„Já, en Bjarni minn við vissum þetta alltaf“

Bjarni Snæbjörnsson leikari.
Bjarni Snæbjörnsson leikari. ljósmynd/Saga Sig

Bjarni Snæbjörnsson leikari er í einlægu viðtali í hlaðvarpinu Karlmennskunni um sjálfsævisögulega heimildasöngleikinn sinn, Góðan daginn, faggi og sársaukann sem fylgdi því að vera samkynhneigður.

„Það er allt í lagi með mig. Það er mikilvægt að átta sig á því að ég væri ekki að setja þetta á svið nema ég vissi hvað ég er að gera með það. Ég er búinn að fara í gegnum öldudalinn og finna nýja fleti á mér. Þótt við séum eins og laukur sem er endalaust hægt að flysja.“

Bjarni byggir sýninguna á eigin reynslu en ekki síst erfiðleikunum og fordómum fólks sem hann hefur umgengist, þar á meðal í uppeldisbæ sínum, Tálknafirði.

„Það kom oftar en einu sinni:  „Já, en Bjarni minn, við vissum þetta alltaf“ [...] Ég skil að þetta er vel meint, en þegar maður heyrir þetta eftir að maður er kominn út, þá er eins og það sé verið að gera allan sársaukann að engu, sem maður upplifði við þessa gríðarlegu togstreitu að vera hinsegin.“

Bjarni hefur áður lýst því hvernig hann reyndi að bæla niður kynhneigð sína, bað til guðs um að vera ekki samkynhneigður og þóttist hafa mjög mikinn áhuga á stelpum.

„En ef þið vissuð þetta, af hverju gerðuð þá ekki eitthvað? Af hverju tókuð þið ekki aðeins meira utan um mig? Af hverju leyfðuð þið mér ekki að finnast ég sérstaklega mikið velkominn? [...] Í staðinn fyrir að standa úti í ykkar horni og pískra um mig.“

Bjarni segir að svona athugasemdir hafi litla merkingu, eftir á. Þó fái hinsegin fólk iðulega að heyra þær. Honum finnst að fólk ætti frekar að beita sér fyrir því að fólk fái að finna að það sé velkomið, njóti stuðnings og finni að það tilheyri. Þá finnst Bjarna sársaukafullt þegar fólk snýr þjáningum hans eða hinsegin fólks almennt yfir á sjálft sig. „Þegar þau láta þetta snúast um sig, er það líka svo sársaukafullt.“ 

Mikilvægt að hlusta

„Veistu, það er allt í lagi þótt þú skiljir þetta ekki alla leið. Við getum ekki farið alla leið. Ég get ekki skilið hvernig það er að alast upp án allrar þessarar togstreitu [...] Mikilvægast er að þú hlustir á okkur og takir við því sem við höfum að segja um sársaukann og togstreituna,“ segir Bjarni þegar hann er beðinn um að útskýra nákvæmlega þá tilfinningu að finnast hann ekki passa inn, fyrir einhverjum sem ekki er samkynhneigður. Bjarni segir það ekki hægt. Hins vegar skipti máli að fólk sem ekki sé hinsegin, eða búi við mikil forréttindi, sé meðvitað um eigin fordóma og leggi sig fram við að leyfa fólki að vera eins og það er. 

Góðan daginn, faggi um landið

Bjarni vill gjarnan nota reynslu sína og forréttindi til að miðla reynslu sinni til sem flestra. Hann stefnir bæði á bókaútgáfu og ferðalag um landið með sýninguna sína, Góðan daginn, faggi.

„Við erum að vonast til þess að fara í ferðalag með [Góðan daginn, faggi] um landið, sem fyrst. Ég get alveg sagt frá því hérna, í fyrsta skipti opinberlega, að ég er að skrifa bók. Hún heitir faggabókin í bili, en það er næsta skref.“ 

Hægt er að hlusta á þátt­inn í heild sinni HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál