Valdimar og Sigurborg fundu ástina í Öldutúnsskóla

Það er mikið að gera þessa dagana hjá Valdimar Víðissyni …
Það er mikið að gera þessa dagana hjá Valdimar Víðissyni en hann hefur alltaf tíma fyrir konuna sína. Ljósmynd/Aðsend

Valdimar Víðisson, skólastjóri í Öldutúnsskóla og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, er þekktur fyrir að vera einstaklega rómantískur maður. Valdimar og eiginkona hans, Sigurborg Geirdal kennari, kynntust í vinnunni. Hjónin eru dugleg að rækta ástina og settu sér það markmið þegar árið 2016 gekk í garð. 

„Við hjónin kynnumst í Öldutúnsskóla. Við erum bæði fráskilin. Þetta byrjar á því að Sigurborg var að vinna í því að koma mér saman við vinkonu sína en eitthvað small hjá okkur tveimur og við byrjuðum saman í staðinn,“ segir Valdimar og segir þau hafa verið saman síðan árið 2011. 

„Fyrst um sinn vildi ég halda sambandinu leyndu þar sem ég taldi að það væri ekki vel séð að skólastjórinn væri með kennara. Ég er svona frekar af gamla skólanum með þetta allt saman. En það var bara vitleysa og nákvæmlega enginn að spá í þetta nema við og þetta fer bara vel saman. Við höldum algjörlega aðskildu einkalífi og vinnunni. Hún fær formlega pósta frá skólastjóra eins og aðrir en hún leitar til annarra stjórnenda með þau mál sem þarf eins og til dæmis aðstoð með nemendamál og varðandi kennslu og fleira. En við Sigurborg erum sem sagt saman allan sólarhringinn.“

Valdi­mar Víðis­son og Sigurborg Geirdal kynntust í vinnunni og nú …
Valdi­mar Víðis­son og Sigurborg Geirdal kynntust í vinnunni og nú eru þau hjón. Ljósmynd/Aðsend

Eru saman allan sólarhringinn

Valdimar segist hafa orðið rómantískari með aldrinum. 

„Sigurborg opnaði það meira hjá mér og þá opnuðust í raun allar flóðgáttir. Rómantíkin kemur fram á svo marga vegu. Ég færi henni reglulega blóm og óvæntar gjafir og skipulegg Sigurborgardaga þar sem við gerum eitthvað saman allan daginn. Við erum líka mjög dugleg að fara á stefnumót og gera eitthvað saman. Við erum saman allan sólarhringinn þar sem við vinnum saman, búum saman og höfum sömu áhugamál. Okkur finnst fátt betra en að vera saman hvort sem það er að fara í hjólatúra, göngutúra, ferðalög, sumarbústaðaferðir, vera í sófanum og horfa á bíómyndir og svona mætti lengi telja. Á þessum 11 árum sem við höfum verið saman þá hefur það aldrei komið fyrir að við förum að sofa í sitthvoru lagi nema ef annað okkar er ekki heima seint að kvöldi en það gerist afar sjaldan.“

Hjónin eiga samtals þrjú börn. Dætur Sigurborgar eru fluttar að heiman og sonur Valdimars dvelur mikið hjá móður sinni í Hlíðunum. Þess vegnar hafa þau mikinn tíma bara tvö. Vadlimar bendir þó á að fólk þurfi ekki að vera tvö í heimili til þess að rækta ástarsambandið. 

„Ég held að það sé alltaf hægt að rækta sambandið hvort sem það eru börn á heimilinu eða ekki. Þetta þarf ekki að vera flókið. Hálftíma göngutúr, sundferð, ísrúntur eða eitthvað slíkt getur gert helling og einfalt að framkvæma slíkt þó það séu börn á heimilinu.“

Gera eitthvað nýtt í hverjum mánuði

Valdimar og Sigurborg strengdu skemmtilegt áramótaheit árið 2016.. Þau hétu hvort öðru að rækta ástina markvisst í hverjum mánuði. 

„Á miðnætti stóðum við úti á svölum og ræddum um árið sem var framundan. Kom þá fram sú hugmynd að í stað þess að strengja hefðbundin áramótaheit tengd heilsu og hreyfingu, sem væri erfitt að standa við, þá vildum við prófa að gera eitthvað nýtt saman í hverjum mánuði. Eina reglan var að við þyrftum að gera eitthvað sem við tvö hefðum ekki gert saman áður. Við skiptum á okkur mánuðunum og í raun eru þetta 12 óvissuferðir á ári. Sá sem skipuleggur segir hinum ekki hvert er verið að fara. Eingöngu hvenær við ætlum að gera eitthvað, hvað þarf að taka með og klukkan hvað. Við höfum gert ótalmargt. Til dæmis gengið að Glym, farið á öll söfn höfuðborgarsvæðisins, verið ferðamenn í Reykjavík, farið á sýningar sem við hefðum annars aldrei farið á, út að borða á nýjum stöðum, farið á skauta, í nudd, göngutúrar um svæði sem við höfum ekki verið á áður og svona mætti lengi telja.

Þetta áramótaheit er það skemmtilegt og gefur okkur svo mikið að við erum hvergi nærri hætt og erum núna á sjöunda árinu. Við höldum utan um hvað við gerum á Instagram og erum með myllumerkið nýttíhverjummánuði.“

Hjónin Valdimar og SIgurborg vinna ekki bara saman heldur deila …
Hjónin Valdimar og SIgurborg vinna ekki bara saman heldur deila líka áhugamálum utan vinnutíma. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig komi þið hvort öðru á óvart? 

„Við látum hvort annað vita hvenær á að vera tilbúin og með hvað. Þetta er yfirleitt eitthvað hversdagslegt, sjaldan mjög grand. Það eru þessir litlu hlutir sem skipta svo miklu máli. Til dæmis í vetur var nýtt sem ég skipulagði að fara að borða á nýjum skyndibitastað og svo fara í kvöldsund í sundlaug sem við höfðum ekki farið í. Yndisleg stund sem gaf okkur svo mikið. Þarf ekki að kosta mikið og margt af því sem við höfum gert hefur ekki kostað okkur neitt nema bensínið á bílinn að keyra þangað.“

Mikið að gera en hefur tíma fyrir konuna

Valdimar segir margt hægt að gera saman í Hafnarfirði. 

„Hafnarfjörður er mjög rómantískur bær. Að ganga meðfram sjónum á góðu sumarkvöldi, kíkja í Hellisgerði í jólabúningi í desember, fara í heimahús á tónleika á Heimahátíðinni síðasta vetrardag, mæta á tónleika í Bæjarbíó, leiksýningu í Gaflaraleikhúsinu, fara út að borða á fjölmörgum veitingastöðum, kíkja í kaffi á kaffhúsin, listasýningu í Hafnarborg og svona gæti ég haldið áfram lengi. Hjartað er orðið að nokkurs konar einkennismerki Hafnarfjarðar. Hjarta Hafnarfjarðar er til dæmis tónlistar- og bæjarhátíð sem hefur stækkað mikið síðustu ár. Hjartað tengist alveg vel við þessa rómantík.“

Valdimar og Sigurborg eru dugleg að rækta ástina hvort sem …
Valdimar og Sigurborg eru dugleg að rækta ástina hvort sem þau fara í ferðalög eða bara í sund. Ljósmynd/Aðsend

Það er mjög mikið að gera hjá þér, skólastjóri og í framboði, hefur þú alveg tíma í að koma konunni á óvart? 

„Þetta er erfitt núna þessar vikurnar en ég hef þó gefið mér tíma til að færa henni blóm og eyða stund með þessari yndislegu konu í hjólatúr eða fyrir framan sjónvarpið. En nýtt í hverjum mánuði verður tekið strax eftir kosningar. Við sleppum ekki úr mánuði og höfum aldrei gert allan þennan tíma,“ segir Valdimar. 

mbl.is