Er best að gera erfðaskrá eða ekki?

Hjón velta fyrir sér hvort þau eigi að gera erfðaskrá …
Hjón velta fyrir sér hvort þau eigi að gera erfðaskrá eða ekki. Ljósmynd/Unsplash

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem veltir fyrir sér hvort betra sé að gera kaupmála og erfðaskrá eða ekki. 

Góðan dag,

ég og konan mín erum að velta fyrir okkur hvort við eigum að gera kaupmála og erfðaskrá. Við eigum eitt barn saman en hún á 3 uppkomin börn úr fyrra hjónabandi.

Hvernig virkar það ef við gerum erfðaskrá um að sá aðili sem eftir lifir sitji í óskiptu búi?

Er þá öllu skipt jafnt við uppgjör dánarbúsins og sá aðili sem eftir lifir á það og erfir svo 1/3 af hinum helmingnum?

Hvernig er með séreignarsparnað, þarf að taka fram ef maður vill að sá aðili sem eftir lifir haldi alveg sínum séreignarsparnaði?  Nú á ég töluvert hærri séreignarsparnað en konan mín. Ég er að velta fyrir mér ef hún deyr á undan hvernig það virkar. Færi minn séreignarsparnaður líka inn í heildarupphæð dánarbúsins? Ef ég færi á undan myndu börnin hennar erfa minn séreignarsparnað eða bara barnið okkar?

Kveðja, 

BJ

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Góðan dag

Að sitja í óskiptu búi þýðir það að skipting á dánarbúi þess sem lifir skemur frestast þar til bæði eru látin. Þegar búinu er svo skipt, eftir að bæði hjónin eru fallin frá, þá fellur niður erfðarétturinn á milli hjónanna. Í þínu tilviki myndi þannig helmingur konunnar þinnar skiptast í fjóra hluta (til fjögurra barna hennar) en þinn helmingur renna óskiptur til eina barnsins þíns.

Hið sama á við um séreignarsparnaðinn. Hann rennur einnig til erfingja eftir sömu reglum, þ.e.a.s. barnið þitt erfir þinn séreignarsparnað ef búinu er skipt eftir dag ykkar hjónanna beggja.

Ef að ekki er setið í óskiptu búi og dánarbúi þess maka sem fallinn er frá er skipt meðan sá maki er lengur lifir er enn á lífi gilda aðrar reglur. Þá erfir eftirlifandi maki 1/3 og börn 2/3. Það gildir líka um séreignarsparnað.

Með kveðju,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is