Draumabrúðkaup í hlöðunni heima

Sólveig Brynjudóttir og Hilmir Gunnar Ólason, Hlíðarhjónin eins og þau eru stundum kölluð, giftu sig í dásamlega fallegri hlöðu á bænum Hlíð í Ólafsfirði sem er í þeirra eigu.

Þegar þau Sólveig og Hilmir festu kaup á Hlíð og gömul rómantísk hlaða fylgdi með í kaupbæti má segja að gamall draumur um hlöðubrúðkaup hafi orðið að veruleika.

Hjónin giftu sig 4. september þegar 18 stiga hiti var í sveitinni fram á kvöld. Allir skemmtu sér konunglega og brúðhjónin upplifðu daginn sem þau hafði alltaf dreymt um saman.

„Við höfðum í nokkur ár leitað eftir hlöðu til að leigja, en slíkt hefur ekki verið að finna í firðinum okkar. Dagurinn í okkar eigin hlöðu var því fullkominn! Við giftum okkur um það leyti sem takmörkunum var aflétt vegna kórónuveirunnar. Það voru allir til í skemmtun og stemningin var engu öðru lík þó við segjum sjálf frá.“

Voru góðir vinir í tíu ár áður en þau fóru í samband

Sólveig og Hilmir kynntust í gegnum sameiginlega vini í jaðarsporti, á vélsleða og krossara, sem þau bæði stunda.

„Við urðum strax mjög góðir vinir og áttum alltaf gott trúnaðarsamband, og vorum bestu vinir í um það bil tíu ár áður en við svo fórum að vera saman. Á þessum tíma vorum við bæði einhleyp, maðurinn minn átti eitt barn og ég tvö, við vildum prófa hvað myndi gerast ef við tækjum sambandið áfram og eftir það varð ekki aftur snúið.

Í dag eigum við eina dóttur saman, svo það má segja að við séum stór fjölskylda sem veit fátt betra en að vera saman,“ segir Sólveig.

Upphaflega ætluðu þau að gifta sig árið 2020, en fundu þá enga hlöðu í firðinum til að leigja. Ofan á það bættist síðan ástandið í þjóðfélaginu vegna kórónuveirunnar svo þau ákváðu að fresta öllum brúðkaupsplönum.

„Í upphafi ársins 2021 fór sveitabær í firðinum á sölu, sem við vorum strax spennt fyrir. Þegar við fórum í heimsókn og skoðuðum hann kom í ljós þessi fullkomna hlaða sem við gætum nýtt meðal annars fyrir brúðkaupið.“

Ómetanleg aðstoð frá vinum fyrir brúðkaupið

„Við fluttum inn í maí og fengum svo vini og fjölskyldu með okkur í lið að græja hlöðuna og gera hana veisluvæna fyrir brúðkaupið,“ segja þau.

Eins og ljósmyndirnar sýna lögðu þau hjónin mikið á sig til að veislan yrði sem fallegust. Öll umgjörðin í hlöðinni var til fyrirmyndar enda vildu þau að upplifun gestanna yrði einstök.

„Mestan heiður eiga samt vinir okkar og ættingjar sem voru hér marga daga frá morgni til kvölds, með alls konar skraut og hugmyndir. Við eigum margar vinkonur sem eru miklir fagurkerar og er það meðal annars þeim að þakka að útkoman varð svona fullkomin að okkar mati.“

Fatnaður brúðhjónanna var rómantískur og fallegur og passaði mjög vel við náttúruna sem umkringdi þau á brúðkaupsdaginn.

„Hilmir fékk fötin sín í herradeild JMJ á Akureyri og ég fékk brúðarkjólinn minn í vefverslun Brúðhjóna á netinu.

Hringarnir voru keyptir hjá Halldóri Ólafssyni, og voru einmitt það sem við leituðum að,“ segir Sólveig.

Hvernig matur var í brúðkaupinu?

„Við vorum með heilgrillað lamb, sósu, salat og kartöflur. Í eftirrétt var súkkulaðiterta með smjörkremi sem systir mín gerði og frönsk súkkulaðiterta með rjóma,“ segir hún.

Mikilvægt að innsigla ástina með hjónabandi

Gott hjónaband í huga Sólveigar og Hilmars felur í sér virðingu, ást og vináttu. Þau eru á því að samband sé vinna og geti orðið betra með árunum.

„Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að leika sér með makanum til að næra sambandið. Við erum mjög heppin að því leyti að við eigum mörg sameiginleg áhugamál og æfum og leikum okkur saman nánast á hverjum degi, þegar Hilmir er í landi og ekki á sjó.

Við teljum að það sé lykillinn að góðu sambandi; að finna barnið í sér og huga að andlegri og líkamlegri heilsu í leiðinni,“ segir Sólveig.

Fyrir þau var mikilvægt að ganga í hjónaband.

„Það var eitthvað sem við vildum gera fljótt eftir að við kynntumst, ekki bara laganna vegna, heldur fannst okkur hjónabandið stórt skref í að undirstrika ást okkar hvors á öðru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál