10 peningaráð fyrir pör

Pör eiga oft erfitt með að tala saman um fjármálin. …
Pör eiga oft erfitt með að tala saman um fjármálin. Hreinskilni og gagnkvæmur skilningur er mikilvægur þáttur í góðri peningastjórn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármál eru oft bitbein para enda hefur fólk oft misjafnar hugmyndir um hvernig er best að verja fjármunum heimilisins. Elizabeth Shaw er ráðgjafi sem sérhæfir sig í fjármálum og samböndum og gefur lesendum nokkur góð ráð.

1. Lærið að tala um fjármálin

Oft og tíðum veigrar fólk sér við að ræða fjármálin. Mörgum finnst það skammarlegt að vita ekki alla króka og kima fjármálaheimsins. Það er hins vegar ekkert til að skammast sín fyrir og aldrei að vita nema maður fái ýmis góð ráð, líka frá vinum og kunningjum.

2. Farið á stefnumót til þess eins að ræða um fjármálin

Margir sérfræðingar mæla með því að pör taki frá kvöld til þess að ræða fjármálin og fara yfir stöðuna. Það þarf að gerast á afviknum stað þar sem ekkert truflar og að slökkt sé á símum. Þetta gæti verið erfitt og krafist mikillar þolinmæði af hálfu ykkar beggja. En mikilvægt er að hafa opinn hug og ekki dæma.

Forðist að kalla hvort annað óábyrgt eða sjálfselskt. Takið eftir hvernig þið takið á móti gagnrýni og áhyggjum hvors annars. Takið þið hvort annað alvarlega? Eða blásið þið frá ykkur allar áhyggjur? Þetta snýst ekki um að hafa rétt fyrir sér heldur að finna sameiginlega leið eða málamiðlun sem leiðir til jákvæðrar útkomu fyrir báða aðila.

3. Skiljið hvernig þið horfið á fjármálin

Farið yfir það hvernig þið voruð alin upp með tilliti til fjármála. Hvernig fóru foreldrar ykkar með peninga? Voru þau sparsöm eða eyðslugjörn? Hvernig töluðu þau um peninga? Unnu þau saman að því að stjórna fjármálunum? Hvað virkaði fyrir þau og hvað ekki? Hvernig endurspeglast þetta allt saman í lífi ykkar í dag? Verða einhverjir árekstrar á milli ykkar?

4. Mikilvægt að hafa heildaryfirsýn

Það er gott að hafa ákveðnar hugmyndir um hvert peningarnir fara, setja til hliðar fjármuni fyrir ákveðna hluti. Það eru til ákveðin forrit sem hjálpa til við að halda utan um slíkt. Þegar heildarmyndin er komin þá er hægt að fara að setja sér markmið.

5. Peningar til að eyða

Margir sérfræðingar eru sammála um mikilvægi þess að hver aðili fær ákveðið fjármagn til þess að verja í það sem hann vill. Hann þarf þó að halda sér innan þess ramma.

6. Breyttu krísu í tækifæri

Stundum þarf krísa til þess að maður sjái ljósið og geri breytingar á lifnaðarháttum sínum. Þetta getur verið tækifæri til þess að fara yfir markmið sín fyrir lífið. Er það að stefna í rétta átt?

7. Varastu auðfengið fé

Kreditkort og það að borga seinna er freistandi en getur komið okkur í skuldir fyrr en varir. Þá getur okkur þótt það eðlilegt að skulda mikið. 

8. Valdaójafnvægi

Peningar geta skapað valdaójafnvægi í samböndum. Ef einn eyðir meira en annar eða einn vinnur ekki. Sá sem er ekki á vinnumarkaðnum líður illa yfir að vera ekki að leggja sitt af mörkum eða sá sem þénar meira er ósáttur við hvernig hinn eyðir peningunum. Þessa hluti þarf að ræða og takast á við í sameiningu.

9. Heiðarleiki og undirförulsemi

Það er ekki óalgengt að maki haldi einhverju leyndu fyrir hinum hvað fjármálin varðar. Nú er tími til að gangast við öllu sínu og koma hreint fram. Það minnkar líkur á alvarlegum átökum í framtíðinni.

10. Notaðu allar tiltækar leiðir

Gerðu allt sem þú mögulega getur til þess að lækka vexti, gjöld og annað sem getur sligað fjármálin. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda