Styles skammaðist sín fyrir kynlífið

Harry Styles.
Harry Styles. TAL COHEN

Tónlistarmaðurinn Harry Styles segist hafa átt erfitt með að treysta fólki frá því hann fyrst öðlaðist frægð. Styles opnaði sig upp á gátt í nýjasta tímariti Better Homes & Gardens á dögunum í tilefni að væntanlegri breiðskífu hans sem kemur á markað í næsta mánuði og hefur fengið nafnið Harry's House

Kynhneigð Styles hefur lengi verið á milli tannanna á fólki. Af ásettu ráði hefur Styles kosið að ræða ekki opinberlega um kynhneigð sína og tilhugalíf í gegnum tíðina en í dag á hann í ástarsambandi við leikkonuna Oliviu Wilde. Samband þeirra kom aðdáendum Styles í opna skjöldu en þeir höfðu lengi velt vöngum sínum um kynhneigð Styles og töldu hann margir hverjir vera samkynhneigðan. 

„Í langan tíma leið mér eins og það eina sem væri mitt væri kynlífið mitt,“ sagði fyrrum One Direction-meðlimurinn. „Ég skammaðist mín svo mikið fyrir það að stunda kynlíf. Ég skammaðist mín við þá tilhugsun að fólk vissi að ég stundaði kynlíf og það vissi jafnvel líka með hverjum ég stundaði það,“ sagði Styles og vísar til þess að heimspressan hafi leitast eftir að fjalla um hans persónulegu einkamál. 

Á erfitt með að treysta 

Styles viðurkenndi að hræðast viðtöl við fjölmiðla. Sagðist hann óttast það að segja eitthvað vitlaust eða heimskulegt sem hægt væri að nota gegn honum.

„Það er stressandi að finna út úr því hverjum maður getur treyst,“ sagði Styles. „En svo komst ég á þann stað á ákveðnum tímapunkti þar sem ég hugsaði: „Af hverju skammast ég mín? Ég er 26 ára einhleypur karlmaður og hvað með það þó ég stundi kynlíf,“ útskýrði Harry Styles sem í dag er 28 ára gamall í sambandi með tíu árum eldri konu. 

„Það er mikilvægt að vera opnari fyrir hlutum og samþykkja alla eins og þeir eru.“ 

Styles segist eiga erfitt með að treysta fólki og fjölmiðlum.
Styles segist eiga erfitt með að treysta fólki og fjölmiðlum. AFP
mbl.is