„Ástríðan vægðarlaus sem hel“

Ljósmynd/Kári Sverriss

Lífið getur liðið hjá eins og samfelldur vinnudagur. Þess vegna skiptir máli að halda upp á vörðurnar á lífsleiðinni þótt það kosti kannski peninga og tíma. Giftingar eru gott dæmi um vörður á leiðinni þar sem vert er að staldra við. Hvort sem fólk laumast til sýslumanns eða leigir Laugardalshöllina undir ríkuleg veisluhöld.

Þegar fólk finnur aðra manneskju sem það hrífst af og hefur ásættanleg grunngildi þá ætti ekki að vera nein fyrirstaða að ganga í hjónaband. Samt sem áður lifum við í samfélagi þar sem hjónaband virðist vera stærri ákvörðun en að fjölga sér. Það þykir ekki fréttnæmt ef fólk eignast þrjú börn með þremur mökum fyrir þrítugt, en ef fólk tilkynnir brúðkaup þá lendir það undir spurningavagni.

Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi alltaf að ganga í hjónaband ef því líður þannig að það hlakkar til að koma heim til sín á hverjum degi. Hlakki til að vakna með viðkomandi og deila sínum hjartans málum. Fólk ætti líka að giftast þegar ástarblossinn er sterkur – ekki glataður og goslaus.

Það muna flestir eftir Palla sem var einn í heiminum. Munið þið hvað var leiðinlegt hjá honum? Hann gat gert allt sem var bannað, borðað allt nammið í búðinni og tæmt bankann því hann stóð opinn. Það gerði lítið fyrir hann því hann gat ekki deilt lystisemdnum lífsins með neinum. Svo varð hann logandi feginn þegar hann vaknaði og áttaði sig á því að þetta væri allt saman draumur eða kannski martröð.

Fólk sem finnur hinn hlutann af sér þarf ekki fjör og ferðavinninga. Það þarf ekki kampavín í morgunmat og gullflögur á kvöldin. Það þarf bara návist hvort annars því þá verður allt gott.

Þegar fólk ákveður að giftast skiptir máli að fólk sé til í að gefa örlítinn afslátt og kunni að gera málamiðlanir. Þess vegna mæli ég með því að fólk komi sér upp skissubók þar sem það skrifar niður vonir og þrár, útbúi gestalista, komi með hugmyndir hvað varðar hjónavígsluna sjálfa, geri kostnaðaráætlun og ákveði í sameiningu hvernig stóri dagurinn eigi að vera. Hjónaband er ekki fjandsamleg yfirtaka þar sem annar aðilinn ákveður allt og hinn hlýðir. Hjónaband á heldur ekki að vera eins og stofufangelsi. Fólk verður að geta sagt upphátt hvað það vill og hvað það vill ekki. Það þarf að ræða órómantíska hluti eins og hvað eigi að vera séreign og hvað eigi að vera sameign ef til skilnaðar eða andláts kæmi.

Hjónaband er ekki alltaf í rósum og eins og segir í Ljóðaljóðunum eftir Salómon þá getur ástríðan verið vægðarlaus sem hel:

„Settu mig sem innsigli á hjarta þitt,

eins og innsigli á arm þinn,

því að ástin er sterk eins og dauðinn

og ástríðan vægðarlaus sem hel;

hún er brennandi bál,

skíðlogandi eldur.

Vatnsflaumur fær ekki slökkt ástina og

stórfljót ekki drekkt henni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál