Mennirnir á barnum og Pamela Anderson

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Aldamótatískan er komin aftur í öllu sínu veldi. Útvíðar gallabuxur, þunnir silkikjólar með spagettíhlýrum og glitrandi toppar sjást í verslunum heimsins. Auk þess tókust endurlífgunartilraunir á djammtoppnum svo vel að hann er orðinn móðins á ný. Húðlitar sokkabuxur, há stígvél og flíkur sem sýna beran maga þykja ferlega fínar.

Það góða við endurkomu aldamótatískunnar er að í dag mega allir klæðast öllu án þess að vakúmpakka líffærum inn í húðlitar aðhaldssokkabuxur. Holdið má sjást enda eru fyrirmyndirnar allt aðrar í dag en þær voru um aldamótin. Þá vildu ungu konurnar vera jafn svangar og Jennifer Aniston og Kate Moss.

Stóru fréttirnar í þessu öllu saman er líklega að skvísur nútímans eru komnar með sama útlit og mæður þeirra reyndu að leika eftir forðum daga. Önnur kynslóð af Pamelu Anderson hefur litið dagsins ljós og segja sérfræðingar að sería um ár hennar með rokkaranum Tommy Lee kalli á þessar vinsældir.

Stelpur sem voru litlar, bústnar, dökkhærðar og með samvaxnar augabrúnir áttu erfitt uppdráttar á Pamelu Anderson-tímabilinu. Allir sólbrúnir djammþyrstir Kenar landsins voru í leit að sinni eigin Pamelu og stóð sú leit yfirleitt yfir á skemmtistöðum borgarinnar.

Ein af þessum litlu dökkhærðu með samvöxnu augabrúnirnar vann á bar. Það var auðvitað miklu gáfulegra að vinna sér inn peninga á djamminu en að puðra þeim út í loftið með kaupum á fimm í fötu. Það sem hún vissi hins vegar ekki er að þessi vinna á barnum átti eftir að hafa mótandi hugmyndir um ákveðna tegund af körlum.

Sólbrúnu Kenarnir sem voru fastagestir á barnum tóku yfirleitt þristinn. Þeir voru kannski rólegir á fimmtudögum en það var aðeins meira fjör á þeim á föstudögum og á laugardögum varð allt vitlaust hjá þeim. Þegar klukkan var korter í þrjú fóru þeir að ókyrrast og stuttu seinna voru þeir komnir með sína eigin Pamelu upp á arminn. Pamelu í stuttu pilsi, húðlitum sokkabuxum og háum stígvélum (með stór brjóst). Daginn eftir fóru þeir sama hringinn nema fundu nýja Pamelu í aðeins meira glansandi húðlitum sokkabuxum og kannski með aðeins stærri brjóst. Svona gekk þetta allar helgar, allan ársins hring.

Þessi litla dökkhærða sem vann á barnum lærði snemma að það væri betra að vera í heilum bol og pilsi á vaktinni – ekki skyrtu. Þegar ölvunarstigið jókst urðu hendur Kenanna stjórnlausar og þeir fóru að troða þeim inn á einkastaði annars fólks. Þessi litla dökkhærða hélt bara að þetta væri eðlilegt því allir sáu þetta en enginn sagði neitt. Væri kannski bara fylgifiskur þess að vinna á bar.

Það sem þessi litla dökkhærða lærði var að það getur verið gáfulegra að sleppa því að finna sér lífsförunaut að nóttu til og helst ekki á bar. Hún lærði líka að það eru ekki allir karlar heimsins eins og Kenarnir á barnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál