Hvert fer spariféð eftir andlátið?

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér hver muni erfa séreignarsparnað hennar. 

Góðan daginn

Aðstæður okkur hjóna eru svipaðar og þess manns sem fjallað var um 24. apríl síðastliðinn, nema við eigum eitt barn saman og sitt hvort úr fyrra sambandi. Í svari þínu kemur meðal annars fram að séreignarsparnaður mannsins muni renna óskiptur til hans eina barns. Nú á ég umtalsvert meira sparifé á mínu nafni heldur en maki minn. Hvert mun það renna, að okkur báðum látnum, ef setið er i óskiptu búi?

Með fyrirfram þökk, 

GJS

Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Góðan dag.

Eins og kom fram í svari mínu sem þú vísar til, þá hefur seta í óskiptu búi þá þýðingu að að skipting á dánarbúi þess sem lifir skemur frestast þar til bæði eru látin. Þegar búinu er svo skipt, eftir að bæði hjónin eru fallin frá, þá fellur niður erfðarétturinn á milli hjónanna. Allar eignir ykkar renna þá eftir ykkar dag til barnanna ykkar, sem samkvæmt lýsingunni eru tvö börn á hvort ykkar, þ.e. sitt hvort barnið og svo eitt sameiginlegt.

Við andlát beggja hjóna, þegar ekki allir niðjar eru sameiginlegir, þurfa fyrst að fara fram eins konar helmingaskipti, þ.e. hreinni eign ykkar er skipt í tvennt. Helmingur konunnar rennur þannig til barnanna hennar og helmingur mannsins til barnanna hans.

Í ykkar tilviki verður þá niðurstaðan sú að sameiginlegt barn ykkar erfir helming af heildareignum ykkar en börnin sem þið áttuð hvort í sínu lagi, áður en þið giftust, erfa fjórðung hvort.

Með kveðju,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál