Finnst íslenskir karlar bara vilja „minni“ konur

Fallegt fólk er í allskonar stærðum. Fegurðin býr innra með …
Fallegt fólk er í allskonar stærðum. Fegurðin býr innra með fólki og er ekki fólgið í fullkomleikanum. Heldur í mennskunni. Hver einasta manneskja er falleg á sinn hátt. Unsplash/Laura Shouette

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að velta fyrir sér staðalmyndum um konur og stefnumótamenninguna. 

Sæl Elínrós

Ég furða mig á svo mörgu varðandi deit menninguna á Íslandi. Ég hef farið á Tinder og spjallað þar við nokkra menn en það er eins og ég sé að tala bara við sjálfan mig ég spyr og þeir svara.., ekki spyrja þeir mikið. Kannski spyrja þeir viltu koma og hitta mig í kvöld og stunda kynlíf ég segi nei og þá er mér eitt út eða ég eyði þeim af því ég nenni ekki að fá nein svör.

Ég er aðeins í yfirþyngd en myndarleg og auðvita frábærlega skemmtileg en það fellur ekki í kramið hér heima á Íslandi að vera í yfirþyngd, þú ert dæmd eftir því og fáir karlmenn líka við myndina þína á stefnumótasíðum.

Erlendis þá finnst mér menn dæma meira bara persónuna eftir að hafa spjallað við konuna og það er skemmtilegt. Manneskjan er ekki dæmt eftir þyngdinni né útliti.

Íslenskir menn mættu bæta sig í framkomu og ekki bara dæma konur af útlitinu og einnig ættu þeir að þora að setja „like“ á konur í stærri kantinum.

Ekki veit ég hvar ég finn draumaprinsinn en ég vona að hann komi.

Einnig er þetta bara áminning fyrir einstæða menn sem langar að kynnast góðum konum að vera ekki feimnir við að kynnast konum eða setja „like“ á konur á stefnumótasíðum í yfirþyngd því þær eru líka fallegar og skemmtilegar.

Hvernig er hægt að breyta þessari miklu útlitsdýrkun (mjóar og sætar) í það að      (stærri konur og sætar) fái líka tækifæri á að hitta góða menn?

Kær kveðja, X

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar X

Þegar ég dreg spurninguna þína saman þá veltir þú fyrir þér hvernig má koma stefnumótamenningu landsins á hærra plan og búa til svigrúm fyrir allskonar fólk. Sér í lagi konur, til að upplifa að vera dæmdar af verðleikum en ekki bara útliti, þegar þær finna sér maka. 

Ég á sögu að segja þér - um konu sem grennti sig um 20 kg til að ná sér í karlmann. Hún hafði upplifað mikla höfnun í samskiptum við menn og ákvað að sigra leikinn, á sínum forsendum. Það sem kom henni á óvart að hún fékk ekki öðruvísi viðbrögð frá karlmönnum. Það eina sem hún fann fyrir voru öðruvísi viðbrögð frá kynsystrum sínum. 

Mín reynsla er sú að það eru mjög margir einstaklingar að upplifa það sama og þú á stefnumótum, bæði konur og karlar. Málið er nefnilega að konur hlutgera karla líkt og karlar gera við konur. 

Hvernig manni ertu að leita að? Hvað áttu við með draumaprins?

Ég er handviss um að það er til einn einstaklingur fyrir alla. Áhugaverð góð manneskja sem hefur eitthvað að gefa. Fólk er allskonar og það er ekki sjálfsagt að finna öryggi í sambandi. Það sýna staðtölur okkur. Gott hjónaband/samband er vinna sem báðir aðilar verða að hafa áhuga á. Það er engin ávísun á hamingju að vera í löngu hjónbandi, ekki frekar en það er ávísun á óhamingju að vera einn og flottur - og ekki í sambandi. Í raun þurfa allir að kunna að vera einir og flottir - hvort sem þeir eru að æfa sig í ástum eða ekki. 

Til eru rannsóknir sem sýna að sumir verða órólegir í upphafi sambanda og aðrir þegar til þeirra hefur verið stofnað. Þetta er í kringum helmingur Bandaríkjamanna og sýna nýjustu rannsóknir að innan nokkurra ára má áætla að óörugg geðtengsl munu hrjá allt upp í 75% Bandaríkjamanna. Ég veit ekki til þess að gerðar hafi verið sambærilegar rannsóknir hér. Þeir sem eru með örugg geðtengsl nálgast ástarsambönd sín öðruvísi en þeir sem eru með óörugg geðtengsl. Þeir eru vanalega afslappaðri, með jákvætt viðhorf fyrir maka sínum og forvitnir og áhugasamir þegar eitthvað kemur upp á í samskiptum. 

Þeir sem eru með óörugg geðtengsl líta á veröldina, sér í lagi þegar kemur að stefnumótum og samböndum, meira sem svart/hvíta. Þeir eru hræddir við að tengjast öðru fólki og eru með allskonar hluti sem koma upp í samböndum sínum sem virðist elta þá út lífið ef ekki er eitthvað gert í málunum. 

Nú sýna rannsóknir að hægt er að vinna í geðtengslum og með langtíma meðferð geta einstaklingar þjálfað upp hæfni og eflt geðtengslin sín. Það getur tekið langan tíma. 

Ég mæli með því fyrir alla sem eru á þínum stað að vera í handleiðslu á sama tíma og þeir eru að leita fyrir sér á stefnumótamarkaðnum. Til að fá lánaða dómgreind og vinna í því sem kemur upp í samskiptum við annað fólk. 

Til eru allskonar kenningar sem þú getur nýtt þér og lesið þig til um. Þær kenningar sem ég aðhyllist eru þær að það þarf vanalega að vanda valið vel á makanum, samskipti þurfa að vera góð og fólki gengur betur í samskiptum ef þau eru á svipuðu róli í lífinu. Líkamlegt aðdráttarafl er eins mikilvægt að mínu mati. Eins tel ég mikilvægt að fólk æfi sig í að elska sig áður og á meðan það er að æfa sig í samböndum. 

Það eru margar áhugaverðar bækur til um stefnumót. Af hverju verður þú ekki ein þeirra sem hefur jákvæð áhrif á menninguna hér á Íslandi? Ég held að best sé að breyta menningunni með því að tala um hlutina á opinskáan hátt líkt og þú gerir, með forvitnina að leiðarljósi. 

Enda er þetta með staðalmyndirnar svo úrelt. Þeir sem virka fullkomnir á netinu, er bara venjulegt fólk líkt og ég og þú. Leitin að hinu fullkomna er rómantísk „fantasering“ sem heldur fólki í viðjum einmannaleikans. 

Enda er það vitað að þeir sem sjá eigið virði eru glöggir að koma auga á það í náunga sínum. 

Gangi þér alltaf sem best og haltu áfram að vera þú!

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál