún aðstoðar tilvonandi brúðhjón við að skipuleggja stóra daginn.

„Mér fannst vanta meira úrval inn á þennan vettvang og mér finnst það vera mikill heiður að fólk skuli treysta mér til þess að aðstoða það við að gera brúðkaupsdag sinn ógleymanlegan,“ segir hún. Fyrirspurnum rigndi yfir Alínu þegar heimsfaraldurinn var í hámarki og augljóst að tilvonandi brúðhjón heilluðust að hönnun hennar, fallegu handbragði og næmu auga fyrir snotrum smáatriðum. 

Fallegt borðskraut setur mikinn svip á brúðkaupsveisluna.
Fallegt borðskraut setur mikinn svip á brúðkaupsveisluna. Ljósmynd/aðsend/Iborycka.photo

„Eftir þessi tvö ár hef ég öðlast reynslu og mun meira sjálfstraust í þessum bransa. Ég sé að ég er fullfær um að sjá um skipuleggja veislur og viðburði og hef vissulega fullt fram á að færa á þessum markaði. Það var á þeim tímapunkti sem ég sá raunverulega hvað ég gat gert að ég ákvað að láta slag standa og stofna Og Smáatriðin,“ segir Alína um upphafið á brúðkaupsskipulags fyrirtækinu sínu.

„Helsti munurinn á mér og hefðbundnum viðburðarstjórnanda er sá að ég vinn mun meira náið með fólki en flestir aðrir,“ segir Alína sem leggur allt sitt kapp á að vera tilvonandi brúðhjónum innan handar með því að hlusta á hugmyndir þeirra og væntingar. „Ég elska þetta starf. Ég elska að vinna náið með nýju fólki. Ég hef ákveðna löngun til að vera sá vinur þeirra sem kemur með góð ráð og fær ekki nóg af því að hlusta á þau tala um stóra daginn sinn. Ég leiðbeini, kem með hugmyndir sem hámarka þeirra hugmyndir, leyfi þeim að skína og styð við þau í gegnum allt ferlið svo þau geti upplifað drauma daginn á þann hátt sem þau sáu fyrir sér, geti skapað fallegar minningar og notið sín. En ekki vera í stressi og kvíða.“

Alínu þótti mikið vanta á markað þegar hún gifti sig …
Alínu þótti mikið vanta á markað þegar hún gifti sig sjálf fyrir þremur árum. Eitt af því voru persónuleg og handgerð boðskort. Ljósmynd/aðsend/Iborycka.photo

Alína mun seint láta lífið úr leiðindum en hún er fylgin sér og er óhrædd við að láta verkin tala. Ásamt því að halda úti bæði vefsíðum og samfélagsmiðlum heldur Alína einnig úti hlaðvarpsrásinni Brúðkaup og smáatriðin. Á þeim vettvangi fær hún tækifæri til að láta ljós sitt skína og deilir hagnýtum ráðum með tilvonandi brúðhjónum, enda er það eitt hennar helsta áhugamál og umræðuefni.

„Það fyrsta sem ég ráðlegg fólki er að gera fjárhagsáætlun áður en það byrjar að plana,“ segir Alína. „Það er gott að pörin finni í upphafi þrjá hluti sem skipta þau mestu máli og reyni að muna að það eru engar reglur,“ segir hún með áherslu. „Fjárhagsáætlun er mjög mikilvæg. Fæst okkar eru milljarðarmæringar svo til að forðast óþarfa vonbrigði eða eiga ekki efni á drauma brúðkaup er betra að hafa einhverja áætlun til að styðjast við og til að geta séð heildarmyndina fyrir sér,“ bendir Alína á. „Ég vil að fólk upplifi eintóma hamingju og gleði en ekki eftirsjá eða vonbrigði,“ segir hún og bætir við að stundum geti það komið sér vel að byrja að safna fyrr en seinna fyrir stóra deginum.

Alína gefur tilvonandi brúðhjónum góð og gagnleg ráð, allt frá …
Alína gefur tilvonandi brúðhjónum góð og gagnleg ráð, allt frá minnstu smáatriðum til stærri ákvarðana. Ljósmynd/aðsend/Iborycka.photo

Gildismat brúðhjóna getur verið frábrugðið en Alína mælir með að tilvonandi hjón skipuleggi brúðkaupið með opnum hug og festi sig ekki í gömlum hefðum. Hún segir allt leyfilegt þegar kemur að slíkum hátíðahöldum og að hún kunni vel að meta það þegar tilvonandi brúðhjón eru reiðubúin í að fara í bága við normið.

„Mörgum finnst eins og þeir þurfi að gera hlutina á ákveðinn hátt og alls ekki á annan veg því þannig hefur það alltaf verið. Raunin er hins vegar sú og mikilvægt að muna að bestu dagarnir eru yfirleitt þeir dagar sem eru sönn endurspeglun á því hver brúðhjónin eru og þegar persónuleiki þeirra fær að skína í gegn. Það er ekkert sem þarf að vera, gera eða kaupa. Það er heldur engum sem þarf að vera boðið eða gefið ákveðið verkefni. Þú þarft heldur ekki að mæta eða fylla ákveðnar væntingar nema þínum eigin. Þetta er dagurinn ykkar, það eruð þið sem ráðið ferðinni. Engar reglur,“ segir Alína. „Maður vill geta horft til baka eftir 30 ár og verið enn ástfanginn af deginum sínum og fyrir það hvað hann var persónulegur og einstakur. Það finnst mér vera lykilatriðið.“   

Það er að mörgu að huga þegar brúðkaup eru annars …
Það er að mörgu að huga þegar brúðkaup eru annars vegar. Til dæmis að velja hin fullkomnu spariföt. Ljósmynd/aðsend/Iborycka.photo
Það getur verið ansi snúið að finna réttu giftingahringana en …
Það getur verið ansi snúið að finna réttu giftingahringana en klassískir sléttir gullhringar verða oftast fyrir valinu vegna einfaldleikans. Ljósmynd/aðsend/Iborycka.photo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál