Vilja karlar upp til hópa 45 kílóa konur?

Þær upplýsingar sem flæða upp á yfirborðið þessa dagana gefa …
Þær upplýsingar sem flæða upp á yfirborðið þessa dagana gefa tækifæri til breytinga. Það þarf að hafa trú á mannkyninu og skoða menningu þá sem við erum að alast upp í. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem velt­ir fyr­ir sér hvort allir karlar landsins séu ógeðslegir karlar sem hlutgera konur. 

Hæ Elínrós.

Ég er 55 ára kona og verð að játa að ég triggeraðist mjög mikið þegar ég las það í fréttum að þingmaður hefði sent skilaboð á vin sinn þess efnis að hann hefði sofið hjá 45 kílóa konu – smokklaust. Fyrir nokkrum árum átti ég í ástarsambandi við mann sem spáði aðeins of mikið í þyngd. Hann gerði stöðugar athugasemdir við hvað ég borðaði og ef ég fékk mér eitthvað sem er óhollt þá kleip hann í mittið á mér og spurði mig hvort ég hefði gott af þessu. Svona eftir á að hyggja var ég komin með þráhyggju fyrir mat og hugsaði stöðugt um að ég þyrfti að neita mér um eitthvað. Þegar við hittumst eftir vinnudaginn vildi hann fá að vita í smáatriðum hvað ég hefði borðað yfir daginn. Ef ég taldi eitthvað upp sem innihélt sykur eða mikla fitu snéri hann sér á hina hliðina þegar við vorum komin upp í rúm og neitaði að sofa hjá mér. Þetta gerði það að verkum að ég varð miklu sjúkari í sætindi og óhollustu og var alltaf að stelast til að borða því ég vildi ekki styggja hann.

Fyrir um tveimur árum dömpaði hann mér en þá var hann búinn að finna aðra mjórri og yngri til að vera með. Ég er búin að vera lengi að jafna mig og satt best að segja treysti ég mér ekki út á deit-markaðinn því ég er svo hrædd um að lenda aftur í klónum á svona hræðilegum manni. Þegar ég sá þessa frétt um þingmanninn hugsaði ég með mér hvort allir karlar væru svona. Hvað heldur þú? Eru karlar svona upp til hópa?

Kær kveðja,

BB

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar BB og takk fyrir spurninguna þína. 

Ef ég dreg þetta saman sem þú ert að skrifa þá hljómar það eins og þú hafir verið í sambandi við aðila sem var til í að vera í sambandi við þig. Eða svo lengi sem þú leist út eða hagaðir þér eins og hann vildi. Það er lítil gagnkvæmi í því og mikið til á hans forsendum. 

Ef áhugi hans var ekki meiri en svo að það miðast við þyngd þína á vigtinni þá gefur það tilefni fyrir þig að skoða á hvaða forsendum þú fórst inn í sambandið. Hvað kom upp og hvað þú getur lært af slíkum samböndum?

Nú er ég ekki að fella neinn dóm yfir mönnum sem vilja hafa konur, 45 kg og afar mjóar, en í áfallafræðum gæfi það alltaf tilefni til að skoða. Hvað gerðist í æsku viðkomandi? Samkvæmt viðmiðunarmörkum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO teljast þeir vera í kjörþyngd hafa líkamsmassastuðul á bilinu 18,5 til 24,9. Þeir sem hafa BMI undir 18,5 eru taldir vannærðir. 

Þegar karlar eru með óraunhæfar kröfur á þyngd kvenna og eru komnir inn á þau svæði, þar sem börn tilheyra, frekar en fullorðnir, þá myndi ég staldra við og stoppa. Það er alls ekki eðlilegt né í lagi. 

Það er mjög algengt að við reynum að þóknast þeim sem við erum í sambandi við. Það er hins vegar ekki góður grunnur að byggja á og leiðir gjarnan til meiri sársauka. Eitt sinn heyrði ég það, að höfuðsynd karla í sambandi væri egóið og konunnar þjónustulundin.

Ég heyrði líka eitt sinn sögu af konu sem hafði alltaf svo miklar áhyggjur á stefnumótum um að karlarnir sem hún hitti hefðu áhuga á henni. Föður hennar var farið að lítast illa á blikuna og bað dótturina að hitta sig. Hann settist niður með henni og sagði að konur væru jafnmikils virði og karlar. Hann fékk hana til að skoða af hverju hún spái ekki meira í því hvernig henni litist á karlana sem hún væri að fara með á stefnumót, frekar en að vera að spá i hvernig þeim litist á hana. Svo útskýrði hann fyrir henni sinn eigin karla-vinahóp. Hvernig sumir sem gætu litið vel út við fyrstu sýn væru ekki góðir menn að giftast. Aðrir sem hún myndi kannski ekki reka augun í strax væru dásamlegir menn sem hefðu staðið sig vel gagnvart konum sínum og börnum. Hún þyrfti að vanda valið og gefa sér tíma í að kynnast þeim sem hana langaði í samband með. 

Þetta er nokkuð góð saga um hvernig mismunandi viðhorf geta leitt okkur á nýja staði. Eins minnir sagan okkur á að fólk er allskonar og í einum hóp - geta verið margar útgáfur af fólki. 

Ég held að konur séu allskonar og karlar líka. Ég held hins vegar að menningin okkar sé þannig að stundum hætti okkur til að horfa meira á útlit kvenna og gáfur karla. Við þurfum að breyta þessu og velja okkur maka, alþingismenn, stjórnendur og leiðtoga sem eru heilbrigðir. Því ef við gerum ekki neitt í málunum þá heldur þessi ómenning áfram að áfalla kynslóðirnar sem á eftir koma. 

Það er ekki í lagi að fólk segi eitt og geri svo annað og alveg eðlilegt að fólk þurfi að fá viðeigandi viðbrögð við því. Það er bara fullorðinslegt og heilbrigt að taka ábyrgð á sér og afleiðingum hegðunar sinnar. Þú mátt því vera þakklát fyrir að vera ekki kærasta þess sem er með reglustikuna í samböndum og ekki láta þér detta í hug í eina mínútu að það verði eitthvað minna sársaukafullt fyrir næstu konu að upplifa þetta. 

Konur og karlar eru svo mikið meira virði en þyngd þeirra á vigtinni. 

Með bestu kveðjur, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is

Bloggað um fréttina