„Við grípum fólk áður en árekstrarnir byrja“

Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður er fagmaður sem veitir skilnaðarráðgjöf, með samvinnu …
Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður er fagmaður sem veitir skilnaðarráðgjöf, með samvinnu og hagsmuni heildarinnar í huga.

Það er áhugavert að ræða við Þyrí Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmann um skilnaði. Hvernig er hægt að fara í gegnum það ferli að skilja, á meðvitaðan hátt án þess að láta erfiðar tilfinningar flækja málin. Ekki veitir af ráðgjöf því tengdu því skilnaðir eru orðnir daglegt brauð þó fáir ætli sér í gegnum þá þegar til sambanda eða hjónbanda er stofnað. 

Málefni er varða skilnaði og sambúðarslit eru stundum minna rædd en málefni ástarinnar. Það eru til allskonar bækur um hvernig má láta sambönd ganga upp, en öllu færri um hvernig má skilja með hamingju og sátt í huga. 

Það fer enginn í hjónband með það að leiðarljósi að …
Það fer enginn í hjónband með það að leiðarljósi að ætla að skilja. Hins vegar getur verið gott að mati Þyríar Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, að skoða skilnaðarferlið á meðan að allt leikur í lyndi. mbl.is/Colourbox

„Við Gyða Hjartardóttir, félagsráðgjafi MA, erum eigendur vefsíðunnar skilnaður.is en síðan er  samvinnuverkefni tveggja sérfræðinga sem hafa mikla reynslu af skilnaðarmálum og öllu því sem fylgir því að skilja. Forsenda þess að standa sig vel í að skilja, er að hafa þekkingu á ferlinu að okkar mati og að hafa fagfólk með í ráðum sem geta bent á sameiginlega hagsmuni og frið í ferlinu,“ segir Þyrí og útskýrir þjónustuna eftir að blaðamaður veltir upp þeirri spurningu hvort vandamálin séu ekki löngu farin af stað og hvort góður skilnaður sé ekki langsótt hugmynd?

„Langflestir sem skilja vilja fá aðstoð með ferlið og að það sé sem best fyrir alla aðila. Það er mín tilfinning. Á síðunni skilnaður.is viljum við annars vegar veita upplýsingar fyrir þá sem eru að hugleiða skilnað og svo bjóða upp á skilnaðarráðgjöf ef við á.

Að sjálfsögðu er oft ágreiningur sem fer af stað í nánu parasambandi áður en fólk ákveður að skilja, en það er hægt að vanda sig í að ganga frá málunum í skilnaði. Svo má ekki gleyma að tala um alla þá sem skilja, sem vaxa í sundur í sambandinu, án mikilla erfiða tilfinninga.  Það er hópurinn sem leitar mikið til okkar í gegnum síðuna. Mín tilfinning er sú að meirihluti fólks nær að vanda sig í að ganga frá málunum í skilnaði með sátt og samkomulag í huga.  Við viljum tryggja að sú sátt endist.“

Þyrí líkir því að huga að skilnaði við gerð erfðarskrár því ferlið er oft löngu byrjað áður en til kastanna kemur.   

„Við gerum erfðarskrá, til að skrá niður hvað við viljum að gerist með eignir okkar eftir að við deyjum, þó við höldum alltaf að við séum ekki að fara að deyja. Það sama má segja um skilnaði, það er hollt og gott fyrir alla þá sem fara í hjónaband að vita, hvað mun gerast ef til skilnaðar kemur.“

Hvað er fólk sem leitar til ykkar almennt að kljást við?

„Fólk er að fara í gegnum allt mögulegt. Algengt er samskiptaleysi, fólk vex í sundur og ástin slokknar, án þess að til mikilla átaka komi. Gyða hefur sérhæft sig í fjölskyldu- og foreldraráðgjöf og er einstkur fagmaður í að aðstoða fólk með samskipti og að ráðleggja með góð samskipti, sér í lagi fyrir einstaklinga sem vilja halda áfram að vera góðir foreldrar þó þeir séu ekki lengur í hjónabandi.

Ég ráðlegg með fjárskiptin, eignaskiptingu og því tengdu, einnig með lögfræðilega grunninn tengt málefnum barnanna og fleira svo hægt sé að klára skilnaðinn. Gyða ráðleggur um allt  tengt samskiptum og hvernig best er að vera fráskildir foreldrar saman.“

Þyrí leggur áherslu á hversu miklu máli skiptir að láta ekki tilfinningar hlaupa með sig í öngstræti og ástæður þess. 

„Það er mikilvægt að vera ekki drifinn áfram af tilfinningum, reiði og sárindum. Það er alveg eðlilegt að skilnaðarferlið taki á, skiljanlega, það fer enginn í hjónaband til að skilja. Lykillinn að góðri lausn er alltaf að komast á þann stað að geta tilfiningarnar til hliðar. En að sjálfsögðu, eru til erfiðir skilnaðir, þar sem ofbeldi, alkóhólismi og fleira er að hafa áhrif. En samstarf okkar Gyðu byggir á því að við störfum fyrir fólk sem vill sama lögmanninn fyrir báða aðila og sama fagmanninn fyrir samskipti, þar sem ekki er um að ræða átök um andstæða hagsmuni.“

Þyrí segir það koma fólki á óvart hversu mikill munur er á því að slíta sambúð og hjónabandi.

„Það er gríðarlegur munur á réttarstöðu fólks, helst þegar kemur að eignaskiptingu eftir sambúð eða hjúskap. Það eru svipaðar reglur um málefni barnanna, en ólík réttarstaða fólks í vígðu hjónbandi eða í sambúð, virðist alltaf koma fólki jafnmikið á óvart. Staðan er mun sterkari þegar kemur að eignum, ef um hjónaband er að ræða, fyrir báða aðila.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eru að hefja hjónaband núna?

„Ég ráðlegg öllum hjónum á góðum stað að afla sér upplýsingar og kynna sér málin og vera óhrædd við að ræða saman, um hvernig þau vilja gera hlutina ef til skilnaðar kemur. Þú tryggir ekki eftir á og það sama má segja um skilnaði. Það sem ég get svo ráðlagt fólki sem vilja enda hjónabandið sitt, er að afla sér upplýsinga um ferlið og síðan að vanda sig, láta ekki tilfinningarnar stjórna heldur skynsemina.“

Þyrí sér ekki martækan mun á fólki þegar kemur að skilnuðum, eftir kyni.  

„Við erum líkari en við höldum og ég sé ekki mikinn mun á því hvernig konur halda á sínum málum, en karlar í skilnuðum. Það er enginn skilnaður eins og fólk bregst við á sinn hátt. Það er meira einstaklingsbundið en kynbundið,“ segir hún.

„Við grípum fólk áður en árekstrarnir byrja.“

mbl.is