Konur reykspóla í burtu þegar þær heyra um blætið

Ljósmynd/Colourbox

Kyn­fræðing­ur­inn Sigga Dögg sem rek­ur vef­inn betra­kyn­líf.is svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá manni sem er með blæti fyrir leðurfötum en veit ekki hvernig hann á að segja konum frá þessu án þess að þær hlaupi í burtu. 

Hæ.

Ég er maður á miðjum aldri og hef alltaf verið þannig þannig að konur í leður buxum, latex, pollagöllum stígvélum og vöðlum æsa mig upp. Ég nýt alveg kynlífs án þess, en það er svo miklu betra þegar maður fær útrás fyrir því með stelpunni sem maður er hrifin af. Sjálfur klæðst ég því til að fá útrás þegar maður er einn. En mest fær maður út því þegar „hún“ klæðir sig upp á. Gallinn við mig svo er hve mikið ég læt eftir mér að kaupa af svona fatnaði, þótt engin stelpan sé með manni og safnið orðið stórt. Ég hef sett mig í þá stöðu að opna mig of fljótt um þetta „fetish“ mitt og stelpan hlaupið á brott og oftar en ekki pollagallar sem hræða mest. Er einhver ein leið að opna sig með „fetish“ og koma eðlilegur út úr því eða bara spurning með mótaðilann og hve opin hann er? Og nei ég get ekki lagt þetta á hilluna. Ég hef prufað það og það er bara vont.

Kveðja, 

Jón

Sigga Dögg kynfræðingur rekur vefin Betra kynlífs.
Sigga Dögg kynfræðingur rekur vefin Betra kynlífs. mbl.is/Árni Sæberg

Sæll minn kæri,

Það er nú einu sinni þannig með kink og blæti (e. fetish) að þau er ekki hægt að „leggja á hliðina“, það er hægt að útfæra hvernig unnið er með þau, en að afgreiða og gleyma, er ekki vænlegt til vinnings, eins og þú hefur komist að. Þetta er samt eitt af þessum blætum sem í raun skaðar engan, sumum finnst kannski svolítið skrýtið en er ekki beint flókið í útfærslu. Þetta er kannski spurning um að útfæra hvað það er við þessi efni eða flíkur sem blætið beinist að, er það efnið? Fötin sjálf? Merking þeirra? Öll erum við í búningum með ólíkum merkingum og í hugum sumar er merkingin ákveðinna flíka kynferðisleg en ekki í huga annarra. Svona er mannlegur fjölbreytileiki merkilegur! 

Þegar þú greinir blætið þitt aðeins, þá getur það aðstoða þig í hvernig þú ræðir það svo við tilvonandi elskhuga því það dýpkar og stækkar samræðurnar og getur aðstoðað þig við að koma því í orð þannig að viðkomandi geti átt auðveldara með að tengja við blætið, og þig.

Það er svo annað, þegar greint er frá blæti þarf traust að vera til staðar. Margt fólk á erfitt með að ræða um kynlíf, hvað þá fantasíur og hvað þá blæti! Ég myndi halda að þín fyrsta sía þyrfti því að vera hvernig þessi manneskja er þegar kemur að því að tala um kynlíf og þaðan er svo hægt að feta sig áfram í fantasíur og kink. Það er ágætt að muna líka að mörg höfum við kink, sem við jafnvel vitum ekki af. Þú ert því kannski kominn ögn lengra en margir og enginn skömm að því. Það er gott og fallegt að þekkja sjálfan sig svona vel. En svo er það líka annað - hvaða kröfu setur þú á bólfélaga / elskhuga til að taka þátt í blætinu þínu? Það er hluti af öðru samtali þegar traust hefur náðst og fólk er farið að ræða opinskátt um kenndir og langanir. Þetta er berskjöldun og fólk á misauðvelt með það.

Og hér er enginn tímarammi réttari en annar. Fólk er ólíkt og misopið og því er gott að byrja hægt og rólega á þessu spjalli áður en farið er lengra.

Gangi þér vel!

Kynlífskveðja,

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál