Edrú í 12 ár en var næstum því dottin í það í vetur

Hilma Dögg er 41 árs og er gestur í nýjasta …
Hilma Dögg er 41 árs og er gestur í nýjasta hlaðvarpsþættinum Sterk saman.

Hilma Dögg er þriggja barna móðir sem átti í töluverðum erfiðleikum með vímuefni en hún hefur verið í bata frá þeim í tólf ár. Hún er nýjasti viðmælandinn í hlaðvarpinu Sterk saman.

Hilma er 41 árs og segir að þessi ár hafi verið upp og niður. Nú hefur hún klárað einkaþjálfaranám og segir að lífið sé upp á við. Hún er fædd á Akureyri en þegar hún var fjögurra ára var hún send í fóstur. 

„Ég og bróðir minn vorum á róló, akkúrat að borða nesti þegar það kom kona og talaði við fóstruna og okkur var sagt að fara inn í bíl. Við þekktum þessa konu ekki og ég man að ég spurði hvort ég mætti klára að borða, hef alltaf verið matargat. Þennan dag fórum við í fóstur á Blönduós og fórum ekki aftur heim til foreldra okkar,“ segir Hilma sem játar að hún hafi verið heppin með fósturforeldra sem enduðu á því að ættleiða hana. 

Hún var reið og erfið sem krakki. Þegar hún var 16 ára byrjaði hún að drekka og segir Hilma að það hafi fljótt orðið mikið vandamál. Þegar hún var 17 ára varð hún fyrir kynferðislegu ofbeldi en hún flúði tilfinningarnar með því að drekka. 

„Ég fór ung í meðferð, þar kynntist ég nýju fólki, ég sá að ég ætti fullt eftir,“ segir Hilma og heldur áfram: 

„Ég fór í margar meðferðir og í einni þeirra kynntist ég fyrsta barnsföður mínum. Það er ekki mælt með því en á þeim tíma var það gott fyrir mig, það leið ekki á löngu þar til ég varð ólétt,“ segir hún. 

Hilma náði að vera edrú um tíma en féll inni á milli þegar sonur hennar var ungur. Hún hélt á þeim tíma að það væri nóg að hætta neyslu en þyrfti ekki að vinna í líðan sinni.

„Í dag er sonur minn að verða 18 ára og á sjálfur í erfiðum vímuefnavanda, sá vandi byrjaði þegar hann var 12 ára gamall,“ segir hún. 

Aðspurð segir Hilma mun erfiðara að vera aðstandandi og vita af barninu sínu úti í neyslu. 

„Ég fæ aðstoð frá kerfinu núna en bara þar til hann verður 18 ára. Ég er samt heppin með hann, hann skilur mörkin sem ég set og verð að setja því ég er með tvö önnur börn á heimilinu og því er ekki í boði að hafa einstakling í virkri neyslu þar.“

Hilma er nýlega skilin við föður yngsta sonar síns.

„Þetta síðasta ár er búið að vera erfitt, ég viðurkenni það, lífið gerist þó maður sé edrú,“ segir hún og bætir við:

„Ég á tvo fyrirbura, dóttir mín kom níu vikum fyrir tímann og svo kom yngsti fjórtán vikum fyrir og er með CP, svo það eru ýmis verkefnin. Þó svo ég eigi fatlað barn þýðir samt ekki að vandamál annarra sé eitthvað minna skilurðu.“

Hilma er eins og við þekkjum öll, þessi „íslenska týpa“, áfram gakk og ekkert væl en við ræðum aðeins hvort hún hafi tekið það aðeins of langt þegar hún var komin á fallbraut í vetur.

„Ég var komin með pilluglas heim og farin að horfa ofan í það. Ég var að skilja, ein með krakkana, í námi, áhyggjur af elsta stráknum mínum alveg að fara með mig, hann hvarf reglulega en ég mátti ekki láta neinn sjá að það væri eitthvað að,“ segir hún. 

Hilma heyrði í vinkonu sinni einn daginn sem kom og fór með hana á bráðamóttökuna.

„Ég var búin að gráta stanslaust og gat ekki hætt. Mér fannst samt erfitt að fara á geðdeild því ég var ekki fallin en samþykkti á endanum að leggjast inn, sem betur fer.“

Hilma var á geðdeild í tvær vikur, kom tilbúin í páskana með fjölskyldunni fyrir norðan en á fyrsta degi fékk hún símtal sem ekkert foreldri vill fá.

„Ég var komin norður þegar ég fæ símtal frá gjörgæslunni að sonur minn sé þar og ekkert sé vitað hvernig það fari. Ég sest aftur upp í bíl og keyri í bæinn, sit við hliðina á honum í viku og klára verkefnin í skólanum og læri fyrir próf,“ segir hún. 

Hilma ræðir mjög opinskátt um allt líf sitt. Hún segir okkur frá sigrum, sorgum, áföllum og hvernig hún hefur unnið í sjálfri sér og því sem hún hefur þurft að upplifa.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni HÉR. 

mbl.is