Erfir sonurinn breskan vel stæðan föður sinn?

Íslensk kona leitar ráða vegna barnsföður síns sem er breskur.
Íslensk kona leitar ráða vegna barnsföður síns sem er breskur. Ljósmynd/Unsplash

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður er varðar hans föðurarf. 

Sæl Þyrí. 

Sonur minn á breskan föður, löglega feðraður í gegnum sýslumann á sínum tíma. Faðirinn hefur ekkert samband lengur og er nú orðinn 77 ára gamall. Hann er vel stæður. Sennilega á hann fleiri börn úr seinni samböndum. Við höfum breskt heimilisfang hans og símanúmer en hann svarar okkur ekki. Hvernig sækir sonur minn sinn rétt til föðurarfs þegar sá tími kemur?

Kveðja, 

BB

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl

Þar sem barnsfaðir þinn er breskur og búsettur í Bretlandi gilda um andlát hans og erfðir breskar lagareglur en ekki íslenskar. Í Bretlandi gilda allt aðrar reglur um arf en hér á landi. Til dæmis geta einstaklingar arfleitt með erfðaskrá hvern sem er að öllum eigum sínum þó þeir séu giftir og eigi börn, ólíkt því sem gildir hér á landi. Þá er erfðafjárskattur í Bretlandi mjög hár.

Hvort eða hvernig þið fáið tilkynningu um andlátið eða upplýsingar um hvort erfðaskrá sé til staðar er hins vegar erfitt að segja til um. Við lögmenn hér á Íslandi erum þó flest í ýmsum samskiptum við kollega erlendis og yrðum ekki í vandræðum með að koma þér í samband við lögmann úti í Bretlandi sem gæti aðstoðað þig við að gæta að arfsrétti sonar þíns.

Með kveðju,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is